spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar halda lífi í deildarameistaravonum - Þórsarar í bullandi fallhættu fyrir...

Keflvíkingar halda lífi í deildarameistaravonum – Þórsarar í bullandi fallhættu fyrir lokaumferðina

Keflvíkingar héldu lífi í deildarmeistaradraumum sínum með öruggum sigri á Þórsurum frá Þorlákshöfn í Blue höllinni í kvöld. Um leið varð fallbaráttan á milli Þórsara og nafna þeirra frá Akureyri jafn raunveruleg og súrefni þar sem 2 stig skilja þau að fyrir lokaumferðina og Norðanmenn með innbyrðisúrslit á Suðurlands-Þórsara.

Það var færra en venjulega um að litast á áhorfendapöllunum í ljósi frétta síðustu daga en þó góðmennt að venju í Blue höllinni og allir helstu mættir á pallana. Bæði lið höfðu að miklu að keppa fyrir leik kvöldsins. Þórsarar í bullandi fallbaráttu og Keflvíkingar ennþá í tölfræðilegum möguleika á deildarmeistaratitlinum.

Byrjunarlið Keflavíkur:

 Khalil Ahmad – Deane Williams – Dominykas Milka – Hörður Axel – Callum Lawson

Byrjunarlið Þórs:

Emil Karel – Halldór Garðar – Marko Bakovic – Jerome Frink – Sebastian Mignani

Gangur leiksins:

Það var ekki hátt risið á leiknum í 1. leikhluta ef undanskilin er vindmyllutroðsla Khalil Ahmad í blábyrjun. Glæsileg tilþrif og ekki það síðsta markverða sem téður Ahmad myndi taka uppá í þessum leik. Keflvíkingar sóttu mikið af stigum inn í teig með Milka erfiðan viðureignar og bjuggu til mest 9 stiga forystu fyrstu 8 mínúturnar. Þórsarar náðu góðu áhlaupi í lok leikhlutans og náðu muninum niður í 2 stig, 18-16. Var það ekki síst fyrir tilstilli góðrar innkomu Styrmis Þrastarsonar af Þórsbekknum.

Jafnræði var með liðunum fyrstu 5 mínúturnar í öðrum leikhluta. Vörn Þórsara þéttist betur og hélt nokkuð vel inni í teig. Gestirnir voru að fá dýrmæt stig af bekknum frá þeim Ragnari, Davíð og Styrmi sem létti pressuna af lykilmönnum sem fundu sig illa sóknarlega . Keflvíkingar náðu að búa til 8 stiga mun áður en hálfleikur skall á. 41 – 33. Atkvæðamestir voru þeir Domynikas Milka (13 stig og 9 fráköst)  og Hörður Axel (11 stig og 7 stoðsendingar). Hjá Þórsurum voru stigin að dreifast öllu betur en Jerome Frink endaði hálfleiknn með 7 stig og 4 fráköst.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn á 9-4 kafla áður en Friðrik Ingi tók leikhlé til að stöðva lekann. Jerome Frink setti 8 af fyrstu 10 stigum gestanna í leikhlutanum og hélt gestunum í einhvers konar seilingarfjarlægð. Þegar Keflvíkingar virtust ætla að ganga frá leiknum gerði Kahil Ahmad sig sekan um dómgerðarbrest þegar honum sinntist á við Halldór Garðar Hermannsson er þeir börðust um bolta sem fór útaf velli. Til orðaskipta kom á milli þeirra sem endaði með því að báðir fengu dæmda á sig tæknivillu eftir aðvaranir dómara. Þar með var Ahmad vikið út úr húsi þar sem hann hafði fengið eina slíka í 1. leikhluta og gaf þar með gestunum smá líflínu. Keflvíkingar héldu þó haus og 14 stiga forskoti inn í 4. leikhlutann, 63- 49.

Keflvíkingar héldu dampi í lokafjórðungnum þar sem þónokkuð var um góðar troðslur og varin skot á báða bóga. Þórsarar náðu aldrei að ógna heimamönnum sem unnu að lokum sannfærandi sigur

Hvað réði úrslitum:

Keflvíkingar voru með mikla yfirburði í teignum og réðu Þórsarar ekkert við stóru strákana. Þórsarar fengu lítið frá Halldóri Garðari og Emil Karel sem skutu illa og virkuðu hálf áhugalausir lungan úr leiknum. Of stór biti fyrir Þórsliðið að þessir tveir skili ekki meira.

Tölfræðimolinn:

Heimamenn skila 96 í framlag á móti 66 punktum gestanna. Frákastabaráttan var einstefna þar sem Keflavík sótti 16 fleiri.

Bestir á vellinum:

Domynikas Milka var enn einu sinni óþægur ljár í þúfu andstæðinga sinna. Hann endaði leikinn með tröllatvennu, 23 stig og 18 fráköst. Hörður Axel Vilhjálmsson átti einnig fínan leik með 12 stig, 9 stoðsendingar og 5 fráköst.

Hjá Þórsurum var Jerome Frink í sérflokki. 22 stig, 13 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 varin skot.

Hvað er næst?

Það verður spilað uppá eitthvað á báðum endum töflunnar í lokaumferðinni. Það er ekki hægt að biðja um meira. Keflvíkingar sækja ÍR heim í Breiðholt og Þórsarar fá Njarðvíkinga í heimsókn í Þorlákshöfn. Ólíklegir hlutir þurfa að gerast til að Keflvíkingar skjótist fram fyrir Stjörnumenn og Þórsarar falli en ef það er eitthvað sem hægt er að fullyrða um leikinn fagra þá er það að allt getur gerst og ekkert er víst.

Tölfræði leiks

Umfjöllun // Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -