spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar mættu ofjörlum sínum

Keflvíkingar mættu ofjörlum sínum

20:24 

{mosimage}

Beygt Keflavíkurliðið var brotið í Sláturhúsinu í dag þegar Snæfell sendi gestgjafa sína í sumarfrí með 14 stiga sigri, 89-103. Sverrir Þór Sverrisson reyndi hvað hann gat til að leiða sína menn til sigurs en Snæfellingar reyndust Keflvíkingum ofviða með þá Hlyn Bæringsson, Sigurð Þorvaldsson og Jón Ólaf Jónsson í broddi fylkingar. Þeir Gunnar Einarsson og Þröstur Leó Jóhannsson sýndu einnig af sér góða baráttu í Keflavíkurliðinu í dag en uppskáru ekki fyrir erfiði sitt. Snæfell er því fyrst liða til að tryggja sig inn í undanúrslitin og ljóst að þeir verða erfiðir viðureignar enda þaulskipulagt lið sem leggur ofuráherslu á varnarleikinn.

 

Varnir liðanna tóku ekki þátt í 1. leikhluta og því skoruðu bæði lið eins og þeim hentaði. Í stöðunni 20-20 áttu Keflvíkingar góða rispu og gerðu 7 stig í röð en Snæfellingar náðu að minnka muninn í 27-24 áður en leikhlutanum lauk.

 

Sverrir Þór Sverrisson fór fyrir Keflvíkingum í dag, hann var að hitta vel fyrir utan og vílaði það ekki fyrir sér að gera harða atlögu að körfu gestanna. Á meðan léku Snæfellingar betur sem ein heild og sáu þeir Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson að mestu um að koma boltanum í netið. Snæfellingar áttu fínan lokasprett í 2. leikhluta og leiddu því 46-50 þegar liðin gengu til hálfleiks en þá hafði Sverrir Þór gert 19 stig í liði Keflavíkur en Hlynur 14 fyrir Snæfell.

 

Framan af þriðja leikhluta var spennan í algleymingi en í stöðunni 59-61 fyrir Snæfell tóku gestirnir góða rispu og breyttu stöðunni í 59-65 og eftir það komust Keflvíkingar aldrei aftur upp að hlið Snæfellinga. Jón Ólafur Jónsson fór hamförum í þriðja leikhluta þar sem hann setti niður tvo mikilvæga þrista sem kveiktu í Snæfellingum. Staðan að loknum 3. leikhluta var 65-79 Snæfell í vil og á brattann að sækja fyrir Keflavík í fjórða leikhluta.

{mosimage}

 

Sama hvað Keflavík reyndi þá komust þeir ekki nægilega nærri Snæfellingum og því urðu lokatölurnar 89-103 Snæfell í vil. Jón N. Hafsteinsson fór meiddur af leikvelli snemma í 1. leikhluta og lék ekki meira með og þá var Bandaríkjamaðurinn Tony Harris ekki með Keflavík í dag en hann hefur átt við meiðsl að stríða og herma fregnir að hann hafi verið rekinn í dag frá Keflavík skömmu fyrir leik.

 

Keflvíkingar voru ekki að leika illa í dag en þeir mættu einfaldlega ofjörlum sínum. Gaman var þó að sjá til Þrastar Leós Jóhannssonar og gaf hann körfuknattleiksunnendum smá sýn í það sem koma skal en ef áfram heldur sem horfir hjá Þresti þá verður hann fljótt einn sterkasti leikmaður Keflvíkinga. Sverrir Þór Sverrisson var klárlega einn besti maður vallarins í dag en þremenningarnir Hlynur Bæringsson, Sigurður Þorvaldsson og Jón Ólafur Jónsson áttu skínandi góðan dag fyrir Snæfell og lönduðu góðum sigri og öðrum sigrinum í sögu félagsins í Sláturhúsinu.

 

www.vf.is

 

Fréttir
- Auglýsing -