Kobe Bryant skoraði enn eina sigurkörfuna fyrir LA Lakers í nótt, þegar hann tryggði sínum mönnum sigur á Memphis Grizzlies. Bryant hafði setið hjá í fimm leiki í röð vegna meiðsla, en var greinilega ferskur þar sem hann skoraði síðustu níu stig Lakers, þar á meðal þriggja stiga körfu þegar 4 sek voru eftir af leiknum. OJ Mayo átti síðasta skot leiksins, en missti marks.
Á meðan unnu Cleveland Cavaliers sigur á New Orleans Hornets eftir þrjú töp í röð og Boston Cletics lögðu NY Knicks. Loks batt Phoenix enda á níu leikja sigurgöngu Oklahoma City Thunder með góðum sigri. Jason Richardson skoraði sigurkörfuna á síðustu sekúndu leiksins, en Kevin Durant, sem var með 36 stig í leiknum, hefur nú skorað 25 stig eða meira í 29 leikjum í röð. Það hefur enginn gert síðan Michael Jordan lék þann leik 40 sinnum í röð á tímabilinu 1986-1987.
Úrslit næturinnar/Tölfræði og video:
Cleveland 105 New Orleans 95
Miami 88 Minnesota 91
Boston 110 New York 106
New Jersey 93 Portland 102
Memphis 98 LA Lakers 99
Oklahoma City 102 Phoenix 104
Sacramento 89 Detroit 101
Golden State 102 Philadelphia 110
Mynd/AP



