Keflvíkingar eru komnir í úrslit Iceland Express deildar karla eftir 3-1 sigur á Njarðvík í undanúrslitum. Liðin mættust í sínum fjórða leik í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem Keflvíkingar fóru með 83-89 sigur af hólmi. Draelon Burns gerði 21 stig í leiknum fyrir Keflavík og tók 6 fráköst en hann smellti niður dýrasta þrist kvöldsins þegar 19 sekúndur voru til leiksloka og breytti stöðunin í 80-85 Keflavík í vil, það reyndist síðasta hálmstráið og Njarðvík komst ekki nærri. Nick Bradford gerði 20 stig í liði Njarðvíkinga, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Byrjunarlið Keflavíkur gerði 84 stig af 89 stigum Keflavíkur í leiknum í kvöld þar sem fimm leikmenn voru með 11 stig eða meira. Mögnuð stemmning var í húsinu allan leikinn og fá stuðningsmenn beggja liða stóran plús í kladdann fyrir vikið.
Ströng lína var lögð í dómgæslunni í kvöld sem skilaði 17 villum í fyrsta leikhluta. Páll Kristinsson mætti þó klár í slaginn og lét vel til sín taka fyrir Njarðvíkinga í upphafi leiks. Hörður Axel Vilhjálmsson sleit Keflvíkinga frá með tveimur þristum og staðan 11-20. Njarðvíkingar klóruðu sig nær með tveimur þristum frá Jóhanni Árna og Magnúsi Þór en gestirnir leiddu 24-26 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
Í upphafi annars leikhluta sóttu Keflvíkingar stíft á Njarðvíkurkörfuna, keyrðu vel inn í teiginn og spiluðu Njarðvíkurvörnina oft upp á gátt. Gestirnir byrjuðu leikhlutann 2-9 og léku villulaust í heilar sex mínútur, nokkuð fráburgðið því sem var að gerast í fyrsta leikhluta. Villuæðið rann þó hægt og sígandi af báðum liðum þegar lengra leið á leikinn.
Jóhann Árni Ólafsson átti fína rispu fyrir heimamenn undir lok annars leikhluta en Keflvíkingar gerðu síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddu 39-47 í hálfleiknum. Páll Kristinsson og Jóhann Árni Ólafsson voru báðir með 7 stig hjá Njarðvík í hálfleik en hjá Keflavík var Draelon Burns með 13 stig og Urule Iagbova með 12.
Draelon Burns smellti niður fimm stigum í röð fyrir Keflavík í upphafi síðari hálfleiks og breytti stöðunni í 45-56. Keflvíkingar komust svo í 48-62 áður en heimamenn rönkuðu við sér. Njarðvíkingar skelltu sér í svæðisvörn og skoruðu á stuttum kafla 11 stig gegn 2 frá Keflavík en Gunnar Einarsson hélt heimamönnum fyrir aftan Keflavíkurliðið með ,,reynsluþrist“ þegar 40 sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Keflavík leiddi 63-69 fyrir lokasprettinn sem var síðan æsispennandi.
Fjórði leikhluti var hnífjafn, hann fór 20-20 en var í fullkomnu samhengi við leikinn. Keflvíkingar voru í bílstjórasætinu en Njarðvíkingar að elta. Friðrik Erlendur Stefánsson náði að minnka muninn í 78-80 en nær komust heimamenn ekki. Urule skoraði næst fyrir Keflavík úr tveimur vítaskotum og staðan 78-82 en Urule átti góðan dag með Keflavík með 20 stig og 6 fráköst.
Þegar 19 sekúndur voru til leiksloka var staðan 80-82 fyrir Keflavík þegar Draelon Burns fékk boltann óvaldaður fyrir utan þriggja stiga línuna og ekkert nema net hjá þessum magnaða leikmanni. Staðan orðin 80-85 fyrir Keflavík og á brattann að sækja hjá heimamönnum. Svo fór að lokatölur urðu 83-89 Keflavík í vil sem unnu því einvígið 3-1.
Einhver bið verður því á að Njarðvíkingar vinni sinn fyrsta leik í úrslitakeppninni á heimavelli en það hefur grænum ekki tekist síðan árið 2007. Keflvíkingar halda nú inn í lokaúrslit úrvalsdeildar í fimmta sinn síðan árið 2000.
Njarðvík: Nick Bradford 20/6 fráköst/7 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 17, Jóhann Árni Ólafsson 11, Egill Jónasson 7, Rúnar Ingi Erlingsson 7, Páll Kristinsson 7/7 fráköst, Friðrik E. Stefánsson 7/8 fráköst, Kristján Rúnar Sigurðsson 3, Guðmundur Jónsson 2/6 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 2.
Keflavík: Draelon Burns 21/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 20/5 stoðsendingar, Uruele Igbavboa 20/6 fráköst, Gunnar Einarsson 12/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 11/14 fráköst, Sverrir Þór Sverrisson 3, Jón Nordal Hafsteinsson 2/5 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Davíð Þór Jónsson 0, Alfreð Elíasson 0, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 0.
_______________________________________________________________________
Byrjunarliðin:
Njarðvík: Guðmundur Jónsson, Magnús Þór Gunnarsson, Nick Bradford, Páll Kristinsson og Friðrik Erlendur Stefánsson.
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Draelon Burns, Uruele Iagbova og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Dómarar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Einar Þór Skarphéðinsson
Ljósmynd/ Draelon Burns hafði ríka ástæðu til þess að brosa í kvöld en hann gerði út um leikinn þegar 19 sekúndur voru til leiksloka.



