spot_img
HomeFréttirKnicks reka enn einn þjálfarann - Metta World Peace næstur?

Knicks reka enn einn þjálfarann – Metta World Peace næstur?

Eftir hörmulega byrjun á tímabilinu þá ráku New York Knicks þjálfara sinn,
David Fizdale, og aðstoðarþjálfarann Keith Smart í gær.

Fyrr um daginn hafði Fizdale haldið 2 tíma æfingu með liðinu og eftir hana sagt við blaðamenn að hann ráðgerði stórar breytingar á byrjunarliðinu. Stuttu seinna var hann án starfs.

Hinn 45 ára gamli Fizdale tók við Knicks fyrir síðasta tímabil og var með 21-83 árangur með liðið, sem er langversti árangur þjálfara hjá Knicks í sögunni.

Þrátt fyrir arfaslakan árangur þá eru ekki allir á einu máli með hvort hann sé alfarið Fizdale að kenna.

Þó nokkur stór nöfn hafa komið Fizdale til varnar, þar á meðal Steve Kerr og Gregg Popovich.

“Ef ég hefði farið til New York þá hefði þetta verið ég fyrir þremur árum.” sagði Kerr sem var boðið starfið hjá Knicks árið 2014 af Phil Jackson en hafnaði því og tók við Golden State Warriors í staðinn.

Hinn afar hreinskilni Popovich sagði að Fizdale hefði verið “kastað undir strætisvagninn” og að ef Knicks væri að leita að sökudólgi fyrir slakan árangur undanfarið þá ættu þeir að horfa hærra upp í fæðukeðjunni hjá liðinu. Blaðamaðurinn Mike Vaccaro tók undir þau orð og heimtaði afsögn hjá forseta og framkvæmdarstjóra Knicks, þeim Steve Mills og Scott Perry í grein á New York Post í gær.

Mike Miller, nýráðinn bráðabirgðaþjálfari New York Knicks.

Í stað Fizdale fékk aðstoðarþjálfarinn Mike Miller stöðuhækkun og mun taka að sér að stýra liðinu til bráðabirgða.

Ólíkt nafna sínum sem vann titla með Miami Heat hér um árið, þá hefur Miller litla sem enga reynslu úr NBA. Hann hefur eytt megninu af 30 ára þjálfaraferli sínum í háskólaboltanum. Árið 2013 var hann ráðinn aðstoðarþjálfari hjá Austin Spurs í G-League og tveimur árum seinna tók Westchester Knicks í sömu deild þar sem hann náði prýðis árangri. Hann var svo ráðinn aðstoðarþjálfari hjá New York fyrir tímabilið.

Leitin að nýjum kandídötum í starfið er þegar hafin og hafa nokkur nöfn verið nefnd í því samhengi.

Mark Jackson, sem hefur ekki þjálfað síðan Warriors ráku hann vorið 2014, var tekin í viðtal fyrir starfið hjá Knicks árið 2018 og þykir líklegur enda Steve Mills mikill aðdáandi hans. Hann fær þó ekki háar einkanir frá sínum fyrri vinnuveitendum enda logaði allt í illdeilum á milli hans, aðstoðaþjálfara sinna og eigenda liðsins.

Nafn Patrick Ewings kemur einnig alltaf upp þegar þjálfarastaðan hjá Knicks losnar en hann hefur sjaldnast fengið viðtal. Síðan Ewing var skipt burtu frá félaginu fyrir 20 árum fyrir Glen Rice, Luc Longley og skiptimynd, hefur liðið verið með fjögur sigurtímabil og einungis unnið eina seríu í úrslitakeppninni. Það er því spurning hvort liðið brjóti ekki Bölvun Ewings og ráði hann sem næsta þjálfara. Liðið verður varla verra fyrir vikið.

Aðrir sem nefndir hafa verið til sögunar eru Jason Kidd, Jeff Van Gundy,
Tom Thibodeau, Kenny Smith og Becky Hammon en sú síðastnefnda er sögð vilja fá öruggan 4-5 ára samning til að taka við liðinu.

Áhugaverðasti kandídatinn til að kasta nafni sínu í hattinn hlýtur þó að vera Metta World Peace.

https://twitter.com/MettaWorld37/status/1203069972261376001
https://twitter.com/MettaWorld37/status/1203071064521105408
Fréttir
- Auglýsing -