spot_img
HomeFréttirKeflavíkursigur í Ljónagryfjunni

Keflavíkursigur í Ljónagryfjunni

 
Það var hörku nágrannaslagur sem fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík fyrr í kvöld þegar að heimastúlkur mættu erkifjendum sínum úr Keflavík. Eftir virkilega skemmtilegan leik sigruðu meistaraefnin úr Keflavík 77-82 og byrja því Íslandsmótið með stæl. Keflvíkingar þurftu svo sannarlega að hafa vel fyrir hlutunum í kvöld því heimastúlkur börðust eins og ljón og sýndu glimrandi fína takta á köflum.
Í fyrsta leikhluta var greinilega mikið stress hjá heimastúlkum sem nánast skulfu á beinunum enda komust gestirnir úr Keflavík yfir 0-6 eftir tveggja mínútna leik. Eyrún Líf svaraði fyrir Njarðvíkurliðið sem komst reyndar yfir 10-8 en þá tók við glæsilegur kafli hjá Keflvíkingum sem komust í 13-26 þegar rétt mínúta var eftir af leikhlutanum og Sverrir Þór Sverrisson tók leikhlé. Staðan eftir þennan fyrsta leikhluta 16-28 og útlit fyrir að Keflvíkingar myndu valta yfir lið UMFN sem var stressað og hreinlega slakt í þessum fyrsta leikhluta. Keflavíkurliðið sýndi hinsvegar flotta takta og spiluðu ljómandi vel.
 
Eitthvað hefur stressið verið farið úr leikmönnum Njarðvíkinga í upphafi annars leikhluta því þær grænklæddu byrjuðu af krafti og fóru að spila mun betur. Munurinn fór niður í 7 stig og spennustigið hjá leikmönnum Njarðvíkur komið á rétt ról. Keflavíkurstúlkur svöruðu sem fyrr með ágætu áhlaupi og fóru þær Bryndís Guðmundsdóttir og Birna Valgarðsdóttir þar fremstar í flokki. Í hálfleik var staðan 34-48 en þrátt fyrir 14 stiga mun voru jákvæð teikn á lofti hjá Njarðvíkurliðinu.
 
Þriðji leikhlutinn var barátta og barningur út í gegn og heimastúlkur gerðu hvað þær gátu til þess að minnka muninn en hið geysisterka Keflavíkurlið hélt ávalt muninum á bilinu 12-19 stig. Dugnaður Keflvíkinga í sóknarfráköstunum skilaði sínu og þó sér í lagi framlag Jacquline Adamshick sem reif 10 sóknarfráköst í leiknum! Baráttan var þó aðdáunarverð hjá heimastúlkum sem ætluðu svo sannarlega ekki að láta vaða yfir sig og ætluðu sér inní leikinn. Eftir leikhlutann var munurinn orðinn 16 stig og flestir búnir að afskrifa heimaliðið.
 
Fjórði leikhlutinn var ansi fjörugur og heimastúlkur voru að gera harða atlögu á að koma muninum undir tíu stigin. Það tókst undir lokin og lokakaflinn varð bara nokkuð spennandi þó svo að sigur Keflvíkinga hafi svo sem aldrei verið í hættu. Heimastúlkur ná muninum niður í 5 stig eftir gríðarlega baráttu og stemmingu undir lokin en Keflavíkurmeyjar landa að lokum verðskulduðum og fínum sigri 77-82. Eins og fyrr segir var leikurinn bráðskemmtilegur og gaman að sjá til beggja liða. Njarðvíkurstúlkur eiga hrós skilið fyrir að gefast aldrei upp og eiga eftir að koma mjög á óvart í vetur ef framhald verður á þessari stemmingu hjá þeim. Keflavíkurliðið er geyslilega sterkt, lék vel á köflum í þessum leik en eiga einnig helling inni. Það er skiljanlegt að liðinu sé spá velgengni enda frábærlega vel mannað og verður fróðlegt að sjá til liðsins í vetur.
 
Bestu leikmenn Keflavíkur voru þær Jacquline Adamshick ( 21 stig og 15 fráköst) sem er virkilega góður leikmaður ,Bryndís Guðmundsdóttir (19 stig og 12 fráköst) og Pálína Gunnlaugsdóttir ( 13 stig og 7 fráköst) sem er aftur komin í sitt gamla góða form. Þá var hin þrautreynda Birna Valgarðsdóttir mjög drjúg að vanda með 15 stig og 7 fráköst. Hjá Njarðvík var það Heiða Valdimarsdóttir (12 stig og 5 fráköst), Sheyla Fields (19stig og 5 fráköst) og Dita Liepkalne (18 stig 8 fráköst ) sem voru atkvæðamestar en einnig er vert að geta frábærrar innkomu hjá þeim Dagmar Traustadóttur og Árnínu Lenu Rúnarsdóttur sem léku einnig mjög vel. Ólöf Helga Pálsdóttir komst einnig vel frá sínu í kvöld.
 
Dómgæslan var heilt yfir ljómandi góð í þessum leik en þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson dæmdu fyrri hálfleikinn en Lárus Ingi Magnússon hljóp svo í skarðið fyrir Jóhann í hálfleik en hann forfallaðist vegna meiðsla.
 
Fjölmenni var á leiknum í kvöld og nokkuð þétt setið báðum megin í stúkunni. Það var virkilega gaman að sjá og greinilegt að mikil og góð stemming er fyrir kvennaboltanum í Reyjkanesbæ í ár enda lofar byrjunin góðu og enginn svikinn á að mæta á leiki þessara liða.
 
 
Texti: Af heimasíðu UMFN
Fréttir
- Auglýsing -