Annarri umferð í Domino´s deild karla lýkur í kvöld. Liðin eiga öll sína sögu og hér að neðan rýnum við aðeins í sameiginlega sögu þeirra liða sem mætast í kvöld. Allir leikir eru kl. 19:15.
Keflavík-KFÍ
Ísfirðingar hafa einu sinni unnið í Keflavík en það var fyrir 15 árum eða árið 1998 þar sem Ísfirðingar sluppu með 78-85 sigur. Liðin hafa alls níu sinnum mæst í deildarleik í Keflavík og heimamenn unnið átta sinnum. Viðureign liðanna í fyrra í Keflavík fór 111-102 heimamönnum í vil og verður nú fróðlegt að sjá hvernig KFÍ muni ganga gegn einu heitasta liði landsins um þessar mundir.
Haukar-Grindavík (Haukar TV)
Síðast þegar Haukar unnu deildarleik gegn Grindavík riðu menn um héruð og kölluðu sig kaupsýslumenn og þaðan af flottara. Spennuleikur að Ásvöllum 87-86 Hauka í vil í þann 19. janúar 2007 er síðasti deildarleikur þar sem Haukar unnu gegn Grindavík í Hafnarfirði. Sama spennan var uppi á teningnum á þarsíðustu leiktíð þegar Haukar féllu og töpuðu þá gríðarlega mikilvægum leik gegn Grindavík 93-94. Hafnfirðingar eru því örugglega langþreyttir á Grindvíkingum og allar líkur á því að um hörkuleik verði að ræða í Schenkerhöllinni í kvöld.
Þór Þorlákshöfn – Stjarnan (Sport TV)
Deildarrimmur þessara liða eru ungabarn að aldri, Stjarnan hefur tvívegis mætt í Þorlákshöfn í úrvalsdeild, unnu fyrst á silfurtímabili Þórs 86-97 og lágu svo á síðasta tímabili 105-100 í Icelandic Glacial Höllinni. Þórsarar hafa misst Emil Karel í meiðsli en vöktu athygli fyrir sigur í Stykkihólmi í síðustu umferð og að sama skapi fengu Garðbæingar þungan skell gegn Keflavík. Leikur kvöldsins í Þorlákshöfn gæti því orðið ansi athyglisverður.
Fjölmennum á vellina!



