Smáþjóðaleikarnir fara fram á Íslandi dagana 1.-6. júní næstkomandi þar sem karla- og kvennalandslið Íslands hefja landsliðssumarið sitt. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ vill að framkvæmdin verði landi og þjóð til sóma og áréttar að þörf sé á fjölda sjálfboðaliða við leikana.
„Það er allt útlit fyrir skemmtilega keppni og allt er á fullu varðandi undirbúning. Þetta verkefni kallar á mikið af sjálfboðaliðum í körfuboltann sem er ein stærsta grein Smáþjóðaleikna sem og auðvitað allar hinar íþróttareinarnar. Talið er þörf á um 1200 sjálfboðaliðum og við hvetjum hreyfinguna okkar til að taka þátt í verkefninu. Það skiptir okkur miklu máli í körfuboltanum sem og innan íþróttahreyfingarinnar allrar að mótið takist vel og að verkefnið verði landi og þjóð til sóma, “ sagði Hannes en Smáþjóðaleikarnir hrinda af stað veglegu landsliðssumri.
„Þetta er já upphafið að landsliðssumrinu hjá karla- og kvennaliðunum okkar og það er mikið framundan hjá okkur í sumar og frábært að hefja jafn viðamikið landsliðssumar á heimavelli.“
Mynd/ af heimasíðu Smáþjóðaleikanna – Sara Rún Hinriksdóttir leikmaður Keflavíkur tók þátt í auglýsingaherferðinni fyrir leikana.



