Enginn stjörnuleikur verður á Íslandi þessa vertíðina en Hannes S. Jónsson formaður KKÍ sagði í kvöld í samtali við Karfan.is að umfangsmikið keppnishald sambandsins hefði gert það að verkum að stjórn KKÍ hefði ákveðið að hvíla Stjörnuleikinn eitt tímabil hið minnsta.
„Við höfum velt þessu mikið fyrir okkur á síðustu árum. Keppnishaldið okkar er orðið ofboðslega umfangsmikið og þá einkum og sér í lagi um helgar. Við vorum eiginlega komin í vandræði með helgi fyrir þetta verkefni og ákváðum því að prufa að sleppa Stjörnuleikjunum þetta árið,“ sagði Hannes en til fjölda ára hefur Stjörnuleikshátíðin verið árlegur viðburður.
„Verkefnið tekur heila helgi og það setur mikið af annarri okkar starfsemi í uppnám. Viðbrögðin úr hreyfingunni hafa verið jákvæð við þessari ákvörðun en hinn almenni áhugamaður virðist halda örlítið fastar í þess hefði heldur en aðildarfélögin,“ sagið Hannes en engin ákvörðun hefur verið tekin með framhaldið.
„Svona verður þetta á þessu tímabili en við munum skoða framhaldið ítarlega.“
Mynd/ Frá Stjörnuleikjahelginni á síðasta tímabili



