spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar lögðu Njarðvík örugglega á Sunnubrautinni - Valur deildarmeistari annað árið í...

Keflvíkingar lögðu Njarðvík örugglega á Sunnubrautinni – Valur deildarmeistari annað árið í röð

Keflavík lagði Njarðvík í Blue höllinni í 21. umferð Subway deildar karla, 127-114.

Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar með 30, en vegna innbyrðisstöðu er Keflavík í efra sætinu. Tapið hjá Njarðvík þýðir einnig að liðið hefur nú misst af tækifæri sínu til þess að ná efsta liðinu, Val, og eru þeir því deildarmeistarar annað árið í röð.

Fyrir leik

Liðunum báðum gengið mun betur það sem af er tímabili miðað við hverju var búist við af þeim fyrir það. Njarðvík í 2. sæti deildarinnar, enn með möguleika á deildarmeistaratitil, en Keflaví sæti neðar, einum leik fyrir aftan. Þá hafði Keflavík einnig tryggt sér VÍS bikarmeistaratitilinn síðustu helgi, er liðið lagði Tindastól í úrslitaleik í Laugardalshöllinni.

Í upphitun var aftur mættur fyrir Njarðvík Mario Matasovic, em hann hafði verið frá síðasta mánuðinn vegna meiðsla á ökkla.

Gangur leiks

Njarðvík hefur leikinn á 7-0 áhlaupi, sem heimamenn eru snöggir að svara og eru þeir komnir yfir þegar fyrsti fjórðungur er hálfnaður, 10-9. Leikurinn helst svo í nokkru jafnvægi út leikhlutann þar sem liðin skiptast á snöggum áhlaupum, en Njarðvík er stigi á undan fyrir annan, 28-29. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimamenn svo að vera skrefinu á undan. Fara mest einhverjum 7 stigum yfir í 2. leikhlutanum, en eftir laglegan flautuþrist Maciek Baginski fyrir Njarðvík er munurinn aðeins 3 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 57-54. Mario Matasovic tókst að láta henda sér í sturtu í endurkomunni í lið Njarðvíkur fyrir óíþróttamannslega villu og tæknivillu með skömmu millibili í öðrum leikhlutanum.

Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Sigurður Pétursson með 14 stig á meðan að Dwayne Lautier-Ogunleye var með 16 stig fyrir Njarðvík.

Áfram er Keflavík betri aðilinn inn í seinni hálfleikinn. Njarðvíkingar þó ekki langt undan og er ná þeir á einhvern ótrúlegan hátt að jafna leikinn á lokasekúndum þess þriðja, 87-87. Þar sem fyrst fær Halldór Garðar Hermannsson leikmaður Keflavíkur brottrekstur eftir myndbandsdóm þar sem Dominykas Milka setur tvö víti og þá setur Dwayne Lautier flautuþrist til að loka fjórðungnum.

Keflavík nær góðu áhlaupi í byrjun þess fjórða og eru komnir með þægilega 11 stiga forystu þegar fjórðungurinn er um það bil hálfnaður, 104-93. Mikið til var það Remy Martin sem setti upp sýningu á þessum mínútum, en hann skoraði körfur í öllum regnbogans litum og Njarðvík virtist ekki koma neinum vörnum við. Keflvíkingar láta svo kné fylgja kviði á lokamínútunum og sigra að lokum örugglega, 127-114.

Atkvæðamestir

Remy Martin var bestur í liði Keflavíkur í kvöld með 35 stig og 8 stoðsendingar. Fyrir Njarðvík var Dwayne Lautier-Ogunleye atkvæðamestur með 33 stig og 4 fráköst.

Hvað svo?

Lokaumferð deildarinnar fer fram eftir páska, fimmtudag 4. apríl, en þá mætir Keflavík liði Þórs og Njarðvík og Valur eigast við.

Tölfræði leiks

 

Fréttir
- Auglýsing -