spot_img
HomeAðsentKörfubolti: Æskulýðsstarf eða atvinnumennska niðurgreidd af hinu opinbera?  

Körfubolti: Æskulýðsstarf eða atvinnumennska niðurgreidd af hinu opinbera?  

Körfubolti er skemmtileg íþrótt. Í mínum huga sú allra skemmtilegasta. Gríðarleg spenna og mikil dramatík getur fylgt leikjum alveg fram á síðasta sekúndubrot og það gerir íþróttina einkar sjónvarpsvæna. Uppgangur hefur verið umtalsverður sl. ár og nú er svo komið að úrslitakeppnin í körfubolta er vinsælasti íþróttaviðburður ársins. Mikill áhugi og velgengni íþróttarinnar er því miður ekki nóg og virðist hreyfingin sem stendur á bakvið þessa frábæru íþrótt á Íslandi vera sjálfri sér verst

Hvað veldur því að körfuboltahreyfing, þar sem öll aðildarfélögin eru skráð sem almannaheillafélög,  getur ekki sent yngri landslið til keppni án þess að hver leikmaður greiði 600.000 kr. úr eigin vasa fyrir þátttökuna? Sama hreyfing setur sér leikreglur sem þýðir að hér starfa á annað hundrað erlendir leikmenn sem kosta félögin á annan milljarð á hverju tímabili í laun og annan kostnað. Síðan greiðir hreyfingin íslenskum leikmönnum hundruð milljóna í laun á hverju tímabili og þarf að auki að borga þjálfara, sjúkraþjálfara, styrktarþjálfara, ferðalög, dómara, leyfisgjöld, markaðssetningu o.s.frv. Þegar kemur að börnunum þá er leitað á náðir hins opinbera.

Þrátt fyrir þennan slátt á hreyfingunni leita sum félög innan hennar ítrekað á náðir sveitarfélaganna til að fá neyðarstyrki eða hreinlega yfirtöku á rekstrinum þegar hann er kominn í algjört óefni. Um þetta eru mörg dæmi bæði nýleg og eldri. Þá eiga nær öll félögin einnig möguleika á að nýta sér aðstöðu sem sveitarfélögin og þar með skattborgararnir borga fyrir. Félögin leita enn fremur leiða til að færa kostnað af afreksstarfinu yfir á barna- ungmennastarfið og gera áætlanir sem allar ganga út á að liðin þeirra endi tímabilið í oddaleik á heimavelli um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er staðan.

Jafnrétti ekki fyrir hendi

Jafnréttisstefna ÍSÍ sem öll félög innan Körfuknattleikssambands Íslands eru bundin af er síðan varla pappírsins virði. Hér er ég ekki að tala um launamuninn sem er á milli karla og kvenna í þessum deildum heldur allt hitt. Þegar í harðbakkann slær og peningar eru af skornum skammti þá hefur það ítrekað gerst að kvennastarfinu er  fórnað – lið dregið úr keppni og/eða meistaraflokkar hreinlega lagðir niður.  Oft er gripið til þeirra skýringa að nú eigi að byggja upp, leita í ræturnar og annað, en það virðist nánast eingöngu eiga við um kvennaliðin. Við þekkjum þessi dæmi bara allt of vel.  

Þeir sem gagnrýna þessa stefnu hreyfingarinnar með gögnum og rökum eru því miður í minnihluta. Rök á móti eins og útlendingaandúð eru dregin fram eða þá að markaðurinn eigi að sjá um þetta og að þetta sé ekki sósíalistahreyfing. Hálf broslegt að draga slíkt fram í ljósi þess að félögin njóta verulegra beinna og óbeinna styrkja frá hinu opinbera ár hvert og eru skráð sem almannaheillafélög í kerfinu og eru þannig engan veginn á einhverjum opnum markaði með starfsemi sína.

Almannaheillafélög?

Það er bæði skiljanlegt og eðlilegt að sveitarfélög styðji við íþróttafélög enda er íþróttaiðkun barna og ungmenna, ásamt því félagsstarfi sem því fylgir fyrir fjölskylduna alla, afskaplega mikilvægt lýðheilsumál sem sparar þjóðinni án efa mikinn kostnað í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Hins vegar er það óskiljanlegt að sveitarfélög styrki rekstur um tugi eða jafnvel hundruði milljóna sem er jafn ósjálfbær og raun ber vitni og jafn andsnúinn almannaheillahugsjóninni og því miður blasir við. Leikmenn sem þessi almannaheillafélög hafa lagt rækt við að byggja upp í gegnum barna- og unglingastarf hætta iðkun þegar fyrstu skrefin í meistaraflokkum eru tekin enda reynist ekkert pláss fyrir þá vegna þeirra reglna sem gilda í einni minnstu deild heimsins í kröfubolta. Tölur um hraðminnkandi spilatíma innlendra leikmanna sýna þetta svart á hvítu en virðast því miður ekki hafa nein áhrif á hvert hreyfingin er að stefna.

Tölurnar tala sínu máli

Þannig fækkaði íslenskum leikmönnum í æfingahóp í úrvalsdeild karla úr 197 í 147 frá tímabilinu 2017/2018 til tímabilsins 2022/2023 eða um 25%. Fækkunin var nær öll í aldurshópnum 20 til 27 ára en þar fækkaði um 49 leikmenn eða 45%.

Þegar á þetta er bent fara menn gjarnan í vörn og segja að leikmennirnir fái tækifæri í 1. deild sem þjóni uppeldishlutverki ungra leikmanna. En er það svo? Í 1. deild karla fækkaði íslenskum leikmönnum úr 176 í 134 á þessi tímabili eða um 24%. Í aldurshópum 20 til 27 ára fækkaði um 26 leikmenn eða um 32%. Ég veit ekki hvar þessir leikmenn eru í uppeldisbúðum en mig grunar að bumbuboltar félaganna séu því miður oft fýsilegri kostur fyrir marga leikmenn en það sem félögin bjóða upp á í úrvals- og 1. deild.

Kvennastarfið lítur aðeins öðrum lögmálum en karlastarfið sökum þess hve snemma ungir leikmenn koma í meistaraflokka og hve fáar konur leggja stund á íþróttina eftir 20 ára aldur. Þegar tölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að leikmönnum fjölgaði sem voru yngri en 20 ára en fækkaði um 20% í aldurshópnum 20 til 27 ára.

Niðurstöður og tillögur til úrbóta

Niðurstaðan er þessi: Leikmenn yngri en 20 ára eru til í að sitja á bekknum og spila nokkrar mínútur í leik í þeirri von að eftir þeim verði tekið, þeir bæti leik sinni og fái frekari tækifæri á næsta tímabili. Leikmenn sem eru eldri en 20 ára fá leið á þessu fyrirkomulagi og hætta iðkun frekar en að æfa 6 sinnum í viku og sitja svo á bekknum sem áhorfendur í liðum með 4-6 erlendum leikmönnum. Þetta hefur svo bein áhrif á gengi íslensku landsliðanna þar sem íslenskir leikmenn fá sífellt minni leikreynslu. Það er sorglegt að hreyfingin láti sig þetta í raun engu varða og haldi áfram á þeirri braut sem ég lýsti hér á undan. Sorglegt. Og það er eiginlega vandræðalegt að hlusta á forsvarsmenn hreyfingarinnar kvarta undan því hve lítið hið opinbera styrkir landsliðin okkar miðað við þetta stjórnleysi peninganna.

Tillögur

Ég er partur af þessari hreyfingu og ég er því partur af vandanum en vonandi líka lausninni. Setjum okkur raunhæfar reglur sem þjóna körfuboltanum í heild og þeirri staðreynd að félögin eru fyrst og fremst almannaheillafélög með rætur í ungmennafélögunum. Hér eru til dæmis nokkrar tillögur sem vert er að ræða. Ég hljóma án efa eins og Kató hinn gamli en það verður bara að hafa það:

  1. Í úrvalsdeildum karla- og kvenna þurfa alltaf að vera tveir uppaldir leikmenn á Íslandi inni á vellinum á hverjum tíma[1].
  2. Í neðri deildum karla- og kvenna þurfa alltaf að vera þrír uppaldir leikmenn á Íslandi inni á vellinum á hverjum tíma.  
  3. Erlendir leikmenn skoðist erlendir þangað til þeir öðlast ríkisborgararétt.
  4. Tekið verði upp leyfiskerfi sem hentar hreyfingunni og þörfum hennar
  5. Tekið verði upp launaþak. 
  6. Félag sem er með lið í úrvalsdeild karla er óheimilt að draga kvennalið úr keppni (hvort sem um lið í úrvals- eða 1. deild er að ræða) – viðurlög verði sektir og færsla niður um deild.
  7. Lið í efstu deildunum tveimur karla og kvenna megin skuldbinda sig til þess að greiða ákveðna upphæð árlega í uppbyggingarsjóð hjá KKÍ sem fer í að greiða niður landsliðsferðir yngri landsliða. Upphæð þessi skal vera 50% af heildarkostnaði landsliðsverkefna hvers árs og deilast niður á félögin eftir fjölda iðkenda hvers félags.

Körfuboltinn er í stórsókn en hann er líka í bráðri hættu vegna ákvarðana sem teknar eru í von um skjótan árangur og takmarkaðrar samstöðu innan hreyfingarinnar.

-Grímur Atlason, áhugamaður um körfubolta


  1. [1] Uppalinn leikmaður telst sá leikmaður sem er a) með íslenskt ríkisfang eða b) æfði körfubolta á Íslandi í a.m.k. tvö ár á aldrinum 12 til 16 ára.
Fréttir
- Auglýsing -