Keflavík lagði granna sína í Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld nokkuð sannfærandi, 85-97, þar sem Khalil Ahmad fór fyrir liði gestanna. Þar með hafa Keflvíkingar sigrað Njarðvík þrisvar sinnum í vetur og styrkja stöðu sína við toppinn þar sem þeir anda ofan í hálsmálið á Stjörnunni. Njarðvíkingar hafa tapað tveimur leikjum í röð og þurfa að spýta í lófana í baráttunni um heimavallarrétt í úrslitakeppninni.
Það var tilfinningaþrungin stund fyrir leik í Ljónagryfjunni þegar minningin um hinn góða dreng, Örlyg Aron Sturluson, var í hávegum höfð fyrir smekkfullu húsi eins og venjan er þegar þessi lið mætast. 20 ár eru síðan þessi frábæri leikmaður kvaddi þennan heim og viðeigandi að jafn stór leikur og nágrannaslagurinn um Reykjanesbæ lendi á þessum degi. Coca Cola á Íslandi fjárfesti í síðustu keppnistreyju Örlygs sem hann spilaði í fyrir léttar 500 þúsund krónur, heil milljón safnaðist í miðasölu til styrktar minningarsjóði Ölla og þá var Logi Gunnarsson heiðraður fyrir að hafa spilað 300 leiki fyrir UMFN. Frábær kvöldstund fyrir UMFN og körfuboltafjölskylduna.
Gammaflug Njarðvíkinga í deildinni var stöðvað í Skagafirðinum í síðasta leik eftir 7 leikja sigurgöngu á meðan Keflvíkingar lönduðu öruggum sigri gegn Grindavík og héldu sínu striki við toppinn. Liðin mættust bæði í deild og bikar fyrir áramót þar sem Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi í bæði skiptin. Það hefur því ekki þurft mörg hvatningarorð til að gíra menn upp í Njarðvíkinni fyrir leik kvöldsins. Mikið í húfi og stemmningin eins og hún verður best í íslenskum körfubolta.
Byrjunarlið Njarðvíkinga: Mario Matasovic – Chaz Williams – Kristinn Pálsson – Maciek Baginski – Aurimas Majauskas
Byrjunarlið Keflvíkinga: Domynikas Milka – Dean Williams – Khalil Ahmad – Hörður Axel – Ágúst Orrason
Gangur leiksins:
Heimamenn komu vel vel stemmdir til leiks með Chaz Williams tætandi og tryllandi upp völlinn með sínum mikla hraða og boltafimi. Vörnin var einbeitt þar sem Matasovic og Majauskas skiptust á að gæta Milka vel sem riðlaði sókn gestanna nokkuð. Khalil Ahmad tók það þá bara á sig að skora fyrstu 17 stig Keflavíkurliðsins sem náði þó betri tökum er leið á fyrsta leikhlutann sem þeir unnu 22-26.
Maciek Baginski var flottur í hálfleiknum og var óhræddur við að keyra á körfuna í byrjun annars leikhluta. Hann setti góðar körfur sem blés öðrum Njarðvíkingum byr í brjóst og fylgdu þeir fordæmi hans. Á meðan var Njarðvíkurvörnin að berjast við að hafa hemil á Khalil sem sótti villur en fékk ekkert ókeypis. Aurimas Majauskas var að leika skínandi vel á báðum endum vallarins fyrir heimamenn en Keflvíkingum til happs voru fleiri farnir að skila í púkkið og gestirnir héldu bílstjórasætinu út hálfleikinn þótt lítið hafi borið á milli. Staðan 46-51 í hálfleik.
Keflvíkingar skiptu í match-up svæðisvörn í byrjun seinni hálfleiks sem lokaði teignum betur fyrir stunguárásum Chaz Williams sem var búinn að vera gestunum erfiður ljár í þúfu fram til þessa. Í kjölfarið komu körfur eftir hraðar sóknir sem ýtti muninum upp í 12 stig, 54-66. Khalil hélt áfram að salla niður körfunum á meðan Njarðvíkingum skorti framlag frá fleiri leikmönnum en Chaz. Staðan 61-73 fyrir síðasta leikhlutann.
Heimamenn tóku 11-5 áhlaup í upphafi síðasta fjórðungs og mómentið reis skyndilega Njarðvíkurmegin eftir rólegan 3. leikhluta. Keflvíkingar létu þó ekki brjóta sig, héldu sínu striki og var leikstjórnin í þeirra höndum til enda leiks. Heimamenn fóru illa með opin skot og holan varð of stór til að gera lokamínúturnar spennandi. Keflvíkingar sigldu mjúkum og sannfærandi sigri í hús, lokatölur 85-97 í skemmtilegum körfuboltaleik.
Tölfræði sem lýgur ekki:
Keflvíkingar voru að hitta mjög vel fyrir utan þriggja stiga línuna og 51% nýting (16/31) er eitthvað sem er mjög erfitt að ráða við, jafnvel þegar nýtingin er ekki slakari en 40% hjá manni sjálfum. Þegar Njarðvíkingar ætluðu sér að ráðast til atlögu á lokasprettinum voru stóru skotin að detta fyrir gestina sem áttu alltaf svar.
Njarðvíkingar tapa þessum leik á sóknarframlagi. Of fáir að leggja hönd á plóg, þá sér í lagi í síðari hálfleik. Aðeins 6 stig af bekknum gegn 25 hjá Keflavík er dýrt miðað við þá breidd sem býr í leikmannahópnum.
Atvikið:
Deane Williams var örlagavaldur þegar hann stöðvaði sniðskot Loga Gunnarssonar í hæstu hæðum í miðju áhlaupi heimamanna sem hefði saxað forskotið niður í 3 stig. Williams snér sér svo við og fór í sókn og þar sem hann setti þriggja stiga körfu af spjaldinu og ofan í. Þessar sekúndur voru dýrmætar fyrir gestina og létti pressuna sem Njarðvík var búið að vinda upp. Eftir þetta voru Njarðvíkinga ekki líklegir til að koma til baka.
Bestir á vellinum:
Khalil Ahmad var illviðráðanlegur fyrir Keflavík. Hann setti 17 fyrstu stig liðsins og endaði með 31 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Sóknarklíník í fyrri hálfleik.
Domynikas Milka endaði leik með 17 stig og 13 fráköst ásamt því að spila fanta vörn. Hann lenti í grimmum Njarðvíkingum sem þjörmuðu að honum í byrjun en stóísk ró og eiginleikinn að láta leikinn koma til sín gerðu það að verkum að Milka óx ásmeginn og skilaði stórum körfum og var afburðamaður sem fyrr.
Hörður Axel Vilhjálmsson setti 11 stig og 12 stoðsendingar auk þess að skila góðri vinnslu og stýra leik liðsins af festu. Sannur leikstjórnandi.
Chaz Williams var besti maður vallarins þótt hann hafi verið í tapliði í kvöld. 36 stig, 11 stoðsendingar og 7 fráköst. Stórkostlegur leikmaður sem hefði þurft ögn meiri hjálp frá liðsfélögum sínum til að landa sigrí í kvöld. Dró Njarðvíkurliðið áfram í síðari hálfleik.
Aurimas Majauskas setti 21 stig og tók 8 fráköst. Spilaði góða vörn á Milka á köflum en dró af honum í síðari hálfleik. Hann á eftir að vera Njarðvíkingum mikilvægur þegar fram líða stundir.
Hvað þýða úrslitin?
Keflavík jafnar Stjörnuna á toppi deildarinnar í bili en þeir síðarnefndu eiga leik til góða annað kvöld. Njarðvík er sem stendur í 4. sætinu, tveimur stigum á undan KR.
Hvað gerist næst?
Keflavík mætir næst Stjörnunni í uppgjöri toppliðana í Keflavík þann 24. janúar á meðan Njarðvíkingar fá Grindvíkinga í heimsókn.
Umfjöllun / Sigurður Friðrik
Viðtöl / Þormóður Logi
Myndir / SBS