spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar á toppinn með sigri í Ljónagryfjunni

Keflvíkingar á toppinn með sigri í Ljónagryfjunni

Keflvíkingar fá að monta sig fram yfir nýja árið því þeir lögðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni í kvöld 84-94 í Domino´s-deild karla. Þetta var þriðja árið í röð sem Keflvíkingar vinna deildarleikinn í Ljónagryfjunni. Earl Brown Jr. var stigahæstur í liði Keflavíkur með 29 stig og 13 fráköst og þá var Valur Orri Valsson einnig framúrskarandi með 17 stig og 5 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Marquise Simmons nærri þrennunni með 26 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar og Logi Gunnarsson bætti við 19 stigum og 5 fráköstum. Grannaglíman var fjörug en Keflvíkingar voru við stýrið lungann úr leiknum, héldu vel á spilunum og kláruðu leikinn af festu.

Fyrsti leikhluti var hressandi, liðin skiptust á forystunni en þónokkuð var flautað af lítilsháttar villum á víð og dreif um völlinn. Hjörtur Hrafn fékk tvær eftir tvær mínútur í liði Njarðvíkinga og skömmu síðar hafði Magnús Már fengið sína þriðju villu í liði Keflavíkur. Gestirnir fundu takt fyrir utan þriggja stiga línuna, settu 4 af 5 þristum í fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum 24-27. Keflvíkingar voru í vandræðum í teignum, hinn hávaxni Simmons Njarðvíkurmegin lék þar lausum hala með 12 stig í fyrsta leikhluta en hann gerði 10 af fyrstu 12 stigum Njarðvíkinga í leiknum. Flott og hressandi byrjun á grannaglímunni, mikið skorað og forystan hoppaði á milli klúbbanna. 

Þristarnir héldu áfram að detta hjá Keflavík framan af öðrum leikhluta, Magnús Þór með einn neðan úr Myllubakkaskóla og Ragnar Gerald bætti fljótlega við öðrum og Keflvíkingar leiddu 27-33. Logi var einn Njarðvíkinga að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna og var 3-6 í hálfleik. Simmons var lítið að fá boltann á blokinni í liði Njarðvíkinga í öðrum leikhluta sem sætti furðu því Keflvíkingar voru í basli með hann. 

Logi Gunnarsson jafnaði leikinn með þrist, 43-43 en Keflvíkingar slitu sig aftur frá og leiddu 49-53 í hálfleik en það var Reggie Durpree sem lokaði fyrri hálfleik fyrir Keflavík af vítalínunni en alls 28 villur voru dæmdar í fyrri hálfleik sem var full mikið af hinu góða. 

Logi Gunnarsson og Simmons voru báðir með 14 stig hjá Njarðvík í hálfleik en Brown var með 13 hjá Keflavík og Durpee 10. Valur Orri átti einnig fína spretti og var 2-2 í þristum en Keflvíkingar voru 7-13 í þristum í fyrri hálfleik. 

Keflvíkingar settu tóninn strax í upphafi síðari hálfleiks, opnuðu með 7-0 hlaupi og gestirnir voru að búa sér til góð skot sem þeir nýttu vel. Logi Gunnarsson var einn mættur til vinnu þristamegin hjá Njarðvík sem höktu nokkuð sóknarlega þegar Keflvíkingar fóru að halla sér meira að svæðisvörninni. 

Áfram sáum við svæðisvörnina hjá Keflavík í fjórða leikhluta og gestirnir í raun mun grimmari í öllum sínum aðgerðum. Brown og Valur Orri stýrðu sýningunni í fjórða hluta en Njarðvíkingar fengu nokkrar tilraunir til að komast nærri en það vildu Keflvíkingar ekki heyra á minnst. Valur Orri lokaði leiknum með tveimur þristum á lokamínútunum og Keflvíkingar fögnuðu þriðja deildarsigrinum í röð í Ljónagryfjunni, lokatölur 84-94. Keflvíkingar og Grindvíkingar eru því einir á toppi deildarinnar og hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa. 

Keflvíkingar voru heitir fyrir utan í kvöld, eiga fjórða þristahæsta leikinn með 13 stykki en þeir voru 13-25 í þristum í kvöld. Njarðvíkingar unnu frákastabaráttuna 40-32 og skoruðu 42 stig í teignum en hefðu þurft að leysa betur úr svæði gestanna og fá fleiri ógnandi fyrir utan en bara Loga Gunnarsson. Hjörtur Hrafn Einarsson lék ekkert í síðari hálfleik í liði Njarðvíkinga en hann er að glíma við ökklameiðsli, hann setti þó 7 stig og gaf 7 stoðsendingar í fyrri hálfleik. 

Maður leiksins: Valur Orri Valsson

Njarðvík-Keflavík 84-94 (24-27, 25-26, 15-20, 20-21)
Njarðvík:
Marquise Simmons 26/11 fráköst/7 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 19/5 fráköst, Hjalti Friðriksson 17, Maciej Stanislav Baginski 8/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 7/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 7/7 stoðsendingar, Oddur Birnir Pétursson 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Hilmar Hafsteinsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Snjólfur Marel Stefánsson 0.
Keflavík: Earl Brown Jr. 29/13 fráköst, Reggie Dupree 18, Valur Orri Valsson 17/5 stoðsendingar, Magnús Már Traustason 8, Ragnar Gerald Albertsson 7, Magnús Þór Gunnarsson 6, Ágúst Orrason 4, Guðmundur Jónsson 3/4 fráköst/6 stoðsendingar, Davíð Páll Hermannsson 2, Andri Daníelsson 0, Kristján Örn Rúnarsson 0, Arnór Ingi Ingvason 0.

Staðan í deildinni

Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Grindavík 3/0 6
2. Keflavík 3/0 6
3. Tindastóll 2/1 4
4. Stjarnan 2/1 4
5. KR 2/1 4
6. Njarðvík 2/1 4
7. Haukar 1/2 2
8. Þór Þ. 1/2 2
9. ÍR 1/2 2
10. Snæfell 1/2 2
11. FSu 0/3 0
12. Höttur 0/3 0

Myndasafn/ Davíð Eldur
Umfjöllun/ Jón Björn 

Fréttir
- Auglýsing -