spot_img
HomeFréttirKjartan eftir fyrsta úrslitakeppnisleikinn á Álftanesi "Gaman fyrir fólkið að fá að...

Kjartan eftir fyrsta úrslitakeppnisleikinn á Álftanesi “Gaman fyrir fólkið að fá að upplifa svona”

Álftnesingar lögðu Keflavík í Forsetahöllinni í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita einvígis liðanna í Subway deild karla, 77-56. Staðan í einvíginu er því jöfn 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í undanúrslitin.

Hérna er meira um leikinn

Kjartan Atli þjálfari Álftanessn spjallaði við Körfuna eftir leik.

Ég er alltaf svo svartsýnn…eftir fyrstu umferðina í úrslitakeppninni var ég farinn að sjá sópadans…það voruð kannski bara þið sem stóðuð ykkur einna best í fyrsta leik í Keflavík…?

Jájá..þeir náðu nú samt einhverri 25 stiga forystu þannig að…en við gáfumst aldrei upp og sýndum kraft og karakter þar.

Akkúrat. Það þarf svo sem ekki mikinn snilling til að sjá það að þið reynið auðvitað að hemja Martin og frekar að gefa eftir einhverja þrista frá Oman, Dolezaj og Halldóri…og það gekk nú eiginlega bara eins og í draumi í þessum leik í kvöld?

Þetta snýst líka um hvað við gerum eftir að árásin hjá honum er komin, hvernig við róterum út og mér fannst við ná að gera það betur í þessum leik að koma fljúgandi út í skytturnar svo skotin urðu svolítið erfiðari, það kristallaðist í því þegar við brjótum þarna í þriggja stiga skoti…

…já þegar Stpicic kom þarna eins og jarðýta og keyrði manninn niður…!

…já akkúrat! Það sýnir einmitt andann í mönnum, við vorum fljúgandi í skytturnar. Við horfðum líka aðeins í mínútudreifinguna, að við ættum orku, það voru 4 sem komu af bekknum og skiluðu alveg frábæru hlutverki.

Já, þið voruð að skipta svolítið ört, til að halda orkustiginu í vörninni uppi…

Já, það var bara virkilega flott.

Nú fengu Keflvíkingar svo sem eitthvað af opnum þristum, en fyrstu 7 eða hvað það var fóru ekki ofan í, vörninni að þakka að einhverju leyti, en maður hefur séð svona lagað vinda upp á sig og Keflvíkingarnir misstu kannski pínu lítið sjálfstraustið og trúna…?

Ég get svo sem ekki tjáð mig um hvernig þeim líður eða eitthvað svoleiðis, en auðvitað er það þannig að við verðum að reyna að hemja þessa sóknarvél á einhvern hátt og það er ærið verkefni, það er bara þannig.

Svo má auðvitað segja líka á móti að það var ekki eins og þið hafið verið að hitta eitthvað brjálæðislega heldur í þessum leik, þannig að…

Neinei, við vorum langt undir okkar prósentu, við höfum verið að skjóta á mjög hárri prósentu nú eftir áramót. En það sem við fengum í þessum leik var rosalega mikil breidd í aðgerðum, það voru margir sem komu með hluti að borðinu og lögðu í púkkið, vorum að pósta upp, fá vagg og veltu og drive inn í miðjuna…

Einmitt, og einn og einn þristur…en þið vinnið auðvitað svolítið með það að reyna að nýta hæð og styrk undir körfunni og það gekk alveg á köflum en það voru einhverjir tapaðir boltar þarna líka…

Já, það fylgir því svolítið að vera að fara inn í vörnina…við endum með 13 tapaða bolta. En þeir eru gott varnarlið Keflvíkingar, þeir eru góðir í að fljúga inn í sendingalínur, þeir eru aktívir og duglegir varnarlega.

Næsti leikur…gæti þróast allt öðruvísi en ég get ekki séð betur en planið hjá ykkur hlýtur bara að verða svolítið svipað…?

Nú setjumst við bara yfir þennan leik alveg eins og við gerðum síðast og pikkum út það sem við erum ánægðir með og reynum að takmarka það sem við erum óánægðir með og svo snýst þetta líka bara um það að fara í nudd og menn reyna að halda sér góðum…svo er það bara að mæta til Keflavíkur á föstudaginn! Þetta er bara rokk og ról, þetta er hrikalega skemmtilegt, frábær umgjörð í kvöld.

Já þetta var bara alveg geggjað!

Alvöru úrslitakeppnisleikur, gaman fyrir fólkið að fá að upplifa svona.

Sagði Kjartan, og spennandi að sjá hvernig körfuboltaguðirnir hafa handritið í næsta leik.

Fréttir
- Auglýsing -