spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaKeflvíkingar rústuðu Njarðvík í síðasta leik sínum í Ljónagryfjunni

Keflvíkingar rústuðu Njarðvík í síðasta leik sínum í Ljónagryfjunni

Keflavík lagði Njarðvík í kvöld í Ljónagryfjunni í lokaleik 10. umferðar Subway deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar á innbyrðisstöðu gegn Njarðvík, Álftanesi, Val og Þór.

Fyrir leik

Báðum liðum hafði gengið nokkuð vel það sem af var deildarkeppni. Njarðvíkingar einir í efsta sæti deildarinnar fyrir umferðina á meðan að Keflavík var sigurleik fyrir aftan í öðru sæti deildarinnar. Það var því ljóst að það lið sem myndi vinna þennan leik yrði í efsta sætinu eftir hann.

Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst á tímabilinu, en það var í VÍS bikarkeppninni. Þar tókst Keflavík að slá Njarðvík út í Ljónagryfjunni í einum af betri leikjum vetrarins.

Síðasta skiptið

Í kvöld gæti hafa verið um síðustu grannaglímu liðanna að ræða á heimavelli Njarðvíkur í Ljónagryfjunni, en liðið mun samkvæmt heimildum mögulega flytja sig í nýtt og glæsilegt íþróttahús að þessu tímabili loknu.

Gangur leiks

Heimamenn í Njarðvík höfðu ágætis tök á leiknum í upphafi og virtist fyrrum leikmaður Keflavíkur Dominykas Milka ætla selja sig dýrt fyrir sigur í kvöld. Að þeim fyrsta lokum leiðir Njarðvík með tveimur stigum, 19-17, þar sem sóknarleikur beggja liða virtist þó nokkuð stirður. Í öðrum fjórðung var hinsvegar komið að leikmanni Keflavíkur Remy Martin að taka yfir og setti hann stig á töfluna í öllum regnbogans litum. Keflvíkingar ná að skapa sér smá forystu undir lok hálfleiksins, en þegar til búningsherbergja er haldið er staðan 40-51.

Remy Martin var gjörsamlega óstöðvandi í fyrri hálfleiknum með 23 stig, 80% skotnýtingu á meðan að Mario Matasovic var kominn með 11 stig og 6 fráköst fyrir heimamenn.

Keflvíkingar ná svo að láta kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins, Heimamönnum í Njarðvík virðist fyrirmunað að setja boltann í körfuna á löngum köflum og þá er varnarleikur þeirra lélegur í besta falli. Ekki mikið benti til þess að Njarðvík næðu að gera þetta að leik, munurinn 23 stig fyrir lokaleikhlutann, 55-78. Sá fjórði var svo aldrei spennandi og ekki áhugaverður fyrir neinar sakir. Keflavík lokar þessu gífurlega örugglega, 82-103.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Keflavíkur í kvöld var Remy Martin, en hann skilaði 33 stigum og 6 fráköstum. Fyrir Njarðvík var Mario Matasovic skástur með 20 stig og 9 fráköst.

Kjarninn

Eftir síðasta leik liðanna í bikarnum mátti búast við heldur jafnari leik í kvöld. Það var svo alls ekki raunin. Keflvíkingar einfaldlega mikið betri á öllum sviðum og uppskáru samkvæmt því, sigur í síðustu grannaglímunni í Ljónagryfjunni og efsta sæti Subway deildarinnar.

Hvað svo?

Njarðvík á næst deildarleik komandi fimmtudag 14. desember gegn Val í Origo höllinni, Keflavík er hinsvegar enn með í VÍS bikarnum og leika í 16 liða úrslitum hans komandi mánudag 11. desember gegn heimamönnum á Selfossi.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -