spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKeflvíkingar sluppu með skrekkinn í fyrsta leik gegn Stólunum

Keflvíkingar sluppu með skrekkinn í fyrsta leik gegn Stólunum

Keflavík lagði Tindastól í kvöld í fyrsta leik átta liða einvígs liðanna, 79-71. Keflavík því komið með yfirhöndina, 1-0, en það lið sem vinnur fyrst þrjá leiki kemst áfram í undanúrslitin.

Fyrir leik

Liðin höfðu í tvígang mæst áður í vetur. Keflavík hafði haft sigur í báðum leikjunum. Þeim fyrri með 26 stigum í byrjun febrúar, en þeim seinni í Síkinu nú í byrjun maí með 15 stigum.

Gangur leiks

Leikurinn var í járnum á upphafsmínútunum. Stólarnir hænuskrefi á undan lungann úr fyrsta leikhlutanum. Missa það þó niður undir lokin, 22-22 eftir fyrsta. Í upphafi annars leikhluta hótuðu Keflavík því að læsa klónum í gestunum. Með góðum fimm mínútna kafla komast þeir sex stigum yfir, 35-29. Undir lok leikhlutans gera Stólarnir þó vel í að missa þá ekki of langt frá sér, staðan 38-31 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera Stólarnir atlögu að forystu heimamanna, koma henni minnst niður í 2 stig í stöðunni 45-43. Keflvíkingar ná þó að hanga á forystunni út þriðja leikhlutann sem endar 57-54. Lengi framan af lokaleikhlutanum hanga Stólarnir svo í heimamönnum. Rétt eftir miðbygg hans ganga Keflvíkingar svo frá leiknum, undir sterkri forystu Harðar Axels og Dominykas Milka sigla þeir nokkuð öruggum 8 stiga sigur í höfn, 79-71.

Lok, lok og læs

Varnarleikur Keflavíkur á bakvörð Tindastóls, Nikolas Tomsick, var hreint út sagt stórkostlegur í leiknum. Leikmaður sem skilar að meðaltali í vetur 22 stigum og 7 stoðsendingum skorar aðeins 5 stig í þessum leik og gefur aðeins 3 stoðsendingar. Af vellinum setur hann ekkert skot í fjórtán tilraunum. Líklega eitthvað sem verður erfitt fyrir Keflavík að viðhalda út einvígið, engann skyldi undra ef Tomisck mætir brjálaður til annars leiks.

Kjarninn

Stólarnir komu virkilega sterkir inn í leik kvöldsins og náðu að halda út í 35 mínútur. Með smá lukku hefðu þeir vel geta stolið þessum fyrsta leik. Þeir að sjálfsögðu tapa leiknum og fá nákvæmlega ekkert fyrir að hanga í deildarmeisturunum þetta lengi, en ef eitthvað, þá veit þessi frammistaða þeirra á gott fyrir komandi leiki í þessu einvígi.

Að sama skapi má segja að Keflavík hafi verið sterkir þegar það virkilega þurfti. Settu stóru skotin í restina og komu í veg fyrir að lokamínúturnar yrði spennandi. Þeir leiddu mest allan leikinn, en munurinn var aldrei þannig að þeir væru eitthvað of góðir til að tapa honum.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík tapar aðeins 5 boltum í öllum leiknum á móti 12 töpuðum boltum hjá Tindastól.

Atkvæðamestir

Dominykas Milka var besti leikmaður vallarins í kvöld, skilaði 33 stigum og 8 fráköstum. Fyrir Tindastól var það Flenard Whitfield sem dró vagninn með 23 stigum og 14 fráköstum.

Hvað svo?

Annar leikur liðanna er komandi þriðjudag 18. maí kl. 18:15 í Síkinu á Sauðárkróki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -