Deildarmeistarar KR geta í kvöld tryggt sér sæti í úrslitum Domino´s deildar karla er liðið tekur á móti Stjörnunni í þriðju undanúrslitaviðureign liðanna. KR leiðir einvígið 2-0 og þarf því aðeins einn sigur í viðbót. Þá eigast við Fjölnir og Breiðablik í Dalhúsum í úrslitum 1. deildar kvenna þar sem Blikar leiða 1-0 og dugir sigur í kvöld til að vinna sér sæti í Domino´s deildinn á næsta tímbili. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15.
KR marði fyrsta leikinn 94-91 gegn Stjörnunni eftir framlengdan spennuslag og þar meiddist Dagur Kár Jónsson á ökkla. Yfirburðir deildarmeistaranna voru svo talsverðir í leik tvö úti í Garðabæ þar sem lokatölur voru 68-94 fyrir KR. Dagur Kár lék ekki með Stjörnunni í leik tvö en skv. síðustu heimildum Karfan.is voru talsverðar líkur á því að Dagur yrði með í kvöld.
Þá mætast Keflavík og Þór Þorlákshöfn í unglingaflokki kl. 20:00 í TM-Höllinni í Reykjanesbæ. Leikurinn er í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins en það lið sem hefur sigur í kvöld kemst áfram í undanúrslitin.



