spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKeflvíkingar sigruðu í tvíframlengdum naglbít í Forsetahöllinni

Keflvíkingar sigruðu í tvíframlengdum naglbít í Forsetahöllinni

Keflavík lagði Álftanes í tvíframlengdum leik í kvöld í Forsetahöllinni, 109-114. Eftir leikinn er Keflavík í 2.-5. sæti deildarinnar með 24 stig líkt og Njarðvík, Grindavík og Þór. Álftnesingar eru hinsvegar í 6. sætinu með 20 stig.

Stóra pósta vantaði í bæði lið leiksins í kvöld. Álftnesingar voru enn án Hauks Helga Pálssonar og þá var Remy Martin frá hjá Keflavík.

Heimamenn í Álftanesi höfðu ágætis tök á leiknum á upphafsmínútunum og leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 28-21. Þeir bæta svo lítillega við það undir lok fyrri hálfleiksins og eru með 10 stiga forskot þegar liðin halda til búningsherbergja, 54-44.

Það var lítið sem benti til þess að Keflavík ætlaði sér að gera þetta að leik í upphafi seinni hálfleiksins. Eru mest 14 stigum undir í þeim þriðja, en ná aðeins að laga stöðuna undir lok fjórðungsins, 70-67. Í þeim fjórða nær Álftanes áfram að vera skrefinu á undan, en Keflavík er ekki langt frá og undir lok venjulegs leiktíma ná þeir að tryggja sér að leikurinn fari í framlengingu, 87-87.

Í fyrri framlengingu kvöldsins eru Álftnesingar áfram sterkari aðilinn og eru lengst af einni til tveimur körfum á undan, en með stórum körfum frá Halldóri Garðari Hermannssyni, Jaka Brodnik og Urban Oman nær Keflavík að tryggja sér aðra framlengingu, 100-100.

Í seinni framlengingunni er svo komið að Keflavík að leiða. Áfram eru það Urban Oman og Jaka Brodnik sem eru að setja stigin á töfluna fyrir Keflavík og þá er varnarleikur þeirra einnig nokkuð sterkur. Undir lokin nær Keflavík að berja frá sér álitlegar tilraunir Álftnesinga til að vinna leikinn og vinna að lokum með 5 stigum, 109-114.

Atkvæðamestir fyrir Keflavík í leiknum voru Jaka Brodnik með 25 stig, 7 fráköst og Halldór Garðar Hermannsson með 22 stig og 4 stoðsendingar. Fyrir Álftanes var það Ville Tahvanainen sem dró vagninn með 22 stigum og 9 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -