spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar bikarmeistarar í unglingaflokki kvenna

Keflvíkingar bikarmeistarar í unglingaflokki kvenna

Keflavík er bikarmeistari í unglingaflokki kvenna eftir stórsigur á Snæfell. Lokatölur í viðureign liðanna voru 42-105 Keflavík í vil þar sem Sandra Lind Þrastardóttir var valin besti maður leiksins með 21 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar. Hólmarar sáu í raun aldrei til sólar í leiknum og mættu einfaldlega ofjarli sínum í dag.

Anna Soffía Lárusdóttir fann snemma þrist fyrir Hólmara en það var nánast allt og sumt sem Snæfellskonur sýndu þennan fyrsta leikhluta því Keflavík tók á rás. Með A-landsliðskonuna Söndru Lind Þrastardóttur í broddi fylkingar leiddi Keflavík 11-31 eftir fyrsta leikhluta. Sandra þar með 10 stig, 3 fráköst og 6 stoðsendingar og Keflvíkingar búnir að þvinga 7 tapaða bolta út hjá Snæfellsliðinu. Óskabyrjun Keflavíkur og jafnframt þung staðreynd fyrir Snæfellinga. 

 

Snæfell bætti ráð sitt í vörninni í öðrum leikhluta en áttu í svipuðu basli á sóknarendanum. Keflvíkingar véku hvergi frá sterkum varnarleik sínum og leiddu 26-55 í hálfleik. Sandra Lind Þrastardóttir var stigahæst hjá Keflavík í hálfleik með 13 stig, 3 fráköst og 6 stoðsendingar en Rebekka Rán Karlsdóttir var atkvæðamest í liði Hólmara með 12 stig, 1 frákast og 1 stoðsendingu. 

 

Síðari hálfleikur var aldrei til umræðu og leiddu Keflvíkingar 36-79 að loknum þriðja leikhluta. Svo fór að lokum að Keflavík hafði risavaxinn 42-105 sigur á Hólmurum en þess skal getið að öflugir leikmenn Keflvíkinga skipa velflestir meistaraflokk félagsins í dag að frátöldum erlendum leikmönnum svo það var vitað fyrir leik að myndarleg brekka yrði framundan hjá Snæfellsliðinu. 

 

Fimm leikmenn Keflavíkur gerðu 10 stig eða meira í leiknum, Sandra Lind var með 21 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar og þá var Bríet Sif Hinriksdóttir með 20 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Snæfell var Rebekka Rán Karlsdóttir með 15 stig og 4 fráköst. 

 

Tölfræði leiksins

Myndir (Bára Dröfn)
 

Mynd/ Bára Dröfn Kristinsdóttir 

Fréttir
- Auglýsing -