spot_img
HomeFréttirKobe með stórleik - Lakers í úrslit þriðja árið í röð

Kobe með stórleik – Lakers í úrslit þriðja árið í röð

Meistarar LA LAkers munu mæta erkifjendum sínum Boston Celtics í úrslitum NBA í tólfta sinn, en þeir lögðu Phoenix Suns í sjötta leik úrslita Vesturdeildarinnar í nótt, 103-111.
 
Kobe Bryant var enn og aftur bjargvættur sinna manna þegar hann skoraði 9 af 37 stigum sínum á síðustu tveimur mínútum leiksins og hélt þannig aftur af Suns, sem neituðu að gefast upp.
 
Lakers voru kyrfilega við stjórnvölinn framan af leik og leiddu með 12 stigum í hálfleik og með 17 stigum fyrir lokaleikhlutann.
 
Þar tóku Suns við sér á ný og söxuðu jafnt og þétt á forskotið þar sem Goran Dragic skoraði m.a. fyrstu átta stig leikhlutans. Amare Stoudemire, Jason Richardson og Steve Nash lögðu svo sín lóð á vogarskálarnar þar sem Suns minnkuðu muninn niður í 3 stig þegar minnst var, 96-99.
 
Þá var komið að Kobe sem gerði endanlega út um vonir Suns og tryggði sér og félögum sínum tækifæri til að kvitta fyrir vonbrigðin 2008 þegar Boston lagði þá í úrslitunum.
 
Fyrir utan framlag Kobes, var Ron Artest sjóðheitur með 25 stig, Derek Fisher var með 11, Andrew Bynum með 10 og Pau Gasol var bara með 9 stig.
 
Hjá Suns var Stoudemire með 27 stig í því sem var hugsanlega hans síðasti leikur fyrir félagið, Nash var með 21, Richardson 13 og þeir Dragic og Channing Frye voru með 12 stig, en Frye var einnig með 13 fráköst.
Fréttir
- Auglýsing -