spot_img
HomeFréttirKjartan Atli er ekki viss hvort hann haldi áfram með Álftanes á...

Kjartan Atli er ekki viss hvort hann haldi áfram með Álftanes á næsta tímabili “Skemmtileg rússíbanareið”

Keflvíkingar lögðu Álftanes í Forsetahöllinni í fjórða leik átta liða úrslita einvígis liðanna, 85-114. Með sigrinum tryggði Keflavík sér sigur í einvíginu 3-1, en þar munu þeir mæta Grindavík.

Hérna er meira um leikinn

Kjartan Atli spjallaði við Körfuna eftir leik:

Það er kannski ekkert yfirgengilegt áfall að detta úr leik gegn Keflavík…en leiðinlegt að detta út í svona leik, svona bursti…?

Já, þetta var ekki leikurinn sem við vildum enda á, ekki leikurinn sem við vildum sýna okkar frábæra stuðningsfólki. Þetta var örugglega okkar versti heimaleikur í vetur, þannig að það er leiðinlegt.  

Já…maður er alltaf að reyna að finna einhverjar skýringar á hlutunum…þið hafið verið þekktir fyrir varnarleik en hann var bara eins og gatasigti hérna, eiginlega allan leikinn?

Við fundum ekki taktinn okkar í vörn, það gerist líka að þegar þeir byrja að hitta þá togumst við svolítið ósjálfrátt út í skytturnar og þá opnast líka leiðir að körfunni sem hafa ekki verið að opnast í seríunni…

…þá hrynur þetta svolítið?

Já, og þeir eru líka mjög erfitt lið að elta, við erum lið sem vill svolítið hægja á leiknum og spila hann 5 á 5, það er erfitt þegar þeir ná forystu og þegar við erum að klóra í þá fáum við 2-3 þrista í andlitið á okkur þannig að…svona bara spilaðist þessi leikur og leiðinlegt að enda á þessu. En mig langar að óska Keflvíkingum til hamingju, þetta var vel spilað hjá þeim og það komu nokkrir taktískir núansar hjá þeim sem að voru bara mjög góðir, vel gert hjá Pétri og Magga.

Akkúrat. Það er kannski svolítið þannig að ykkar leikstíll hentar afar illa 20 stigum undir, þið viljið spila á hálfum velli eins og þú segir og erfitt að ætla að koma til baka…

Já sérstaklega á móti þeim, en við náðum þó 25 stigum niður í 5 í Keflavík en þó ansi seint samt…en þetta er alveg í okkur að einhverju leyti, við höfum náð að snúa til baka í einhverjum leikjum en ég tek alveg undir þetta, við lentum bara í erfiðeikum með að klukka þá þegar þeir voru komnir yfir og þeir svona komnir með taktinn til sín í leiknum.

Einmitt. En ef við horfum þá fram veginn, mögulega hafa þeir sem slysast til að lesa þetta viðtal áhuga á að heyra af því hvað er ljóst á þessari stundu varðandi liðið fyrir næsta tímabil?

Maður er svo sem ekki alveg kominn þangað í huganum með neitt…en það eru 3 leikmenn sem eru með meira en eins árs samning, það eru Hörður, Haukur og Dino. Svo förum við bara í að skoða málin…

Já..en hvað með þig sjálfan?

Mig langar að halda áfram, en það það þarf að eiga samtal við marga, fyrst og fremst fjölskylduna og sjá hver takturinn er, leyfa nokkrum dögum að líða og spyrja sig einhverra spurninga. En þetta var óskaplega skemmtilegt leiktímabil og mér þykir rosalega vænt um hvern og einn einasta leikmann sem var í leikmannahópnum okkar – þetta var skemmtileg rússíbanareið!

Fréttir
- Auglýsing -