spot_img
HomeFréttirKöld skilaboð til kvennakörfunnar frá upphafi sjónvarpsútsendinga

Köld skilaboð til kvennakörfunnar frá upphafi sjónvarpsútsendinga

17:33 

{mosimage}

 

 

Í september á þessu ári lýkur ári kvennakörfuboltans í Evrópu. Hér heima hafa gæði leiksins í kvennakörfunni farið stigvaxandi frá ári til árs og nú er svo búið að við höfum á að skipa leikmönnum á borð við Helenu Sverrisdóttur, Maríu Ben Erlingsdóttur, Hildi Sigurðardóttur og Signýju Hermannsdóttur. Fjórir frábærir leikmenn sem vafalítið eru bestu körfuknattleikskonur sem stigið hafa fram á sjónarsviðið hér heima ásamt Önnu Maríu Sveinsdóttur. Úrslitakeppnin í kvennakörfunni í ár hefur í einu orði sagt verið frábær. Hágæðaleikir allt um kring og mikið skorað og skemmst að minnast þess að í síðasta leik Hauka og Keflavíkur var sett stigamet í úrslitum úrslitakeppni kvenna þegar lokatölur leiksins voru 101-115 Haukum í vil í venjulegum leiktíma. Frétt af www.vf.is

 

Helena Sverrisdóttir gerði eina flautukörfu frá miðju gegn Keflavík í þessum öðrum leik liðanna síðasta laugardag og það með tvo sterka varnarmenn Keflavíkur nánast í fanginu á sér. Ótrúleg tilþrif svo eitthvað sé nefnt.

 

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hefur aldrei í sjónvarpssögu Íslands verið bein útsending frá leik í úrslitakeppni kvennakörfunnar. Sé það rangt er viðkomandi útsendingaraðili umsvifalaust beðinn afsökunar. Breiðablik hefur staðið sig gríðarlega vel ásamt KFÍ með beinar útsendingar á veraldarvefnum en hér er rætt um sjónvarpsútsendingar.

 

Skilaboðin sem verið er að senda leikmönnum í úrvalsdeild kvenna og öðrum yngri körfuknattleiksiðkendum eru í besta falli nöturleg og á ári kvennakörfunnar eru allar horfur á því að engin bein útsending verði frá úrslitakeppninni í kvennaboltanum en það stendur þó og fellur með Keflavíkurkonum. Þungar byrðar á þær lagt í Keflavíkinni.

 

{mosimage}

 

Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, sagði í samtali við Víkurfréttir í dag að samskipti hans við RÚV hefðu ávallt verið almennileg og viðbrögðin hjá Samúel Erni Erlingssyni íþróttafréttamanni hjá RÚV hefðu verið mjög jákvæð. ,,RÚV þarf oft að ákveða sína dagskrá með margra vikna fyrirvara og eðli málsins samkvæmt gat KKÍ ekki ákveðið leikdaga langt fram í tímann þar sem félög voru t.d. með karla- og kvennalið í úrslitakeppninni á sama tíma,” sagði Friðrik. RÚV sá sér þó fært um að reyna að brjóta blað í íslenskri sjónvarpssögu með því að sýna beint frá fjórða leik Keflavíkur og Hauka í ár en sá leikur á að fara fram á laugardag í Sláturhúsinu.

 

Ekki var nokkur leið að sjá fyrir að Haukar myndu komast í 2-0 og eiga möguleika á því í kvöld að verða Íslandsmeistarar í aðeins þremur leikjum. Svör Friðriks Inga gáfu það til kynna að fullur áhugi væri fyrir því hjá RÚV að sýna frá úrslitakeppninni í ár og nú stendur sú útsending og fellur á frammistöðu Keflavíkurkvenna í kvöld. Takist Keflavík að sigra í kvöld þarf að bregða til fjórða leiks í Keflavík og hugsanlega oddaleiks að Ásvöllum ef með þarf. Á móti kemur að Haukar hafa unnið 27 heimaleiki í röð að Ásvöllum og fátt sem bendir til þess að Keflavíkurkonur geti skrifað sig á spjöld íslenskrar sjónvarpssögu með RÚV. Því gæti svo farið að skammlífur yrði góður ásteningur íþróttadeildar RÚV.

 

Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkurkvenna, sagði þetta dapra staðreynd og að úrslitakeppnin í kvennaboltanum hefði verið hrein unun og ekki síðri en úrslitakeppnin hjá körlunum. ,,Þetta er hjákátleg staðreynd, það má orða það þannig á ári kvennakörfunnar því þetta er ekki alveg í takt við það sem átti að vera,” sagði Unndór. Aðspurður af hverju hann teldi að ekki væri sýnt beint frá kvennaleikjunum í úrslitakeppninni svaraði Unndór: ,,Ætli það sé nægilega mikil virðing borin fyrir þessari deild?”

 

,,Það er mjög dapurt að ekki sé hægt að sýna kvenfólkinu meiri virðingu en kannski er það bara þannig að RÚV sýnir handboltann en SÝN er með karlakörfuna og þessir aðilar bara sáttir við stöðuna eins og hún er í dag,” sagði Unndór.

 

Samningar KKÍ og SÝN kveða á um auglýsingabirtingar fyrir umferðir í Iceland Express deild karla yfir veturinn og að sýna frá úrslitakeppni karla í beinum útsendingum. Hafa ber í huga að SÝN er að setja met í ár með fjölda leikja í beinni útsendingu frá úrslitakeppninni hjá körlunum og er það vel. RÚV og KKÍ eru með samning um Lýsingarbikarinn annars vegar og Poweradebikarinn hins vegar. Sýnt hefur verið frá bikardráttunum sjálfum, sýnt frá umferðum í Helgarsporti og Íþróttakvöldum og þáttur helgaður sjálfum úrslitaleikjunum og svo voru úrslitaleikirnir í beinni útstendingu. Þá var RÚV tilbúið til þess að reyna eins og þeir gætu til að sýna frá úrslitakeppninni í Iceland Express deild kvenna þetta árið eins og kostur væri. Eina dagsetningin sem í boði var er laugardagurinn 14. apríl vitandi það að mótið gæti hugsanlega verið búið. RÚV hefur enga samninga gert við KKÍ um úrslitakeppnina í kvennaboltanum en sýndu keppninni engu að síður mikinn áhuga þó dagskrárpláss væri af afar skornum skammti.

 

RÚV hefur einnig gefið það út að ef til oddaleiks kemur hjá Haukum og Keflavík að þá vilji þeir einnig vera með þann leik í beinni útsendingu ef mótanefnd KKÍ og félögin sjálf geta samþykkt það að leika þennan oddaleik laugardaginn 21. apríl. Viljinn er því fyllilega fyrir hendi hjá útvarpi allra landsmanna en miðað við hvernig einvígi Hauka og Keflavíkur hefur þróast fæst það ekki séð að verði af beinum útsendingum frá úrslitakeppni kvenna þetta árið. Fögur fyrirheit hjá RÚV sem vonandi verða enn til staðar á næstu leiktíð.

 

{mosimage}

 

Markaðslögmálin eiga við í þessu erindi sem og hjá öðru sjónvarpsefni. Er arðbært eða hægt að sleppa á sléttu með því að hafa beina útsendingu frá úrslitakeppninni í kvennakörfunni? Þessi spurning hverfur sem dögg fyrir sólu þegar tækifærið blasir við, tækifæri til þess að skrá sig á spjöld íslenskrar sjónvarpssögu.

 

Víkurfréttir hafa fylgst vel með gangi mála í úrslitakeppni Suðurnesjaliðanna enda eru Víkurfréttir Suðurnesjamiðill og voru fyrstir til að birta myndbrot og ljósmyndasöfn úr úrslitakeppninni í kvennaboltanum. Þá var Karfan.is fyrsti íslenski miðillinn til þess að vera með beina útsendingu frá úrslitakeppninni í kvennakörfunni þar sem um beina textalýsingu var að ræða. Sárt að það skuli koma í hlut Keflavíkurkvenna að ákveða upp á sitt einsdæmi með frammistöðu sinni inni á vellinum hvort af fjórða leiknum verður í úrslitaeinvíginu og þá hvort fyrsta beina útsendingin í úrslitakeppni kvenna í körfuknattleik verði að veruleika.

 

Óhætt er því að segja að skilaboðin til kvennakörfunnar á Íslandi frá fjölmiðlum hafa verið köld í áranna rás og því kannski hægt að bæta við hér í lokin að SÝN hefur að mér vitandi aldrei verið með beina útsendingu frá íslenskum kvennakappleik. Slagorð þeirra um ,,SÝN besta sætið” á þá væntanlega einungis við um húsbóndastólinn í stofunni, eða hvað?

 

Jón Björn Ólafsson – [email protected]

 

Tekið af vef Víkurfrétta – www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -