Það þurfti hvorki meira né minna en topplið landsins til þess að loksins leggja hið ósigraða lið UMFN-b. Keflvíkingar fóru nokkuð áreynslulaust í undanúrslit með 108:84 sigri í Ljónagryfjunni í kvöld. Njarðvíkingar með gamlar kempur innanborðs eins og Pál Kristinsson, Brenton Birmingham og svo að sjálfsögðu Halldór Rúnar Karlsson sem hélt uppi fjörinu í kvöld.
Keflvíkingar ætluðu sér aldrei að lenda í neinum ógöngum í kvöld og hófu strax leik með því að skora 33 stig gegn 13 stigum heimamanna eftir fyrsta fjórðung. Njarðvíkingar náðu muninum best niður í 17 stig á loka kafla leiksins en nær komust þeir ekki. Brenton Birmingham fór fyrir liði heimamanna og sýndi huggulega takta þegar hann setti 15 stig og hjá Keflvíkingum var það Andrés Kristleifsson sem skoraði 20 stig.



