spot_img
HomeFréttirKeyptu gjafirnar sjálfir í spítalaheimsókn

Keyptu gjafirnar sjálfir í spítalaheimsókn

Martin Hermannsson hefur látið vel til sín taka í næstefstu deild í Frakklandi það sem af er leiktíðar með Charleville. Hann er fimmti stigahæsti leikmaður deildarinnar með 18,1 stig að meðaltali í leik. Liðið er í 2. sæti deildarinnar og Martin einn af lykilmönnum klúbbsins. Nýverið birtust nokkrar myndir af heimsókn liðsins á spítala í borginni og segir Martin klúbbinn reglulega taka virkan þátt í samfélaginu.

„Klúbburinn er mjög virkur í samfélaginu og á dögunum fórum við með gjafir á spítalann hér í borginni,“ sagði Martin og aðspurður um hvort þetta væru verkefni sem íslensk körfuboltalið ættu að taka sér til fyrirmyndar svaraði hann: „Alveg klárlega, við í liðinu keyptum t.d. gjafirnar sjálfir sem við fórum með á spítalann og mætum svo reglulega á æfingar hjá yngri flokkum. Á dögunum vorum við með súpu niðri í bæ fyrir fólk sem hefur minna á milli handanna.“

Það er því ekki bara á parketinu sem Charlevill er að gera vel heldur rík og myndarleg þátttaka í samfélaginu sem Martin segir að hafi gríðarlegan áhuga á körfubolta. 

„Það er alltaf gaman að geta gefið af sér, sérstaklega núna yfir jólatímann. Maður finnur að fólk hérna lítur upp til okkar og körfuboltaáhuginn er mikill í þessum bæ svo þetta er það minnsta sem maður getur gert.“

Charleville hefur gengið vel, Martin stígur þó varlega til jarðar.

„Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar. Okkur var spáð einu af neðstu sætunum fyrir tímabilið. Við erum hinsvegar að þagga niður í flestum og getum vonandi haldið því áfram. Við erum með þunnan hóp og megum ekki við miklum meiðslum. Þetta er langt tímabil og markmiðið er að komast í úrslitakeppni, allt annað er plús,“ sagði Martin sem finnur sig í Íslendingaslag þann 16. desember næstkomandi! Þá mætast Charleville og Rouen sem Haukur Helgi Pálsson leikur með.

„Já hlakka mikið til að spila á móti Hauki. Hef ekki mætt honum síðan að hann var í 11. flokki og ég þá í 9. flokki. Það var bikarúrslitaleikur sem að hann vann, þannig vonandi næ ég að hefna fyrir það. Við erum líka mjög góðir vinir, og ég ætla að bjóða honum í smá jólaköku sem að mamma kom með fyrir tveimur vikum. Jafnvel malt og appelsín ef að hann lofar að vera lélegur.“

Myndir af Facebook-síðu Charleville

Fréttir
- Auglýsing -