spot_img
HomeFréttirKomið að stóru stundinni!

Komið að stóru stundinni!

Úrslit Domino´s-deildar karla hefjast í kvöld! Deildarmeistarar KR og nýliðar Tindastóls munu leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og er fyrsta glíman í DHL-Höllinni kl. 19:15 í kvöld. Þarna mætast tvö athyglisverð lið, annað og hið röndótta hefur margsinnis hampað þeim stóra en hitt hefur aldrei orðið Íslandsmeistari. Kemur nýtt nafn á Sindra-Stálið þetta árið eða bætir KR fleiri blómum í hnappagat sitt?

Eins og gefur að skilja hefur KR heimaleikjaréttinn í seríunni sem deildarmeistari en KR er að koma úr oddaleik sem fram fór síðastliðinn föstudag 17. apríl en Tindastólsmenn hafa fengið lengra frí því þeir lögðu Hauka 3-1 og spiluðu síðast 15. apríl. Hvað það hefur að segja fyrir leik kvöldsins verður bara að koma í ljós.

Tindastóll lék í fyrsta og eina skipti til úrslita um titilinn árið 2001 þegar þeir mættu Njarðvíkingum og fór sú rimma 3-1 Njarðvík í vil. Síðan þá hefur KR fjórum sinnum leikið til úrslita eða fimm sinnum með komandi seríu. 

Sem fyrr verða KR-ingar með grillin á fullu gasi en miðasalan verður opnuð kl. 17 og opnað fyrir gesti inn í sal kl. 18:00 en þeir í Frostaskjóli gera ráð fyrir um 2000 manns á leikinn í kvöld. 

Fréttir
- Auglýsing -