KR hélt sigurgöngu sinni áfram í Domino´s deild karla með sigri á Keflavík, í Keflavík, í kvöld. Lokatölur leiksins voru 67-90, KR í vil. Með sigrinum héldu KR, enn, taplausu tímabili sínu gangandi og eru því efstir í deildinni við hlið Hauka. Keflavík með tapinu sökk niður í það sæti sem leikmenn og forráðamenn höfðu spáð þeim fyrir tímabilið, það sjöunda og eru tveimur sigurleikjum frá áðurnefndu toppsæti Hauka og KR.
Lið KR hafði fyrir leik kvöldsins svosem ekki stigið nein bein feilspor, en á orði manna væri að liðið ætti þónokkuð inni í leikstjórnanda sínum, Pavel Ermolinskij, sem hafði verið frá síðan hann snéri á sér ökkla fyrir fyrsta leik tímabilsins. Vandræði liðsins (þó um sigurleiki hafi verið að ræða) á dögunum, bæði, gegn ÍR og svo Tindastól voru af flestum skrifuð á þessa fjarveru hans og má með sanni segja að nokkuð hafi verið inni fyrir þeirri greiningu. Því KR með Pavel innanborðs, voru með kveikt á öllu frá því að dómarinn setti leikinn af stað, þangað til að bæði lið sáu í hvað stefndi og unglingaflokkar/drengjaflokkar félaganna voru settir inná til þess að klára leikinn (sem var um miðjan þriðja leikhluta).
Keflvíkingar mættu hreinlega ekki til leiks. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 15-25. Þó sú staða sé í raun og verunni langt frá því að vera óyfirstíganleg. Þá, miðað við þá leikhluta sem fylgdu, hefði það ekki skipt svo miklu máli endilega hvort KR væru að spila góðan leik eða ekki. Keflavík hreinlega gerði enga atlögu að yfirgangi gestana í Sláturhúsinu í kvöld. Því fór sem fór, KR hægt og bítandi juku við forskot sitt (30 stig þegar mest var), þangað til báðir þjálfarar gerðu með sér þegjandi samkomulag um að komist hefði verið að niðurstöðu.
Það er greinilegt eftir þennan leik að Keflavík þarf á einhversskonar hópefli eða auka æfingu að halda ef að þeir ætla sér að eiga þess nokkurn kost á að halda í við bestu lið þessarar deildar. Vissulega voru 8 af þeim 12 leikmönnum þeirra sem á skýrslu voru í kvöld ekki með þeim í fyrra og má vera að þetta þurfi einfaldlega að gerast með tímanum hjá þeim.
Hinsvegar er erfitt að sjá fyrir sér að jafn lítil barátta og samstarfsvilji (helst þá í sókninni), líkt og þeir sýndu í kvöld, eigi eftir að skila þeim nokkru öðru en þökkum fyrir þátttöku að móti loknu í vor. Það er ekki eitthvað sem stuðningsmenn liðsins eiga nokkurntíman eftir að samþykkja.
Punktar:
- Keflavík er 2/2 (af leikjum sínum) með leikstjórnandanum Arnari Frey Jónssyni, en eru 2/0 án hans (er frá vegna veikinda).
- KR skutu 71% af vítalínunni á móti 45% hjá Keflavík.
- KR tapaði 8 boltum á móti 14 hjá Keflavík.
- KR voru með 110 í heildarframlag á móti 58 hjá Keflavík.
- KR fengu 18 villur á sig á móti 23 hjá Keflavík.
- Damon Johnson, leikmaður Keflavíkur var 3/11 (27%) af vellinum og 3/11 (27%) af vítalínunni.
- Keflavík var 4/25 úr þriggja stiga skotum.
Stjarna Keflavíkur síðastliðin tímabil, Michael Craion, átti flottan leik fyrir KR í kvöld með 27 stig og 16 fráköst á þeim 28 mínútum sem að hann spilaði, einnig spilaði Pavel Ermolinskij fínan leik með 11 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.
Hjá Keflavík átti William Graves ágætan dag, með 23 stig og 7 fráköst.
Umfjöllun og myndir/ Davíð Eldur
Pavel Ermolinskij
Brynjar Þór Björnsson
Guðmundur Jónsson



