Í kvöld fer fram önnur undanúrslitaviðureign Njarðvíkur og Grindavíkur í Domino´s deild karla og hefjast leikar kl. 19:15 í Ljónagryfjunni. Ráð er að mæta snemma enda von á fjölmenni í Ljónagryfjuna og allar líkur á því að uppselt verði á leikinn enda innan við 1000 manns sem komast fyrir í „Gryfjunni.“
Fyrsta leik liðanna lauk með 73-81 sigri Njarðvíkinga sem bægðu þá á braut Grindavíkur-Grýlunni sinni en fyrir leikinn í Röstinni höfðu Njarðvíkingar ekki unnið úti í Grindavík í tæp fimm ár. Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Grindavíkur hafa vísast ekki neitt annað í huga en að jafna einvígið og takist þeim að vinna verða þeir fyrsta liðið í úrslitakeppninni til að leggja Njarðvíkinga að velli.



