Kobe Bryant hefur verið sektaður um 100.000 Bandaríkjadali af NBA deildinni fyrir niðrandi ummæli í garð dómara. Uppæðin nemur rúmum 11 milljónum íslenskra króna en ummælin lét Bryant falla í viðureign með Lakers gegn San Antonio Spurs en Lakers unnu leikinn 102-93.
Myndbrot úr leiknum virðast sýna Kobe láta frá sér niðrandi ummæli þegar hann náði ekki athygli hjá Bennie Adams, einum dómara leiksins. Bryant hafði fengið dæmt á sig tæknivíti og lét gremju sína bersýnilega í ljós þegar hann settist á bekkinn.
,,Ummæli Bryants voru móðgandi og óafsakanleg. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að körfubolti er tilfinningaríkur leikur en svona ósmekklegheit eiga aldrei að líðast. Ég hef því sektað Kobe um 100.000 Bandaríkjadali. Kobe og allir sem tengjast NBA deildinni vita að niðrandi ummæli eru ekki ásættanleg og eiga hvorki heimili í okkar leik né þjóðfélagi,“ sagði alráður David Stern framkvæmdastjóri deildarinnar.
,,Það sem ég sagði ætti ekki að taka bókstaflega, þetta var gert í hita leiksins,“ sagði Bryant í yfirlýsingu. ,,Þau orð sem ég lét falla lýsa ekki afstöðu minni gagnvart samfélagi samkynhneigðra og voru ekki ætluð til þess að móðga einn né neinn,“ sagði ennfremur í yfirlýsingu sem Bryant hefur látið frá sér vegna málsins.
Ef Kobe Bryant fær annað tæknivíti í leiknum gegn Sacramento í nótt fær hann sjálfkrafa eins leiks bann í upphafi næstu leiktíðar.