spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKjartan Atli um bók sína Hreina Körfu sem komin er út "Vonast...

Kjartan Atli um bók sína Hreina Körfu sem komin er út “Vonast til þess að þessi bók hjálpi næstu kynslóð af körfuboltaunnendum”

Nú fyrir jólin er komin út körfuboltabókin Hrein Karfa. Í bókinni er glæsileg yfirferð yfir landslag körfuboltans í dag, sem og er sagan skoðuð í henni. Þá hefur hún að geyma áður óbirt viðtöl við marga af fremstu leikmönnum þjóðarinnar í dag, sem og þá er ruddu veginn. Höfund bókarinnar er ekki létt að finna titil á. Kjartan Atli Kjartansson var á árum áður afreksmaður sjálfur í íþróttinni sem hefur síðan getið sér gott orð í fjölmiðlum, þar sem hann hefur unnið við dagskrágerð í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndagerð. Þá hefur hann einnig stundað þjálfun á mörgum stigum íþróttarinnar í áraraðir.

Án alls vafa er Kjartan þó þekktastur innan körfuboltasamfélagsins sem stjórnandi Dominos Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, en þátturinn fékk Edduverðlaunin 2020 fyrir sjónvarpsefni ársins. Verðlaun sem ekki verri þættir en Kveikur, Fangar og Ófærð unnu árin á undan. Karfan hafði samband við Kjartan og spurði hann út í tilurð, tilgang og hvernig hafi gengið að koma Hreinni Körfu á markaðinn nú fyrir jólin.

Kjartan varð í þrígang bikarmeistari með Stjörnunni

Sæll Kjartan, útvarp, sjónvarp, íþróttir, heimildaþættir, hvernig er það, var ekki nóg að gera hjá þér?

“…Og við þetta bætist þjálfun, sem mér finnst vera nauðsynlegur hluti af deginum. Vissulega er nóg að gera og stundum of mikið. Ég á góða fjölskyldu sem sýnir því skilning að maður vinni á skrítnum tímum sólarhringsins. Að keyra sig út er auðvelt þegar störfin eru svona skemmtileg og gefandi”

Hvað er það sem hvatti þig til að gefa þessa fínu bók út nú fyrir jólin?

“Ég held að þessi hugmynd hafi lengi verið að gerjast í huga mínum. Spurningin „hvaðan koma hugmyndir?“ er djúp og ég veit eiginlega ekki hvenær nákvæmlega hugmyndin að þessari bók kom. Ég held að hugmyndin hafi fyrst fæðst þegar ég las NBA-bækur Eggerts Aðalsteinssonar og Þórlindar Kjartanssonar í æsku. Ég man hvað þær bækur höfðu mikil áhrif á mig og hvernig ég lærði að elska leikinn enn meira og betur. Ég vonast til þess að þessi bók hjálpi næstu kynslóð af körfuboltaunnendum. Mér fannst vanta körfuboltabók og því ákvað ég bara að vinda mér í að búa hana til!”

Kjartan sem þjálfari 1995 árgangs Stjörnunnar á Scania Cup, en tveir leikmanna liðsins hafa leikið með A landsliði Ísland

Var ekkert erfitt að velja efnistök og hverja ætti að tala við?

“Jú, undirbúningsvinnan var tímafrek en mikilvæg; að komast á rétta braut í upphafi skipti öllu máli. Markmiðið er að bókin sé fræðandi en þó aðgengileg, ekki of þung en þó stútfull af fróðleik og upplýsingum”

“Í bókinni svara margir af okkar bestu leikmönnum fyrr og síðar alls kyns spurningum. „Hver er eftirminnilegasti leikurinn?“, „hver er uppáhalds „drillan“ til að æfa í einrúmi?“ og svo framvegis. Það var eiginlega erfiðast að velja leikmennina, en ég held að það hafi bara tekist nokkuð vel. Svo erum við í körfuboltanum ein stór fjölskylda, allir tóku vel í þetta og voru með”

“Meðfram því að sýna lesendum svör afreksfólksins okkar, þá fer ég yfir feril hvers og eins og reyni að varpa ljósi á helstu afrekin”

“Í bókinni vildi ég líka fjalla um NBA og markmiðið var að reyna að útskýra hvað það er sem heillar mig við deildina. Hvað er það sem fær mig til þess að vakna klukkan 5:00 á morgnanna og horfa á NBA-leiki áður en ég fer á netmiðla og held út í daginn? Vonandi fær lesandinn einhver svör við því”

“Ég fjalla líka um WNBA-deildina og fer yfir feril goðsagna eins og Sue Bird og Diana Taurasi sem hafa haldið tryggð við sín félög og uppskorið eftir því”

Kjartan með Álftanesi eftir að liðið tryggði sér sigur í 2. deildinni 2019

Fyrir hverja er þessi bók?

“Vonandi er hún fyrir alla. Aðgengileg, fræðandi en létt bók var markmiðið. Ég reyni að höfða til þeirra sem eru að kynnast íþróttinni og þeirra sem eru „lengra komnir“ í ást sinni á leiknum. Í kaflanum um Michael Jordan fer ég til að mynda ítarlega yfir vanmetin ár hans í Washington Wizards. Í umfölluninni um Kobe Bryant sýni ég tilvitnanir og sögur liðsfélaga hans um vinnusemi hans, dugnað og elju. Sögur af „trashtalk-inu“ hans Larry Bird, uppeldisár Giannis Antetokounmpo, bestu tvíeyki í sögu WNBA og bestu tvíeykin í NBA nú á dögum, NBA-búbblan í Disney og svo margt fleira. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í kaflanum um erlenda körfuboltann”

“Innlendu stjörnurnar sem eru til umfjöllunar eru á öllum aldri. Þær hafa mismunandi ráð til lesenda og skemmtilegar sögur af mikilvægum leikjum og góðum þjálfurum. Martin Hermannsson, Teitur Örlygsson, Haukur Helgi Pálsson, Jón Arnór Stefánsson, Helena Sverrisdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Pétur Guðmundsson, Pálína Gunnlaugsdóttir og Anna María Sveinsdóttir eru til umfjöllunar auk margra annarra sterkra leikmanna”

“Svo er ég með viðtöl við bandaríska leikmenn sem sest hafa hér að. Ég vildi reyna að komast að því hvað fékk þau Danielle Rodriguez og Brenton Birmingham til þess að koma til Íslands og hvað það var sem fékk þau til að vilja vera hér áfram. Bæði hafa haft mikil og góð áhrif á íslenskan körfubolta og samfélagið”

“Að lokum vil ég nefna kaflana sem eru sérstaklega fyrir ungt körfuboltafólk. Þjálfaraferill minn byrjaði fyrir 19 árum og hef ég sankað að mér góðum ráðum. Ég fer yfir nokkur heilræði sem ég tel að geti hjálpað öllum leikmönnum. Einnig er farið yfir hvernig á að nálgast úrslitaleiki og svo er kafli sem er mikilvægur: Hvernig á maður að bregðast við ef maður tapar mikilvægum leik? Sá kafli ætti að gagnast öllum, en enginn leikmaður fer í gegnum ferilinn án þess að upplifa sorgina við að tapa”

“Og í bókinni er meira fyrir ungt körfuboltafólk; Thelma Dís Ágústsdóttir lýsir reynslu sinni af því að hafa farið út í háskóla í Bandaríkjunum til þess að spila körfubolta. Hún fer yfir ferlið; hvað leiddi til þess að hún fór út, hvernig það var að flytja og hversu öðruvísi körfuboltinn er. Ég held að allir sem ætli sér út í háskólaboltann þurfi að lesa það viðtal”

Hvað kom þér mest á óvart við vinnuna?

“Vá, svo ótrúlega margt kom á óvart. Ég kafaði djúpt í feril leikmanna. Ferill Péturs Guðmundssonar kom mér nokkuð á óvart. Maður vissi að hann hafi komist á stærsta svið heimsins í einni vinsælustu íþrótt veraldar. En þrátt fyrir að ég hafi þekkt söguna hans ansi vel, þá gerði ég mér kannski ekki grein fyrir hversu svakalegt álit stjórn Lakers hafði á honum. Ég las frásagnir blaðamanna, bæði íslenskra og bandarískra. Í bókinni er til dæmis brot úr umsögn blaðamanns LA Times um Pétur, þar sem fram kemur að bæði Magic Johnson og Kareem Abdul-Jabbar hafi tengst íslenska miðherjanum vel. Ég skoðaði „þróaða“ tölfræði liðanna sem Pétur lék með og þar kemur í ljós að hann hafði alltaf mjög jákvæð áhrif á sín lið”

Kjartan með Gaupa á vaktinni á Stöð 2 Sport

“Ég lék á móti Jóni Arnóri á sínum tíma og tel mig þekkja feril hans ansi vel. En samt fattar maður kannski ekki almennilega hvað hann afrekaði fyrr en maður dýfir sér ofan í tölfræðina. Tvítugur var Jón með 13 stig að meðaltali í leik í efstu deild Þýskalands. 24 og 25 ára var hann með 10 stig að meðaltali í leik fyrir Roma í Euroleague. Jón Arnór var klárlega einn af fremstu leikmönnum Evrópu í áraraðir. Maður vissi það svo sem, en þetta setti hlutina í betra samhengi fyrir mann”

“Svo kynnti ég mér alla „erlenda“ leikmenn í NBA sem komu í deildina á undan Pétri Guðmundssyni til þess að skera úr um hvort hann hafi verið fyrsti „erlendi“ leikmaðurinn í NBA. Þar rakst ég á sögu hollensks leikmanns sem var skilinn eftir á munaðarleysingjaheimili ásamt systur sinni þegar móðir þeirra flutti til Bandaríkjanna. Þau systkinin enduðu svo í Bandaríkjunum fyrir tilstuðlan dagskrárgerðarfólks sem kom að vinsælum sjónvarpsþætti. Líklega kom það mest á óvart!”

Við gerum ráð fyrir að þessi seljist vel og þú sért farinn að undirbúa bókajólin 2021, í hvaða átt myndi þig langa að fara með bókina?

“Svarið við þessari spurningu gæti svo sem verið heilræði í körfubolta; Einn leikur í einu. Við klárum þessi bókajól áður en maður fer að plana þau næstu. En árið 2021 verður pottþétt viðburðarríkt. Mögulega eru frekari bókaskrif á döfinni”

“Nú snýst allt um að ljúka þessu ári með stæl. Við fjölskyldan höfum haft það virkilega gott þó svo að ytri aðstæður hafi verið erfiðar. Okkur fjölgaði á árinu og öllum heilsast vel. Maður biður ekki um meira en það. Við höfum átt góð samskipti við svo marga í körfuboltahreyfingunni á þessu ári. Ég veit að allt körfuboltafólk fer daglega á þennan vef, þannig að ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig!”

Fréttir
- Auglýsing -