Engin fagnaðarlæti í DHL-Höllinni í kvöld. Keflvíkingar fullkomnuðu ætlunarverk sitt í Vesturbænum með 92-100 sigri á KR og komu þannig í veg fyrir að Íslandsmeistararnir myndu bæta deildarmeistaratitlinum í safnið hjá sér. Það ræðst því ekki fyrr en á fimmtudag hvaða lið verður deildarmeistari í Iceland Express deild karla þetta tímabilið. Viðureign kvöldsins var vægast sagt sveiflukennd þar sem liðin skiptust á því að misþyrma hvoru öðru. Draelon Burns hrökk í gang í liði Keflavíkur í síðari hálfleik og skoraði 29 stig en atkvæðamestur í liði KR var Brynjar Þór Björnsson með 27 stig.
Leikar hófust með látum í DHL-Höllinni þar sem Tommy Johnson var heit höndin og á upphafsmínútunum hafði hann jarðað þrjá þrista og staðan 16-9 KR í vil eftir fjögurra mínútna leik. Keflvíkingar voru hvergi nærri af baki dottnir og minnkuðu muninn í 20-19 en varnir liðanna voru í nettu verkfalli í fyrsta leikhluta á meðan sóknarleikurinn var í bullandi akkorði. Urule Igbavboa var skæður í sóknum Keflavíkur og skoraði nánast að vild á blokinni en heimamenn í KR höfðu yfirhöndina eftir fyrsta leikhluta 28-26.
Keflvíkingar skiptu í svæðisvörn í upphafi annars leikhluta en þeir hefðu allt eins getað sett sjötta leikmanninn inná og það hefði ekkert hjálpað. KR fór hreinlega á kostum í leikhlutanum og gestirnir gátu lítið annað en fylgst með.
Keflavík gerði aðeins eitt stig á fyrstu fimm mínútunum í öðrum leikhluta og Brynjar Þór Björnsson stráði salti í sárin með þriggja stiga körfu og staðan orðin 41-29. Keflvíkingar gleymdu því að galdramenn á borð við Pavel Ermolinskij þarf að dekka, og það vel! Pavel lék lausum hala og splæsti í hvert glæsitilþrifið á fætur öðru þar sem hinir fjórir KR-ingarnir biðu með tungurnar lafandi og þökkuðu fyrir sig með körfum.
Þegar 33 sekúndur voru til hálfleiks mætti Brynjar með dýran þrist fyrir KR. Hann skaut úr ómögulegri stöðu yfir Hörð Axel og þristurinn stóð heima! Tommy Johnson klikkti út fyrir KR með því að fá tæknivíti fyrir mótmæli og Keflvíkingar náðu að setja tvö stig á línunni og staðan 52-35 í leikhléi fyrir KR. Brynjar var kominn með 15 stig í liði KR í hálfleik en Urule 16 hjá Keflavík.
Gestirnir opnuðu seinni hálfleik 2-7 og þá tók KR leikhlé. Áfram hélt Keflavík að saxa niður forskotið með þéttum varnarleik og svo fór loks eftir tvo þrista í röð frá Herði Axeli Vilhjálmssyni að Keflavík jafnaði metin og staðan 61-61.
Þegar líða tók á leikhlutann færðist töluvert fjör í leikinn, gríðarlegur hraði og flottar körfur litu dagsins ljós en Draelon Burn kom Keflavík 8 stigum fram úr KR með þriggja stiga körfu og staðan 65-73. Leikar stóðu svo 68-73 fyrir fjórða leikhluta og alger kúvending hafði átt sér stað eftir að KR leiddi með 17 stiga mun í hálfleik. Hringir þetta einhverjum bjöllum? Síðasta umferð, Stjarnan leiddi gegn KR með 20 stigum fyrir fjórða leikhluta. Nú var taflið að snúast í höndunum á KR.
Í fjórða leikhluta kom loks að því að bekkur Keflavíkur lét að sér kveða. Fyrstu þrjá leikhlutana hafði aðeins byrjunarlið gestanna náð að skora. Þröstur Leo Jóhannsson setti þá niður þrist í þriðju tilraun eftir að liðsfélagar hans höfðu náð tveimur sóknarfráköstum í röð. Þröstur lét ekki deigan síga og þriðja tilraunin lak í netið og það reyndust einu stigin hjá Keflavík frá bekknum þetta kvöldið.
Pavel Ermolinskij skilaði flottum tölum í kvöld með myndarlega þrennu með 17 stig, 10 stoðsendingar og 10 fráköst en Keflvíkingar skrúfuðu frá hitanum í kringum Pavel. Fóru loks að dekka hann og þá kom hikst í sóknarleik heimamanna. Í fyrri hálfleik hafði Pavel fengið nokkurn frípassa á að misþyrma Keflavík en sú stund var nú liðin.
KR gerði áhlaup. Náðu að minnka muninn í 86-89 þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Skömmu síðar minnkaði Tommy Johnson muninn í eitt stig, 88-89. Fannar Ólafsson fékk svo sína fimmtu villu hjá KR er hann braut á Urule Igbavboa sem skoraði um leið. Hörður Axel breytti svo stöðunni í 90-96 með stökkskoti í teignum og rúm mínúta til leiksloka.
Í stöðunni 92-96 fyrir Keflavík fékk Morgan Lewis kjörið tækifæri til þess að brúa bilið niður í eitt stig. 22 sekúndur voru eftir á klukkunni þegar Lewis tók opinn þrist í hægra horninu en skotið geigaði og KR varð að brjóta á Keflavík. Eftirleikurinn var því auðveldur hjá gestunum sem unnu loks 92-100 útisigur á KR og urðu þar með eina liðið í deildarkeppninni til að skora 100 stig í DHL-Höllinni.
Draelon Burns hrökk í gang fyrir Keflavík á hárréttum tíma og lauk leik með 29 stig og 6 fráköst. Urule Igbavboa var skæður á blokkinni og gerði 25 stig í leiknum og Hörður Axel Vilhjálmsson bætti við 20 stigum og 9 stoðsendingum. Sverrir Þór Sverrisson komst ekki á blað í stigaskorinu en leysti vel af fyrir Hörð í leikstjórnandanum og barðist vel á báðum endum eins og hans er von og vísa. Sigurður Gunnar Þorsteinsson setti 14 stig og tók 5 fráköst og þar af 3 sóknarfráköst sem reyndust dýrmæt því hann var oftar en ekki á vítalínunni eftir að hann skoraði í teignum.
Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson enn og aftur stigahæstur og nú með 27 stig. Hann var einnig með 5 fráköst og 3 stoðsendingar en hafði sig lítið í frammi á lokasprettinum þegar hans var mest þörf. Tommy Johnson gerði 18 stig í kvöld og byrjaði leikinn mjög vel en var hljóðlátur á löngum köflum. Pavel Ermolinskij skilaði myndarlegri þrennu, 17 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar en eftir því sem leið á leikinn gerðist hann sekur um nokkrar slæmar sendingar og tapaði hann 7 boltum í leiknum.
Þar sem Keflavík tapaði fyrri viðureign liðanna með 15 stiga mun og vann leik kvöldsins með 8 stigum á KR enn innbyrðisviðureign liðanna og af þeim sökum getur Keflavík ekki orðið deildarmeistari. Grindavík verður deildarmeistari með sigri í næsta leik ef KR tapar í Stykkishólmi á fimmtudag.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Sigurður Gunnar Þorsteinsson í baráttunni inni í teig KR-inga.



