Keflvíkingar reyndust sterkari á lokasprettinum gegn grönnum sínum úr Njarðvík í kvöld þegar þeir grænklæddu komu í heimsókn í fyrsta leik þessara liða í fjögurraliða úrslitum. 89:78 var lokastaða leiksins eftir að leikurinn hafði verið í járnum meira og minna allan tímann.
Eftirvæntingin í Reykjanesbæ var greinilega mikil því rúmlega 20 mínútum fyrir leik var Toyotahöll þeirra Keflvíkinga þegar farin að fyllast af stuðningsmönnum beggja liða. Keflvíkingar voru heldur ekkert að spara það heldur splæstu í líka þessa fína ljósasýningu í kynningu á liði sínu fyrir leik.
En þá var komið að því sem allir biðu eftir og til að byrja með voru bæði lið smá tíma að finna sig á vellinum. Lítill munur var en frumkvæðið var hjá Keflvíkingum og leiddu þeir með 4 stigum eftir fyrsta fjórðung. Í öðrum fjórðung komust Njarðvíkingar í fyrsta skiptið yfir þegar Nick Bradford skoraði í 2 vítum eftir að Jón Norðdal braut á honum óíþróttamannslega. Nick fylgdi þessu svo eftir með öðrum stolnum bolta og troðslu. Keflvíkingar tóku leikhlé í kjölfarið og voru fljótir að laga stöðuna þeim í vil. Bæði lið voru á þessum mínútum að sýna gríðarlega baráttu og leikmenn duglegir að skutla sér á eftir boltanum í þeirri von um að það yrði hugsanlega boltinn sem myndi bjarga leiknum. Nick Bradford hélt áfram að láta af sér kveða og var komin með 15 stig þegar 4 mínútur voru til hálfleiks en öllu mikilvægari tölfræði hjá honum voru það 4 stolnir boltar sem allir höfðu skilað auðveldum stigum. Áfram hélt baráttan og Magnús Þór Gunnarsson lokaði hálfleiknum með frábæru skoti á síðustu sekúndu og staðan 44:42. Úr stúkunni mátti svo heyra “Halelúja, einvígið er komið aftur” og átti þar væntanlega við að í þetta skiptið var ekki annað liðið með 20 stiga forystu.
Slagsmálin héldu áfram í seinni hálfleik og í þetta skiptið voru það gestirnir úr Njarðvík sem virtust koma tilbúnari til leiks. Þeir hafa reyndar sýnt það í síðustu 2 leikjum gegn Stjörnunni á útivelli að þriðji fjórðungur er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Eftir þriðja fjórðung var staðan 61:65 gestina í vil og allt stefndi í hörku loka fjórðung.
Keflvíkingar hófu síðasta fjórðung með látum og skoruðu fyrstu 5 stigin og í kjölfarið 11-2 run. Staðan þegar 8 mínútur til leiksloka var 72:67 heimamenn í vil. Draelon Burns sjóðhitnaði í byrjun fjórðungsins og skoraði á aðeins þremur mínútum 10 stig. Njarðvíkingar voru hinsvegar aldrei langt undan og þessi 2 til 4 stig var munurinn á liðunum. Þegar um 1 og half mínúta voru eftir skoraaði Hörður Axel mikilvæga körfu eftir stolin bolta og kom Keflavík í 80:75. Njarðvíkingar fóru í sókn en hún rann út í sandinn. Hörður Axel fær svo tvö víti hinumegin á vellinum en nær aðeins að setja annað niður. 6 stiga forysta Keflavíkinga þegar um 1 mínúta er til leiksloka. Títt nefndur Hörður var svo hinumegin á vellinum Keflvíkingum mikilvægur því hann náði að stela boltanum aftur og í kjölfarið var fljótlega brotið á honum. Honum brást ekki bogalistin og setti bæði niður og 8 stiga munur orðin á liðunum 83:75 þegar 45 sekúndur voru til leiksloka. Þessi munur var Njarðvíkingum of mikill og kláruðu heimamenn dæmið með 11 stiga sigri sem þó gefur ekki rétta mynd á leiknum í heildina. Frábær leikur milli frábærra liða og verður ekkert annað en skemmtun að fylgjast með þessari rimmu á næstu dögum.
Keflavík-Njarðvík 89-78 (22-20, 22-22, 17-23, 28-13)
Keflavík: Draelon Burns 26/5 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 21/7 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Gunnar Einarsson 15, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 11/9 fráköst, Uruele Igbavboa 10/7 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Jón Nordal Hafsteinsson 2, Sverrir Þór Sverrisson 2
Njarðvík: Nick Bradford 27/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 15/8 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 11/7 fráköst, Guðmundur Jónsson 8, Friðrik E. Stefánsson 5/8 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 4, Páll Kristinsson 4/6 fráköst, Kristján Rúnar Sigurðsson 2, Egill Jónasson 2
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson



