Sacramento Kings, með nýliðann magnaða Tyreke Evans í broddi fylkingar, áttu eitthvað eftirminnilegasta „kommbakk“ seinni tíma í NBA þegar þeir lögðu Chicago Bulls að velli, 98-102, í nótt eftir að hafa lent 35 stigum undir. Þetta er mesti viðsnúningur í NBA í 13 ár, eða síðan Utah Jazz sneru við 36 stiga forskoti Denver Nuggets og sigruðu í nóvember 1996.
Það segir sig sjálft að Kings (13-14) voru ekki beint að finna sig framan af leik þar sem Bulls (10-16) skoruðu 38 stig gegn 19 í fyrsta leikhluta og hófu m.a. seinni hálfleikinn á 12-1 kafla. En þegar þriðji leikhluti var um það bil hálfnaður var eins og fótunum væri kippt undan þeim rauðu og Evans og liðsfélagar hans gjörsamlega tættu þá í sig á lokakaflanum.
Evans lauk leik með 23 stig og 8 fráköst, en Luol Deng var stigahæstur Bulls.
Önnur úrslit í nótt:
Indiana Milwaukee 81-84
Orlando Utah 104-99
San Antonio LA Clippers 103-87
Phoenix Cleveland 91-109
Mynd/AP – Tyreke Evans fagnar innilega í leikslok



