Nú er vertíðin á næsta leyti og ekki laust við að við séum orðin spennt fyrir fjörinu. Síðasta tímabil var magnað í Domino´s deild karla þar sem botninn gat hæglega stolið stigum af toppnum og hlutirnir skýrðust ekki almennilega fyrr en á lokametrunum og í ofanálag fengum við oddaleik í úrslitunum, það gerist ekki mikið betra. Líkt og börn á jólum urðum við bara að skyggnast í pakkann, reyndum haganlega að fjarlægja gjafapappírinn svo það kæmist ekki upp um okkur og reyndum að gera okkur í hugarlund hvernig innihaldið nú væri. Hér að neðan fer Karfan.is, með sínu nefi, yfir liðin og þeirra möguleika á tímabilinu.
Ríkjandi meistarar síðustu tveggja tímabila hafa sætt nokkrum breytingum í sumrinu. Sammy Zeglinski kemur ekki aftur í Röstina til að taka upp boltann og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir Jón Axel Guðmundsson og Daníel Guðmundsson (þó ekki bræður) munu skila hlutverkinu af sér. Sigurður Gunnar Þorsteinsson er þekkt stærð og Ómar Örn Sævarsson kemur inn að nýju eftir leikbann. Nú ætti að vera kominn tími á Jens Valgeir Óskarsson að láta til sín taka en þessi rúmlega tveggja metra miðherji ætti vel að geta fótað sig í úrvalsdeildinni. Jóhann Árni Ólafsson og Þorleifur Ólafsson verða í yfirvinnu þessa vertíðina og þurfa að taka á sig enn stærra hlutverk innan liðsins nú þegar erlendum leikmönnum hefur verið fækkað niður í einn. Eins verður það mikilvægt fyrir Grindvíkinga að fá Ólaf Ólafsson í topp stand og glitti í gamla Óla nokkrum sinnum á síðasta tímabili. Í breyttri deild verður einnig mikilvægt að halda reynsluboltum á borð við Björn Steinar Brynjólfsson, ekki bara er hann fín þriggja stiga skytta en hann hefur reynslu og aldur sem ætti að nýtast Grindvíkingum vel og skilar sínu ávallt í vörninni. Það er stór biti að missa leikmann eins og Aaron Broussard enda var hann einn sterkasti leikmaður síðasta tímabils. Grindvíkingar hafa þegar spólað í gegnum einn Bandaríkjamann, Stephenson sendur heim á undirbúningstímabilinu og Kendall Timmons væntanlegur…miklar væntingar um að sá náungi fari Bullock/Broussard leiðina.
Grindavík getur vel gert atlögu að titlinum og reynt við þrjá í röð en það hefur ekki tekist síðan Keflavík gerði það 2003, 2004 og 2005. Sverrir Þór og Grindvíkingar verða með ansi myndarlega skotskífu á bakinu í vetur enda vilja allir leggja meistarana að velli.
| Grindavík | Four Factors | Dreifing skors | 2P vs 3P (skot) | ||||||||||||
| Stig | FG% | TS% | Pace | ORgt | Sókn% | eFG% | TOV% | ORB% | FT/FGA | 2P | 3P | V | 2P | 3P | |
| Sókn | 98,0 | 46,2% | 55,7% | 87,4 | 112,1 | 51,9% | 52,3% | 13,8% | 33,9% | 21,1% | 53,8% | 29,4% | 16,8% | 66,7% | 33,3% |
| Vörn | 87,1 | 42,8% | 52,1% | 87,4 | 99,6 | 46,2% | 48,4% | 16,2% | 29,8% | 19,2% | 54,8% | 28,7% | 16,5% | 67,3% | 32,7% |
Er þetta tímabilið sem Stjarnan vinnur þann stóra? Brotthvarf Jovans Zdravevski mun vafalítið taka toll af liðinu og þá mun Jarrid Frye ekki snúa aftur. Ungir menn krefjast þess nú að fá tækifærið og Sæmundur Valdimarsson er einn þeirra. Okkur hér á Karfan.is segir svo hugur að eftir næstu leiktíð þá verði enginn sem viti ekki hver „Lil Marv“ er eins og hann hefir verið nefndur af NBA Ísland.
Það vantar svo ekki hundana í þennan hóp, Justin, Marvin, Kjartan, Fannar og svo Bandaríkjamaðurinn Nasir Robinson. Dagur Kár Jónsson verður áfram fulltrúi nýjabrumsins í Garðabænum og verður fróðlegt að sjá hvort hann komi sér enn betur fyrir í kjarna Teits Örlygssonar og taki á sig enn meiri ábyrgð innan liðsins. Stjörnumönnum líður vel í Laugardalshöll og hafa nú tvisvar í sögu félagsins orðið bikarmeistarar en okkur segir svo hugur að þeir ætli sér meira og verði jafnvel með smá læti og þá sérstaklega á síðari helmingi tímabilsins. Um það leyti ætti Jón Sverrisson að vera að mæta á parketið og þar áskotnaðist Stjörnumönnum talsverðar töggur og verður enginn fegnari en Fannar Helgason þegar Jón kemst í gang því eins og staðan er í dag er það teigurinn sem Stjarnan þarf að þétta betur.
Við sjáum Stjörnuna ekki berjast um titla á þessari leiktíð en ef það gerist velkjumst við ekki í nokkrum vafa um að þessari línu verði hent beint aftur í hausinn á okkur á samfélagsmiðlunum af þeim Snorra Erni og Teiti.
| Stjarnan | Four Factors | Dreifing skors | 2P vs 3P (skot) | ||||||||||||
| Stig | FG% | TS% | Pace | ORgt | Sókn% | eFG% | TOV% | ORB% | FT/FGA | 2P | 3P | V | 2P | 3P | |
| Sókn | 95,0 | 48,6% | 58,8% | 85,0 | 111,7 | 51,8% | 54,3% | 16,4% | 30,5% | 26,4% | 55,3% | 25,1% | 19,6% | 69,5% | 30,5% |
| Vörn | 87,1 | 39,8% | 49,5% | 85,0 | 102,4 | 47,5% | 45,4% | 12,1% | 33,1% | 19,7% | 51,8% | 30,4% | 17,8% | 63,1% | 36,9% |
Tveggja metra menn og þar yfir eru munaðarvara í íslenskum körfuknattleik og því ansi stórt högg fyrir KR að missa Finn Atla í Hólminn og Kristófer Acox í nám erlendis. KR-ingar eru þó ekki á flæðiskeri staddir þar sem Ingvaldur Magni Hafsteinsson er mættur aftur í DHL-Höllina sem og Darri Hilmarsson. Tveir kappar hoknir af reynslu detta þarna inn í stað Finns og Kristófers. Í DHL-Höllinni verður því valinn maður í hverju rúmi og röndóttir hafa nú þegar gengið frá sínum Kanamálum með ráðningu á tveggja metra háum Shawn Atupem en það hefur enginn hugmynd um hvenær maðurinn mætir til landsins og allir KR-ingar ómyrkir í máli þegar við reynum að „pumpa“ þá.
Í og við teiginn verða Jón Orri Kristjánsson, Shawn, Magni, Helgi og Darri og ætti þessum köppum að vera treystandi í námunda við körfuna.
Stærsti samningur sumarsins gekk svo í gegn á dögunum þegar Pavel Ermolinski samdi á ný við KR. Við þurfum ekkert að fjölyrða um styrkleika þessa leikmanns en hann er fullfær um að leiða KR til sigurs í öllum keppnum sem framundan eru þessa vertíðina.
Mikilvægt er fyrir KR að fá Brynjar Þór Björnsson í algeru toppstandi inn í tímabilið. Pavel mun þjónusta Brynjar með myndarskap og svo er það óskandi fyrir KR að meiðsli hins öfluga Martins Hermannssonar verði ekki að plaga hann mikið lengur.
Með nýjan þjálfara í brúnni bíða menn eftir því að sjá hvað Finnur Freyr Stefánsson ætlar að leggja áherslu á þetta tímabilið. Finnur fær sína eldskírn sem skipper með úrvalsdeildarlið en hann er engu að síður öllum hnútum kunnugur í deildinni. KR er með hóp til að vinna þetta allt saman en það er nú einu sinni þannig með KR að það vilja allir vinna KR og röndóttir fá sjaldnast nokkur grið. Þarna eru menn á besta aldri til að færa titil í hús og ef Ingvaldur Magni verður „all in“ þá gætum við amk séð enn eina spá þjálfara/forráðamanna sem hefur KR í efsta sæti rætast.
| KR | Four Factors | Dreifing skors | 2P vs 3P (skot) | ||||||||||||
| Stig | FG% | TS% | Pace | ORgt | Sókn% | eFG% | TOV% | ORB% | FT/FGA | 2P | 3P | V | 2P | 3P | |
| Sókn | 86,4 | 45,4% | 54,4% | 84,0 | 102,8 | 48,7% | 50,5% | 16,9% | 30,3% | 24,4% | 56,1% | 24,5% | 19,4% | 67,7% | 32,3% |
| Vörn | 86,0 | 44,5% | 54,7% | 84,0 | 102,4 | 48,4% | 50,2% | 15,9% | 26,3% | 26,8% | 52,0% | 26,9% | 21,1% | 67,7% | 32,3% |
Ingi Þór Steinþórsson gæti boðið upp á eitt stærsta byrjunarlið landsins. Til dæmis Finnur Atli Magnússon, Stefán Karel Torfason, Sigurður Þorvalsdsson, Jón Ólafur og Bandaríkjamaðurinn Jamarco en ef hann vill gera heiðarlega tilraun að Íslandsmetinu í sentimetrum per byrjunarlið þá setur hann Jamarco á bekkinn og lætur Pálma koma upp með boltann.
En að öllu gamni slepptu er Snæfell með hóp til að fara langt. Heimavöllurinn er feykilega sterkur og þó frammistaða liðsins hafi verið allt að því hlægileg í undanúrslitum Lengjubikarsins þá dylst engum að þarna er sterkur hópur á ferðinni. Snjólfur Björnsson er kominn heim frá Bandaríkjunum og hefur verið duglegur að borða grænmetið sitt, sterkur strákur þarna á ferðinni og Stefán Karel var með landsliðinu í sumar og tölurnar í fyrirtækjabikarnum hjá honum töluðu sínu máli, kauði er á uppleið. Hafþór Ingi mun halda áfram að koma með læti inn af bekknum, áræðinn bakvörður þar á ferðinni og Sveinn Arnar Davíðsson er einnig mikilvægur hlekkur í Stykkishólmi og ef okkar heimildir reynast sannar mun kauði hafa verið duglegur í sumrinu.
Ofantaldir eru mennirnir sem munu bera uppi Snæfellsliðið en þeir verða þá að nenna því. Það var ekki mikil nennan í þeim í undanúrslitum Lengjubikarsins þegar Keflavík skildi skófar sitt eftir á enni Hólmara. Snæfell mun berjast um titlana og þá þarf Jamarco Warren að stýra þessu skipi þeirra af festu.
| Snæfell | Four Factors | Dreifing skors | 2P vs 3P (skot) | ||||||||||||
| Stig | FG% | TS% | Pace | ORgt | Sókn% | eFG% | TOV% | ORB% | FT/FGA | 2P | 3P | V | 2P | 3P | |
| Sókn | 95,7 | 48,5% | 58,8% | 84,0 | 114,0 | 52,5% | 55,4% | 14,9% | 31,7% | 22,4% | 52,0% | 31,2% | 16,8% | 63,7% | 36,3% |
| Vörn | 86,9 | 43,3% | 52,7% | 84,0 | 103,5 | 48,1% | 48,8% | 14,0% | 26,9% | 21,3% | 54,2% | 27,9% | 17,9% | 66,6% | 33,4% |

Sumarið tók sinn toll af Þórsurum. Darri Hilmarsson, Guðmundur Jónsson og Grétar Ingi Erlendsson héldu á önnur mið en í stað þeirra komu Ragnar Nathanaelsson, Tómas Heiðar Tómasson og Nemanja Sovic. Bræðurnir Baldur og Þorsteinn Ragnarssynir eiga að bæta við sig snúning þetta tímabilið og hið sama gildir um Emil Karel Einarsson, þessir ofangreindir ásamt Mike Cook Jr. verða hryggjarstykkið í leik Þórsara.
Undir lok síðustu leiktíðar voru meiðsli að plaga Þórsara sem gerði ferð þeirra í úrslitakeppnina stutta en síðustu tvö tímabil hefur liðið endað í 2. sæti ( 2012-2013) og 3. sæti (2011-2012) í deildarkeppninni.
Við sjáum Þór ekki jafna þennan árangur á komandi tímabili, þ.e. að ná lokastöðu í deild í 2. eða 3. sæti. Reynslumiklir leikmenn eins og Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson vega afar þungt en það þýðir ekkert að gráta „Gvend“ og eflaust eru Þórsarar ekkert að því. Benedikt er alltaf með Ás uppi í erminni og við efumst ekki um að það sé einmitt tilfellið núna eins og síðustu ár. Græni drekinn var samt steinsofandi alla síðustu leiktíð og er það miður fyrir Þórsara því öflugur stuðningur eins og Drekinn getur veitt er auðvitað ekkert annað en aukamaður á parketinu. VIð myndum ætla að það væri efst á „to do“-lista bæjarstjórnarinnar í Þorlákshöfn að virkja drekann.
| Þór Þorlákshöfn | Four Factors | Dreifing skors | 2P vs 3P (skot) | ||||||||||||
| Stig | FG% | TS% | Pace | ORgt | Sókn% | eFG% | TOV% | ORB% | FT/FGA | 2P | 3P | V | 2P | 3P | |
| Sókn | 93,5 | 46,6% | 56,3% | 86,3 | 108,3 | 51,5% | 52,0% | 14,0% | 27,9% | 26,7% | 54,8% | 24,8% | 20,4% | 70,0% | 30,0% |
| Vörn | 86,5 | 45,0% | 53,2% | 86,3 | 100,2 | 48,0% | 49,0% | 16,5% | 27,9% | 23,7% | 60,9% | 19,7% | 19,4% | 71,4% | 28,6% |
Andy Johnston tók við Keflvíkingum í sumar og ef marka má orðið á strætinu þá er hann að stokka hlutina ansi myndarlega upp. Nú ef koma Andy var ekki nóg tryggðu Keflvíkingar sér starfskrafta Guðmundar Jónssonar og eru orðnir ansi myndarlegir í bakvarðastöðunum með Guðmund ásamt Arnari Frey Jónssyni, Val Orra Valssyni, Magnúsi Þór Gunnarssyni og Darrel Lewis.
Gunnar „djöfull get ég hoppað“ Ólafsson kom einnig til Keflavíkur í sumrinu frá Fjölni en hann og Ragnar Gerald verða heldur betur að taka á honum stóra sínum fyrir hverri einustu mínútu í Keflavíkurliðinu. Bakvarðasveitin er þéttskipuð og í kringum teiginn eru þeir Michael Craion, Almar Guðbrandsson og okkur segir svo hugur að Þröstur Leó Jóhannsson verði einnig eitthvað viðriðin fráköstin þetta tímabilið.
Frammistaða Keflavíkur í undanúrslitum og úrslitum Lengjubikarsins vakti verðskuldaða athygli þar sem Keflvíkingar settu stigamet með því að rassskella Snæfell og KR. Þeir verða ofarlega í spá forráðamanna og fyrirliða í Domino´s deildinni sem KKÍ birtir eftir fjölmiðlafund sinn fyrir mót.
Við hvetjum ykkur til að hafa auga með Gunna Ólafs og Ragnari Gerald, Andy Johnston rúllar vel á Keflavíkurliðinu og þeir munu sjást töluvert þessir kappar.
Keflvíkingar eru með lið til að fara alla leið, á því leikur enginn vafi og sem fyrr verða þau mörg liðin eins og kýld í magann og nötra í hnjáliðum klukkutíma fyrir leik í T.M.-Höllinni.
| Keflavík | Four Factors | Dreifing skors | 2P vs 3P (skot) | ||||||||||||
| Stig | FG% | TS% | Pace | ORgt | Sókn% | eFG% | TOV% | ORB% | FT/FGA | 2P | 3P | V | 2P | 3P | |
| Sókn | 91,9 | 44,2% | 52,5% | 86,3 | 106,4 | 50,6% | 48,5% | 14,8% | 37,2% | 21,7% | |||||




