spot_img
HomeFréttirKeflavíkursigur í fyrsta leik Friðriks Inga

Keflavíkursigur í fyrsta leik Friðriks Inga

Keflavík landaði tveimur sterkum stigum í kvöld og miðað við stöðu liðanna hefði maður fyrirfram búist við ákveðnari Skallagrímsmönnum en þeim sem mættu í TM-Höllina. Borgnesingar í fallsæti fyrir leik þrátt fyrir að hafa þegar unnið sér inn 12 stig í deildinni. Amin Stevens og Guðmundur Jónsson voru magnaðir í liði Keflavíkur í kvöld og þá átti Sigtryggur Arnar flottan leik fyrir Skallagrím en Flenard Whitfield voru oft mislagðar hendur í kringum körfuna með aðeins 9-27 í teigskotunum. Fyrir leikinn í kvöld höfðu Borgnesingar ekki unnið deildarleik í Keflavík frá árinu 1993 og á því varð ekki breyting þetta skiptið. Lokatölur 93-80 í TM-Höllinni og því sigur í fyrsta leik Friðriks Inga Rúnarssonar sem tók við Keflavík á dögunum.

Menn fóru rólega af stað í kvöld, jafnt á öllum tölum svona til að byrja með en Hörður Axel sleit heimamenn frá í 23-19 og við það fataðist gestunum úr Borgarnesi einbeitingin og Keflavík reif þetta upp í 30-20 eftir fyrstu 10 mínúturnar. Rétt eins og önnur lið voru Borgnesingar í mesta basli með Amin Stevens sem var með 11 stig og 5 fráköst eftir fyrsta leikhluta. Á sama tíma í liði Skallagríms fór Flenard illa með færin sín í teignum hjá Keflavík svo Sigtryggur Arnar var þeirra helsti sóknarbroddur framan af og Eyjólfur Ásberg var sömuleiðis með fínar rispur.

Félagarnir Flake og Flenard voru skólaðir af Stevens og stóru strákunum í Keflavík í upphafi annars leikhluta svo Finnur Jónsson kallaði sína menn á bekkinn. Það vantaði ekki að varnirnar voru þokkalegar og menn tilbúnir til að glíma, það var umtalsvert af smjöri sem vantaði í sóknarleikinn á báða bóga. Borgnesingar færðu sig nærri 34-29 eftir þrist frá Sigtryggi en Keflvíkingar settu þá strax aftur á hælana og þristur frá Guðmundi Jónssyni jók muninn í 45-35 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Amin Stevens var með 17 stig og 11 fráköst í liði Keflavíkur í hálfleik en Sigtryggur Arnar með 13 stig og 5 fráköst hjá Skallagrím. Flenard átti erfitt uppdráttar í fyrri með 3-14 í teignum og Magnús Þór Gunnarsson mætti á gamla heimavöllinn með ryðgað byssuhlaup því allar fjórar þriggja stiga tilraunirnar hans í fyrri hálfleik fundu ekki net.

Guðmundur Jónsson átti þriðja leikhluta skuldlausan, setti m.a. 8 stiga dembu yfir Skallagrím og hún kom þegar Borgnesingar voru farnir að nálgast heimamenn í stöðunni 58-53. Þetta var rauði þráðurinn í sögu leiksins, Keflvíkingar áttu alltaf mótsvar við rispum gestanna og þá vantaði meiri ógnun hjá Borgnesingum en hún var einvörðungu bundin við þá Sigtrygg og Flenard og það gerði Keflavíkurvörninni starfann auðveldari til lengdar. Staðan 68-53 fyrir Keflavík sem lokuðu þriðja leikhluta með 10-0 „rönni.“

Snemma í fjórða hluta var munurinn orðinn 20 stig, 77-57, og Keflvíkingar eru ekki þekktir fyrir að láta svoleiðis stöðu af hendi. Borgnesingar urðu á endanum að fella sig við 93-80 ósigur og eru því enn í fallsæti eftir kvöldið en þakka sennilega ÍR-ingum innilega fyrir að leggja Hauka að velli í kvöld.

Amin Stevens er einfaldlega einn besti leikmaður deildarinnar í teignum, 31 stig og 20 fráköst í kvöld og lengstum varðist hann vel gegn Flenard sem hefur leikið margan varnarmanninn grátt í deildinni. Guðmundur Jónsson skilaði 22 stigum og 6 fráköstum og var funheitur í þriðja leikhluta. Hörður Axel Vilhjálmsson var duglegur að finna félagana með 14 stig og 11 stoðsendingar en það er persónulegt met hjá honum á leiktíðinni og fer hann upp í 4. sæti með Tindastólsmanninum Pétri Rúnari yfir flestar stoðsendingar í einum leik þessa vertíðina.

Næsti leikur Keflavíkur er Suðurnesjaslagur gegn Grindavík þann 19. febrúar en Skallagrímur heldur í Vesturlandsslag gegn Snæfell í Fjósinu.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Umfjöllun/ [email protected]
Myndir/ [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -