spot_img
HomeFréttirKeflavík við stýrið í Ljónagryfjunni

Keflavík við stýrið í Ljónagryfjunni

Njarðvík og Keflavík áttust við í Ljónagryfjunni í kvöld í Domino´s-deild kvenna. Njarðvíkingar án stigamaskínunnar Carmen Tyson-Thomas sem fékk reisupassann á dögunum en Keflvíkingar í bullandi baráttu um deildarmeistaratitilinn. Til að gera langa sögu stutta tók Keflavík snemma frumkvæðið og leit aldrei til baka, lokatölur 49-73 Keflavík í vil.

Keflvíkingar tóku frumkvæðið snemma, komust í 2-9 eftir að Erna Hákonardóttir hafði gert fimm stig í röð fyrir gestina úr Keflavík. Njarðvíkingar sem vitaskuld söknuðu síns helsta skorara í Carmen voru að enduruppgötva sig á sóknarendanum og Keflvíkingar leiddu 12-25 eftir fyrsta leikhluta.

Stóru leikmenn Njarðvíkinga voru að skila í fyrri hálfleik, María Jóns, Linda og Karen Dögg en Njarðvíkingar voru 0-9 þristum í fyrri hálfleik. Keflvíkingar léku vörn allan völlinn og unnu stöku góðan bolta fóru því með fína 20-37 forystu inn í hálfleik. María Jónsdóttir var með 8 stig í liði Njarðvíkinga í hálfleik en Ariana Moorer 11 hjá Keflavík.

Erna Freydís Traustadóttir gerði fyrsta Njarðvíkurþristinn í leiknum í tíundu liðstilraun og eftir liðlega 25 mínútna leik. Hann vó ekki þungt nema þá mögulega fyrir sálartetrið í skotmönnum Njarðvíkur þar sem Keflvíkingar héldu áfram að síga hægt en örugglega framúr með góðum varnarleik. Staðan 32-53 fyrir Keflavík að loknum þriðja leikhluta og þeir Sverrir og Gunnar, þjálfarar Keflavíkur, gátu leyft sér að dreifa mínútum vel þetta kvöldið.

Í fjórða leikhluta var sigur Keflavíkur aldrei í hættu og lokatölur 49-73 eins og áður greinir. Með sigrinum er Keflavík nú í 2. sæti deildarinnar með 40 stig, tveimur stigum á eftir Snæfell sem hefur 42 stig í 1. sæti. Njarðvíkingar sáu á eftir möguleikanum á úrslitakeppni þar sem sex stig skilja að Njarðvík og Stjörnuna í 4. sæti og aðeins fjögur stig eftir í pottinum en bæði Njarðvík og Stjarnan töpuðu í kvöld.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -