spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar stálu heimavellinum af Tindastól

Keflvíkingar stálu heimavellinum af Tindastól

 

Keflavík sigraði Tindastól í Síkinu, 110-102, eftir tvíframlengdan leik í fyrsta leik 8 liða úrslita Dominos deildar karla. Keflavík tekur því forystuna í einvíginu, 1-0, en næsti leikur í TM Höllinni komandi sunnudag kl. 19:15.

 

 

Vígið

Heimavöllur Tindastóls, Síkið á Sauðárkróki, hefur verið vígi fyrir flest lið síðastliðin ár. Þó líklegast erfiðast fyrir Keflavík sem fyrir leikinn í kvöld höfðu ekki unnið leik þar síðan árið 2013. Ljóst fyrir Keflvíkinga, að ætluðu sér þeir áfram úr þessari seríu og í undanúrslitin, þyrftu þeir að taka einn leik fyrir norðan. Sigur þeirra í kvöld því gríðarlega mikilvægur, en deginum ljósara að þetta Tindastóls lið mætir dýrvitlaust til Keflavíkur komandi sunnudag til þess að freista þess að ná þessum heimavelli sínum aftur.

 

Sakna Caird

Tindastóll saknar framherja síns, Chris Caird, mikið. Caird hefur ekkert spilað með liðinu síðan að hann meiddist í lok janúar. Fyrir það var hann að skila 19 stigum, 5 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik. Ekki er ljóst hversu mikið, ef eitthvað, Caird nær að vera með í þessari seríu, en ljóst að þeir sakna hans gríðarlega.

 

 

Kjarninn

Leikur kvöldsins fór fjörlega af stað. Keflavík þó skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum sem endar 15-20. Leikmaður Keflavíkur, Magnús Már Traustason, fór á kostum í þessum fyrsta leikhluta. Skoraði helming stiga sinna manna á þessum upphafsmínútum. Í öðrum leikhlutanum skiptust liðin á áhlaupum. Keflavík byrjaði betur og kom muninum mest í 13 stig, 15-28, áður en að heimamenn taka við sér. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 36-42, Keflavík í vil.

 

Bestu leikmenn vallarins í fyrri hálfleik voru, fyrir Keflavík, Hörður Axel Vilhjálmsson, með 11 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Fyrir heimamenn var það Björgvin Hafþór Ríkharðsson sem dróg vagninn með 10 stigum, 1 frákasti og 4 stoðsendingum.

 

Í þriðja leikhlutanum taka heimamenn við sér. Þegar um 4 mínútur eru eftir ná þeir að jafna leikinn, 47-47, og í framhaldinu komast yfir. Fyrir lokaleikhlutann leiðir Tindastóll 59-56. 

 

Í fjórða lokaleikhlutanum ná gestirnir aftur að komast aðeins frammúr, 9 stigum þegar mest lét. Heimamenn ná þá aftur að jafna leikinn og eftir æsispennandi lokamínútur, tryggja sér framlengingu, 83-83.

 

Í fyrri framlengingunni er það svo Tindastóll sem er skrefinu á undan. Með 2 góðum vítum frá Magnúsi Már Traustasyni þegar um 7 sekúndur voru eftir ná gestirnir þó að jafna leikinn aftur, 96-96 og tryggja framlengingu númer tvö.

 

Þáttaskil

Þegar svoa langt er liðið á leikinn voru margir leikmenn beggja liða komnir í villuvandræði. Í upphafi annarrar framlengingarinnar fær stjörnuleikmaður Tindastóls, Antonio Hester, sína fimmtu villu. Hester hafði verið drjúgur fyrir heimamenn fram að því í leiknum, skorað 30 stig og tekið 12 fráköst. Í framhaldinu, undir forystu tíðrædds Magnúsar Traustasonar og Guðmunds Jónssonar sigla Keflvíkingar svo nokkuð öruggum 110-102 sigri í höfn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík setti 28 af 30 vítum sínum í leik kvöldsins á móti aðeins 29 af 40 hjá heimamönnum. Þá voru það helst Amin Stevens og Magnús Már sem að voru að gera vel. Amin 11 af 11 og Magnús 8 af 8.

 

Sú vörn

Varnarleikur Reggie Dupree á Pétur Rúnar Birgisson í leiknum var hreint frábær. Vissulega náði Pétur að setja 26 stig í leik kvöldsins, en Reggie sá til þess að Pétur þyrfti að gera það úr 8/23 skotum sem og kom hann alveg í veg fyrir að hann næði að sinna leikstjórnandahlutverki sínu í leiknum.

 

Hetjan

Þetta var leikur Magnúsar Márs Traustasonar. Þvílíkt kvöld sem hann átti. Skoraði 33 stig, þar sem hann var 8/8 í vítum og 5/7 fyrir utan þriggja stiga línuna. Við það bætti hann svo 4 fráköstum og stolnum bolta, en Magnús spilaði 45 mínútur í leiknum.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn 

 

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir, viðtöl / Hjalti Árna

 

Viðtöl:

 

Fréttir
- Auglýsing -