spot_img
HomeFréttirKnattspyrnufélagið Valur fagnar 100 ára afmæli

Knattspyrnufélagið Valur fagnar 100 ára afmæli

 
Valsmenn fagna þessa dagana 100 ára afmæli félagsins sem var stofnað 11. maí 1911. Valsmenn hafa boðið uppá viku af fagnaðarlátum sem ná hámarki í dag þar sem hátíðardagskrá var sett klukkan 8:30 við minnisvarða sr. Friðriks Friðrikssonar í morgun.
Í hádeginu í dag var svo athöfn við styttu sr. Friðriks við Lækjarögtu þar sem lagður var blómsveigur að styttunni og tónlistaratriði flutt. Klukkan 16:00 verður hátíð á Hlíðarenda þar sem veittar verða heiðursviðurkenningar ásamt viðurkenningum sérsambandanna. Að því loknu munu Valsarar sleppa 100 blöðrum á loft í tilefni dagsins.
 
Valsmenn státa nú af því að hafa karla og kvenna flokki í öllum þremur íþróttagreinum félagsins í efstu deild þar sem bæði karla og kvenna lið Vals tryggðu sér sæti í Iceland Express deildunum næsta vetur.
 
Til þess að kljást við það verkefni hefur liðið fengið til sín gamlan Valsara og mikinn sigurvegara, Ágúst Björgvinsson sem hefur unnið ótal marga titla með Haukum og Hamri á seinustu árum. Yngvi Gunnlaugsson mun áfram stýra karlaliði Vals og á þar verðugt verkefni fyrir höndum að halda liðinu uppi.
 
Saga Vals er of löng til þess að þylja upp hér en hægt er að stikla á stóru. Árið 1970 var körfuknattleiksdeild stofnuð hjá Val og gerðist það með þeim hætti að Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur KFR sem verið hafði starfandi frá 1951 óskaði eftir stofnun körfuknattleiksdeildar hjá Val og þar með inngöngu í félagið. Ekki leið að löngu þar til fyrsti stóri titillinn kom í hús og á árunum 1980 til 1984 unnu Valsmenn þrjá bikarmeistaratitla og 2 íslandsmeistaratitla. Síðan þá hefur félagið ekki unnið titil og því ekki orðum ofaukið að um gullaldartímabil hafi verið að ræða hjá Val í kringum 1980.
 
Af þessu tilefni er von á ítarlegu viðtali við Torfa Magnússon sem var máttarstólpi í Valsliðinu á þessu gullaldartímabili.
Mynd/ Torfi Magnússon í baráttunni með Val á gullaldartímabili körfuknattleiksdeildar félagsins.
 
Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -