spot_img
HomeFréttirKörfuboltamenn fylltu Vetrargarðinn

Körfuboltamenn fylltu Vetrargarðinn

Fjölmargir lögðu leið sína í Smáralind í dag þegar Körfuboltadagur KKÍ var haldinn í fyrsta skipti. Margt var í boði en búið var að gera völl inni í Vetrargarðinum og stakar körfur voru á víð og dreif fyrir fólk til að spreyta sig á.
 
Klukkan tvö var Íslandsmeistaramótið í fingraspuna haldið, en það var Snorri Vignisson sem er fyrsti Íslandsmeistarinn í fingraspuna. Um þrjú voru leikmenna þeirra liða sem keppa í meistara meistaranna á morgun mættir til að spreyta sig í þrautabraut.
 
Í miðjum hasarnum náðum við í skottið á Hannesi Jónssyni formanni KKÍ og spurðum hann hver kveikjan af þessu hefði verið.
 
„Það hefur verið í umræðunni hjá okkur undanfarin ár að gera eitthvað nýtt til að vekja athyggli á körfubolta og við höfum oft velt fyrir okkur hvað við getum gert til þess. Þessi hugmynd hefur verið uppi undanfarin ár að nýta okkur Vetrargarðinn hérna í Smáralindinni og núna ákváðum við að láta verða að því og gera þetta að raunveruleika,” sagði Hannes um hvernig hugmyndin af Körfuboltadeginum hafi komið til.
 
„Þetta hefur svo sannarlega tekist mjög vel og hinn almenni íþróttaáhugamaður sem er ekkert mikið að koma á leikina sjálfa og taka þátt í körfubolta fær að kynnast íþróttinni og vonandi náum við að fá þá til að fá áhuga á íþróttinni okkar skemmtilegu.”
 
Aðspurður um daginn í heild var Hannes mjög ánægður. „Ég er mjög sáttur. Maður vill alltaf fá fleira fólk en það er búið að vera það mikið rennerí hérna í dag að ég held á endanum að þetta eigi eftir að telja nokkur þúsund manns sem hafa komið og skotið á körfuna,” sagði Hannes sáttur við útkomu dagsins.
 
En verður þetta árlegur viðburður?
„Ég vona það. Við erum að vinna þetta mjög náið með Smáralindinni og ef að við getum tekið þátt í svona með þeim hérna þá er það okkar vilji og ég held að ég geti sagt að það sé 99,9% líkur á því að við gerum þetta aftur. Við höfum líka lært helling á því að gera þetta í fyrsta sinn. Núna vitum við hvernig þetta er, við erum með flottan körfuboltavöll hérna, stakar körfur og næst þegar við gerum þetta þá verður þetta bæði skemmtilegra og flottara,” sagði Hannes sem var greinilega ánægður með útkomu dagsins.
 
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -