spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar sendu Tindastól í sumarfrí

Keflvíkingar sendu Tindastól í sumarfrí

 

Keflavík sigraði Tindastól, 83-73, í 4. leik 8 liða úrslitaeinvígis liðanna. Fyrir leikinn leiddi Keflavík einvígið með 2 sigrum gegn 1. Með sigrinum slógu þeir Tindastól því úr keppni þetta árið. Keflavík mætir næst KR í undanúrslitaeinvígi.

 

Stemmingin

Þvílík og önnur eins stemming sem var í TM Höllinni í Keflavík í kvöld. Ekki bara mættu stuðningmenn Keflavíkur, heldu var þar einnig mættur fjöldinn allur af stuðningsmönnum Tindastóls líka. Báðir hópar létu vel í sér heyra. Stuðningmenn Keflavíkur voru á fullu frá því það voru 30 mínútur í leik, alla leið, þangað til 20 mínútur eftir að honum lauk. 

 

 

Fyrir leik

Keflavík leiddi að sjálfsögðu 2-1 í einvíginu og því kjörið tækifæri fyrir þá að klára þetta í kvöld og komast hjá því að þurfa að keyra norður í Síkið sem er einn besti heimavöllur landsins. Mikið verið rætt og ritað um þennan síðasta leik í einvíginu, sem að Tindastóll gjörsigraði í fyrri hálfleik. Spurningin hvort að Stólarnir væru komnir með lykilinn að Keflavík, eftir tvo dapra leiki þar á undan.

 

Gangur leiks

Keflavík byrjaði leik kvöldsins mun betur. Ljóst var á þessum fyrstu mínútum að vandamál þeirra í síðasta leik höfðu þeir flest skilið eftir í Skagafirðinum. Voru 7 stigum yfir, 17-10 þegar að leikhlutinn var hálfnaður. Tindastóll gerði þó vel í að hleypa Keflavík ekki langt frá sér á þessum upphafsmínútum, en þagar að fyrsti leikhluti var á enda, voru þeir aðeins 3 stigum frá heimamönnum, 25-22.

 

Annar leikhlutin er svo jafn og spennandi. Þegar hann var um það bil hálfnaður er Keflavík 2 stigum yfir, 33-31. Þegar að liðin halda svo til búningsherbergja í hálfleik er sá munur 3 stig, 44-41. Það voru ungu leikmenn beggja liða sem voru atkvæðamestir í þessum fyrri hálfleik. Fyrir heimamenn var það Magnús Már Traustason með 16 stig og 3 fráköst, en fyrir gestina Viðar Ágústsson með 15 stig og 3 fráköst.

 

 

Í þriðja leikhlutanum heldur eltingaleikur liðanna svo áfram, Keflavík með forystuna, en Tindastóll alls ekki langt undan. Þegar að hlutinn er hálfnaður leiðir Keflavík með 5 stigum, 52-47. Undir lok leikhlutans ná þeir svo að slíta sig aðeins frá gestunum, en hlutinn endar með 9 stiga forystu heimamanna, 63-54.

 

Í byrjun fjórða leikhlutans lætur Keflavík svo kné fylgja kviði. Koma muninum í 14 stig um miðjan leikhlutann, 75-61. Svo undir lok leiks hægja þeir verulega á leiknum og sigla að lokum öruggum 10 stiga sigri í höfn, 83-73.

 

Þáttaskil

Þegar að fjórði leikhlutinn hefst eru heimamenn með 9 stiga forskot, 63-54. Þá fær leikmaður Tindastóls, Björgvin Hafþór Ríkharðsson slæma byltu, að sögn sjúkraþjálfara liðsins, líklega vægan heilahristing og tekur ekki frekari þátt í leiknum. Á sama tíma fær Pétur Rúnar Birgisson sína 4. villu. Þessi tvö atriði virtust vega ansi þungt fyrir Tindastól, því í kjölfarið misstu þeir Keflavík mest 14 stigum frammúr sér. Keflavík sýndi svo alla þá reynslu sem býr í liðinu það sem eftir lifði af leik. Stigu varla feilspor. Uppskáru að lokum sigur og miða í undanúrslitin.

 

Fáir menn?

Þegar að 6 leikmenn liðs Keflavíkur geta klárað seríu við jafn gott lið og Tindastóll sannarlega er, verður maður einfaldlega að hrósa því formi sem leikmenn liðsins eru í. Vissulega mátti sjá þreytumerki á leikmönnum liðsins undir lok þessa leiks, en ekkert sem ekki gæti talist eðlilegt. Til þess að taka einn út fyrir. Þá ætlum við hér með að efast að nokkur íþróttamaður á Íslandi sé í betra formi þessa dagana heldur en leikmaður Keflavíkur, Reggie Dupree. Spilaði fantavörn í leiknum, líkt og venjulega, en það sem meira er, undir lok leiksins leit kappinn út fyrir að vera rétt að byrja sóknarlega.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík vildi vinna þennan leik meira heldur en Tindastóll. Þeirri fullyrðingu til stuðnings er hægt að benda á hversu mörg fráköst liðin tóku. Keflavík hrifsaði 50 til sín í leik kvöldsins á móti aðeins 33 hjá Tindastól.

 

Varnarliðið Keflavík

Ef litið er á einvígið í heild, þá heimtaði vörn Keflavíkur það að Tindastóll tæki fullt af þriggja stiga skotum. Munurinn á síðasta leik (sem að Tindastóll vann) og þessum í kvöld (eða þeim sem Keflavík vann) var mikið til hvernig Tindastóll nýtti þessi skot. Í leik kvöldsins, þegar að Keflavík er að byrja að byggja upp forskot sitt, þá er það varnarmegin sem að það gerist hjá þeim. Í nokkur skipti í þriðja leikhlutanum bæði rennur skotklukka Tindastóls út eða þeir taka eitthvað neyðarskot þegar að hún er að renna út.

 

 

Hetjan

Líkt og í fyrsta leik liðanna kom hetja leiksins úr óvæntri átt. Þetta mun þó vera í síðasta skipti sem hægt er að segja sem svo, því eftir þennan leik í kvöld fara áhorfendur væntanlega að gera ráð fyrir því að leikmaður Keflavíkur, Magnús Már Traustason, skili því framlagi sem þarf þegar að liðið hans kallar eftir því. Á 38 mínútum spiluðum í leik kvöldsins skoraði Magnús 27 stig (70% skotnýting) og tók 5 fráköst.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -