spot_img
HomeÚti í heimiHáskólaboltinnKobe, Duncan og Garnett á leið í Frægðarhöllina

Kobe, Duncan og Garnett á leið í Frægðarhöllina

Frægðarhöll körfuboltans tilkynnti í gær hverjir yrðu innvígðir í höllina árið 2020 í gær. Þrjár NBA-goðsagnir eru meðal innvígðra í ár, en það eru þeir Kobe Bryant, Tim Duncan og Kevin Garnett.

Kobe Bryant lék í 20 ár með Los Angeles Lakers, en hann kom til félagsins í leikmannaskiptum við Charlotte Hornets eftir að síðarnefnda félagið hafði valið kappann í nýliðavali deildarinnar árið 1996. Bryant vann fimm NBA meistaratitla með Lakers, var einu sinni valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar og var þar að auki í tvígang valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslita NBA. Þá er Bryant í fjórða sæti yfir stigahæstu leikmenn í sögu NBA-deildarinnar, með 33.643 stig, öll í búningi Lakers. Bryant lést í hörmulegu þyrluslysi í lok janúar.

Tim Duncan lék í 19 ár með San Antonio Spurs, eftir að Spurs völdu hann með fyrsta valrétti í nýliðavalinu árið 1997. Duncan sneri gengi liðsins strax við og var máttarstólpi í liði San Antonio sem vann fimm meistaratitla með Duncan innanborðs. Duncan var einnig valinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar árin 2002 og 2003.

Kevin Garnett lék í 21 ár í NBA deildinni með Minnesota Timberwolves, Boston Celtics og Brooklyn Nets, og varð NBA meistari með Boston árið 2008. Hann var þar að auki valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar árið 2004.

Aðrir sem verða innvígðir í Frægðarhöllina þetta árið eru Rudy Tomjanovich, þjálfari tvöfaldra NBA meistara Houston Rockets árin 1994 og 1995, Patrick Baumann fyrrum forseti Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, Tamika Catchings, fjórfaldur Ólympíumeistari með kvennalandsliði Bandaríkjanna, Eddie Sutton, fjórfaldur þjálfari ársins í NCAA-háskóladeildinni, Kim Mulkey, þjálfari afar sigursæls liðs Baylor Lady Bears í háskólaboltanum og Barbara Stevens, fimmfaldur þjálfari ársins í annarri deild NCAA.

Fréttir
- Auglýsing -