Á haustmánuðum 2014 fékk ég tækifæri til að vera lærlingur í körfuknattleiksþjálfun í 5 vikur (ICAB – international coaching apprenticeship in basketball) á vegum bandaríska Ólympíusambandsins og University of Delaware áamt sex öðrum þjálfurum frá Evrópu og einum frá Nýja Sjálandi. Þjálfarar þurftu samþykki frá Ólympíusamhjálpinni og FIBA fyrir þátttöku. Ein af ástæðunum fyrir því að þetta tækifæri bauðst mér er sú að allir þjálfararnir frá Evrópu, þar á meðal ég, höfðu lokið FIBA Europe Coaching Certificate (FECC) sem er þjálfaramenntun á vegum evrópska Körfuknattleikssambandsins. ICAB prógramminu er skipt upp í þrjá hluta og er ætlunin að lýsa þeim hér að neðan.
Fyrsti hluti: undirbúningur
Fyrsti hlutinn var fjögura daga þjálfaranámskeið í Delaware háskólanum. Þar var farið yfir mismunandi þætti þjálfunar eins og íþróttasálfræði, næringarfræði, skipulaga þjálfunar og styrktarþjálfun svo eitthvað sé nefnt. Eins fengum við leiðbeiningar frá Barbara Daniels um hvernig við gætum nýtt okkur næstu fjórar vikur í prógramminu sem lærlingar í háskólanum sem okkur var úthlutaður. Auk þess var farið yfir reglur NCAA (sem eru töluvert bákn) og við fengum fyrirlestur frá Sean Ford frá bandaríska Körfuknattleiksambandinu (US Basketball) og Sheryl Reeve þjálfara Minnesota Lynx í WNBA. Sherryl gaf góða innsýn inn í heim WNBA og það var forvitnilegt að heyra Sean Ford lýsa áherslum varðandi samfellu á milli yngri landsliða og karlalandsliðsins sem er skipað leikmönnum úr NBA sem hafa flestir spilað fyrir bandarísku yngri landsliðin. Þeirra markmið er að bregðast við þeim skamma undirbúningstíma sem þeir hafa til að kalla landsliðið saman miðað við önnur lönd. Hugmyndafræði þeirra gengur því út á að allir leikmenn karlalandsliðsins hafi spilað áður með yngri landsliðum og þekki því ákveðinn leikstíl og hafi þróað mér sér stolt og vilja til að spila fyrir land og þjóð. Það þarf ekki að koma á óvart að þeir telja sig vera með hæfileikaríkasta liðið og reyna því að keyra upp hraðann; því sem fleiri sóknir sem eru í leiknum því meiri líkur eru á að betra liðið vinni.
Fyrsti hlutinn lagði jarðveginn fyrir það sem koma skyldi og þá var sérstaklega hamrað á íþróttalegum menningarmun milli Bandaríkjanna og landanna sem við komum frá. Munurinn er töluverður þar sem íþróttir snúast mikið um viðskipti í Bandaríkjunum sem er ekki það sem maður á að venjast frá sjálfboðaliðastarfinu á Íslandi.
Annar hluti: lærlingur hjá La Salle
Annar hluti var fjögurra vikna lærlingsstaða hjá NCAA háskóla og var ég svo heppinn að vera sendur í læri hjá John Giannini þjálfara La Salle Basketball þar sem ég fékk meðal annars að:
? Fylgjast með einstaklings og liðsæfingum
? Fylgjast með liðinu í æfingaleikjum
? Feðast til Princeton á æfingaleik
? Fara yfir video af leikjum og æfingum
? Vera viðstaddur alla þjálfarafundi
Það gagnlegasta við prógrammið var klárlega að fá að vera viðstaddur þjálfarafundi þar sem farið var yfir skipulag æfinga og æfingarnar sjálfar. Mikill partur af tíma þjálfaranna fer í að reyna að næla í leikmenn fyrir skólann (recruiting). Þess má til gamans geta að skólinn er að fylgjast með ungum Íslending sem er að spila á þessum slóðum og það verður gaman að sjá hvort eitthvað kemur út úr því. Æfingarnar voru líka mjög forvitnilegar en við máttum ekki stíga inn á völlinn eftir að æfing hófst því reglur NCAA banna það. Okkar hlutverk var að fylgjast með og skrifa niður það sem fyrir augum bar. Æfingarnar eru ekki ósvipaðar því sem maður á að venjast að heiman fyrir utan fjölmennara þjálfarateymi sem samanstendur af tveimur aðstoðarþjálfurum 2-3 skipuleggjendum (managers) ásamt 2-3 öðrum “þjálfurum” sem mega ekki taka beinan þátt í æfingunni en sjá um video, klukku og tölfræði. Tölfræði er tekin á hverri æfingu og yfirþjálfarinn horfir á video af öllum æfingum. Fyrir vikið er hann með mjög góða tilfinningu fyrir því hvar liðið er statt hverju sinni.

Ég var þeirrar lukku aðnjótandi að fylgjast með æfingaleik við Princeton skólann. Leikurinn var ágætur en hápunkturinn var að hitta Pete Carril höfund Princeton sóknarinnar. Því miður var ég var ég jafn stjörnustjarfur og unglingsstúlka sem hittir meðlimi One Direction og gleymdi að fá mynd af goðsögninni. Gianinni (þjálfari La Salle) sagði að Carril væri líklega besti þjálfari í heimi og sem dæmi um það sagði hann frá því þegar þeir spiluðu æfingaleik við Princeton tveimur árum áður. Þar sat Carril í stúkunni og fylgdist grannt með leiknum. Eftir leikinn þar sem Princeton burstaði La Salle var Gianinni virkilega stressaður fyrir komandi tímabil; hann var á síðasta ári á samning og hugsaði með sér að líklega yrði þetta hans síðast tímabil með liðið. Eftir leikinn kemur téður Carril og segir að honum lítist mjög vel á liðið hans og hann eigi eftir að eiga gott tímabil. Gianinni horfði á hann furðu lostinn og var að velta því fyrir sér hvort karlinn væri orðinn elliær (hann er fæddur 1930) og spurði hvort þeir hefðu ekki verið að horfa á sama leikinn því þeir hefðu tapað með meira en 20 stigum. Carril leit kankvís á hann og sagði honum að hafa engar áhyggur “það eina sem þið þurfið að laga er að stóru mennirnir þurfa að skrína betur”. Það var lögð töluverð áhersla á skrín á næstu æfingum hjá La Salle. Viti menn í kjölfarið átti La Salle besta tímabil í sögu skólans síðan um miðbik síðustu aldar og komust í Sweet 16. Til marks um hversu góður þjáfari Carril er sagði Gianinni að “það hefði enginn annar þjálfari en Pete Carril sagt að við værum með gott lið eftir þetta tap”.
Á meðan á dvölinni stóð tókum við viðtöl við fólk sem starfar með einum eða öðrum hætti í kringum körfuboltaprógrammið. Allt frá húsverðinum til þess sem sér um að afla peninga fyrir liðið. En það er óhætt að segja að bandaríski háskólaboltinn sé mikil peningamaskína, samkvæmt Forbes þá fær það lið sem kemst í Mars brjálæðið 1.9 milljónir dollara fyrir hvern leik. Það gera 9,5 milljónir dollarar fyrir að spila körfubolta í þrjár vikur ef þú kemst í úrslitaleikinn. Það er því mikið undir og pressan á að vinna er gífurleg.
Við lásum og gerðum verkefni upp úr tveimur bókum: Basketball on Paper og The Talent Code. Basketball on Paper fjallar um tölfræði í NBA deildinni. Höfundur bókarinnar Dean Oliver er meðal annars frægur fyrir setja fram fjóra mikilvægustu tölfræðiþætti sem ákvarða útkomu körfuboltaleiks. En samkvæmt honum þá eru eftirfarandi þættir mikilvægastir þar sem skotnýting skiptir mestu máli:
1. Skotnýting (40%)
2. Tapaðir boltar (25%)
3. Fráköst (20%)
4. Vítanýting (15%)
Bókin er skemmtileg aflestrar fyrir þá sem fylgjast vel með NBA en fyrir þá sem luku stærðfræði ferlinum í Menntaskólanum að Laugarvatni þá eru formúlurnar helst til flóknar. Skemmtilegasta kaflaheitið sem er mjög lýsandi fyrir álit höfundar á leikmanni er The Significance of Derrick Coleman’s Insignificans. Maðurinn hýtur að hafa eitthvað til síns máls þar sem hann var nýlega ráðinn sem tölfræðimógúll Sacramento Kings í NBA deildinni. Við gerðum tölfræðiverkefni sem tengdist okkar liði og unnum verkefni upp úr bókinni The Talent Code sem mér fannst ekki merkilegur pappír en innihélt þó nokkra áhugaverða punkta. Hluti af okkar verkefni var að skila vikulegri ígrundun og til þess fékk ég mína eigin skrifstofu og ef vel er rýnt í myndina má sjá rándýrt nafnspjald á veggnum sem á stendur LJ.

Þriðji hluti: samantekt
Síðustu dagarnir voru notaðir í að draga saman reynslu okkar af tímanum og gera áætlun um hvernig við ætlum að nýta reynsluna þegar heim var komið. Ég er ennþá að klóra mér í hausnum yfir því hvernig ég get nýtt þekkinguna beint þar sem ég fór ekki heim til Íslands hendur til Malaví í Afríku þar sem ég bý tímabundið. Ýmis áhersluatriði eiga án efa eftir að koma að góðum notum í þálfun í framtíðinni. Sérstaklega var nýjung að sjá hversu mikil áhersla var lögð á tölfræði á æfingum og tímanum sem vara varið í að skoða myndbönd af æfingum. Drillin voru ekki öll ný af nálinni en ákveðin áhersluatriði í dæmigerðum drillum opnuðu augun fyrir öðruvísi nálgun. Stærsti lærdómurinn af því að horfa á æfingar var að sjá hvernig sömu línunni var haldið í gegnum alla hluta æfingarinnar, allt frá upphitun og þar til spilað var 5v5. Þá var einnig mjög áhugavert að fylgjast með þjálfaranum tala við leikmenn en hann er með doktorsgráðu í sálfræði og kom þar af leiðandi oft með skemmtilega punkta sem héldu leikmönnum á tánum.
Í lok ferðar fengum við smá bónus og heimsóttum Washington Wizards. Við fengum að fylgjast með síðustu æfingu fyrir leik og horfa á þá spila við Detroit um kvöldið. Fróðlegast var að hitta hina þjálfarana sem voru voru einnig búnir að vera í fjórar vikur í öðrum skólum og bera saman bækur okkar. Meðal skóla sem voru hluti af prógramminu voru North Carolina og Villanova og því af mikilli visku að deila.
Héðan og þaðan
Það skemmtilegsta við þessa ferð eru snillingarnir sem verða á vegi manns. Allt starfsfólk La Salle var mjög vinalegt og vildi allt fyrir mig gera og þarna eignaðist maður vini fyrir lífstíð. Einn af þeim er Matt Bloome sem ótrúlegt nokk er vinur Baldurs Ólafssonar frá því að Baldur spilaði með Fairleigh Dickinson háskólanum seint á síðustu öld. Svo urðu á vegi mínum goðsagnirnar Rocky og Horace Owens. Rocky þessi kom reglulega á skrifstofuna og gaf þjálfaranum góð ráð ásamt því að fá sér eitthvað í gogginn. Horace “Papa” Owens spilaði eitt ár í NBA deildinni og er einn af aðstoðarþjálfurum liðsins. Hluti af prógramminu var að kaupa körfuboltabækur sem gætu nýst okkur í þjálfun og leitaði ég ráða hjá þjálfurunum um hvaða bækur væru í uppáhaldi hjá þeim, allir nema Papa komu með góðar ábendingar. Papa sagðist ekki lesa körfuboltabækur en hann mælti með ævisögu djassgeggjarans Miles Davis. Papa fannst hann vera að tala við sig þegar hann las bókina.
Að lokum
Án nokkurs vafa þá fannst mér gagnlegast við ferðina að fá að fylgjast með æfingum á undirbúningstímabili hjá La Salle í mánuð. Þessi tími var sérstaklega eftirminnilegur og gagnlegur því liðið var að byggja upp varnarleik og sóknarleik. Drill sem kynnt var til sögunnar fyrstu vikuna öðlaðist aðra vídd þegar líða fór á undirbúningstímabilið og undir lokin sást hvernig allt tengdist saman og myndaði eina heild sem rímaði við megináherslur liðsins. Að fá fimm vikur þar sem þú hugsar ekki um neitt annað en körfubolta (án þess að taka ábyrgð á liði) eru mikil forréttindi. Ég hvet alla íslenska þjálfara sem hafa áhuga að sækja um námið hjá FIBA Europe og reyna að verða hluti af ICAB ævintýrinu.
Lárus Jónsson



