spot_img
HomeFréttirKFÍ með spennusigur í Skagafirði

KFÍ með spennusigur í Skagafirði

KFÍ sótti sigur í Skagafjörðinn í kvöld þegar Ísfirðingar lögðu Tindastól 83-86. Leikurinn var jafn og spennandi en Ísfirðingar voru með heitari hendur þegar skipti mestu máli og fara því brosandi heim á Ísafjörð, tilbúnir að vakna snemma og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun af heilum hug.
 
Það voru þó heimamenn sem mættu ákveðnari til leiks og Helgi Freyr Margeirs tók það að sér að halda upp á 33 ára afmæli þriggja stiga körfunnar og setti þrjá þrista með stuttu millibili í fyrsta leikhluta og sló þannig tóninn. Staðan eftir einn leikhluta var 25-23 og Tindastóll með undirtökin. Í öðrum leikhluta fór leikurinn örlítið á flug, aginn lítill og óteljandi tapaðir boltar litu dagsins ljós. Ísfirðingar þó duglegri að tapa boltanum og Tindastóll náði pínu forskoti. Í hálfleik leiddu Stólar 46-39 og virtust ekki í teljandi vandræðum.
 
Þriðji leikhluti spilaðist mikið til eins og leikhluti númer tvö, enginn agi og leikstjórnendur begga liða með lítil tök á gólfinu. Tindastóll samt með yfirhöndina og náðu mest 12 stiga forskoti um miðjan þriðja og virtust vera “meðetta”. Ísfirðingar skelltu þá í svæðisvörn og Stólarnir hikstuðu. Ísfirðingar gengu á lagið, náðu muninum niður og staðan 67-60 þegar flautað var í fjórða leikhluta.
 
Í fjórða leikhlutanum voru Ísfirðingar orðnir heitir. Hættir að tapa boltanum skrautlega og langskotin byrjuðu að detta niður, sérstaklega hjá Latinovic og Harry Spencer sem héldu party við þriggja stiga línuna meðan Tindastólmenn hentu múrsteinum í loftið.
 
Afleiðingarnar mátti sjá á stigatöflunni, forskot heimamanna minnkaði ört og Ísfirðingar komust yfir 76-77 í fyrsta skipti í leiknum þegar fjórar mínútur voru eftir. Þegar þrjár mínútur voru eftir virtust Ísfirðingar vera komnir langleiðina með að klára dæmið þegar staðan var 76-81 en þá tók Mirko Virijevic upp á því að “taka Gunnar Nelson” á George Valentine í sniðskoti. Mirko fékk á sig óíþróttamannslega villu sem var hans fimmta villa og heimamenn eygðu von.
 
Spennan var því mikil síðustu mínúturnar, til dæmis var staðan 83-84 þegar mínúta var eftir og 84-85 þegar 10 sekúndar voru eftir. En hetjuna vantaði í lið heimamanna og Jón Hrafn kláraði leikinn með tveimur vítum í lokin.
 
Bestur í liði Ísfirðinga og besti maðurinn vallarins var Latinovic, stór bakvörður sem Tindastólsmenn áttu erfitt með að dekka. Mirko Virijevice sá alfarið um að teigurinn var hreinn hjá Ísfirðingum og Harry Spencer átti góða þrista á réttum tíma. Þá var Jón Hrafn á gólfinu allan leikinn og gerði fullt af fínum hlutum. Hjá Tindastól voru Þröstur og Helgi Rafn að gera góða hluti og Helgi Freyr var að hitta vel. George Valentine skilaði inn tölum sem gætu sloppið í sigurleik en Isaac Miles átti mjög líklega ekki sinn besta leik á ferlinum.
 
Tindastóll byrja hefðbundið þetta haustið, með þremur tapleikjum en KFÍ komnir með tvo sigra sem er nú bara nokkuð gott.
 
 
 
Umfjöllun/ Björn Ingi Óskarsson  
Fréttir
- Auglýsing -