spot_img
HomeFréttirKjartan Atli erindreki körfuboltans - Tvær nýjar bækur í jólabókaflóðinu 2022

Kjartan Atli erindreki körfuboltans – Tvær nýjar bækur í jólabókaflóðinu 2022

Körfuboltinn er sú íþrótt sem hefur hve mest sótt í sig veðrið hér á Íslandi og verður sífellt vinsælli með hverju árinu. Fjöldi iðkenda íþróttarinnar er sagður hafa farið fram úr handboltanum á síðasta ári. Einn af þeim sem á vafalaust stóran þátt í því er íþróttafréttamaðurinn og þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson sem hefur náð að lyfta allri umfjöllun um íslenska körfuboltann á efri stig. Kjartan hefur einnig verið iðinn með pennann því hann hefur nú skrifað einar 6 bækur um körfubolta síðustu ár. Fjórar þeirra hafa komið út hér á landi en hinar voru skrifaðar fyrir bandarískan markað.



Bókin Stjörnurnar í NBA kom út nú í haust og fylgir þar Kjartan eftir bók sinni Hrein karfa sem kom út í fyrra, Bandaríski körfuboltinn er ein vinsælasta íþrótt heims og stjörnur NBA þær stærstu í sögunni. NBA-deildin hefur lengi notið mikilla vinsælda á Íslandi en aldrei eins og nú. Kjartan Atli tekur þar saman allar hetjurnar sem skipta máli í sögu keppninnar og auðvitað alla heitustu leikmennina í dag. LeBron James, Luka Doncic, Giannis, Harden, Stephen Curry ásamt eldri meisturum á borð við Wilt Chamberlain, Kareem Abdul-Jabbar, Magic, Jordan, Shaq og Larry Bird.

Klikkað spennandi sögur um körfuboltakrakka
Í fyrra kom út bókin Saman í liði þar sem lesendur kynntust Lóu og Berki og vinum þeirra sem öll æfa körfubolta. Þar þurfti Börkur að sjá eftir vini sínum og meðspilara slasast en Lóu er þá boðið að spila með strákunum og skemmt frá því að segja að hún brillerar. Nú hefur Kjartan gefið frá sér sjálfstæða framhaldssögu um þau Lóu og Börk sem kallast Langskot í lífsháska. Þar fá þau spennandi boð í körfuboltabúðir í Bandaríkjunum og ekki líður á löngu þar til mögnuð atburðarás fer af stað þar sem þau þurfa, ásamt félögum sínum, að takast á við risastórar áskoranir. Hætturnar finnast víða í hinum stóra heimi. Við sögu koma lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum og á Íslandi auk magnaðs mótorhjólagengis og annarra vafasamra einstaklinga.

Spennandi en ólíklegt samstarf
Kjartan Atli Kjartansson skapaði þessar skemmtilegu persónur sem lesendur fengu að kynnast í fyrra og viðtökurnar sögðu sitt. Fyrir utan að hafa ratað á vinsældalista í flokki ungmennabóka var hún einnig mjög vinsæl í hljóðbókaformi þar sem þau Saga Garðarsdóttir og tónlistarmaðurinn Króli, eða Kristinn Óli, voru í hlutverkum vinanna Lóu og Barkar. Kjartan brá á það ráð að fá til liðs við sig höfundinn vinsæla Braga Pál Sigurðarson, sem slegið hefur í gegn með skáldsögum sínum og pistlum. Þó að Kjartan og Bragi komi úr ólíkum áttum eiga þeir það sameiginlegt að elska körfubolta og vandaðar bækur fyrir ungt fólk. Það sem sameinaði þá einna helst var sameiginleg aðdáun á félaginu Boston Celtics. Þrátt fyrir ólíklega vinnufélaga gekk samstarfið virkilega vel og úr varð frumleg og fantaspennandi körfuboltasaga fyrir alla fjölskylduna.

Körfuboltaunnendur koma því ekki að tómum kofanum hvað snertir jólabókaflóðið í ár. Bækur Kjartans, Stjörnurnar í NBA og Hrein karfa hafa komið út í sérstökum útgáfum á Ameríkumarkaði við góðar viðtökur, því má búast við að framhald verði á útgáfunni og Kjartan Atli verði áfram með pennann í annarri hendi og boltann í hinni.

Fréttir
- Auglýsing -