spot_img
HomeFréttirKeflavík valtaði yfir Skallagrím í seinni hálfleik

Keflavík valtaði yfir Skallagrím í seinni hálfleik

Keflavík hélt Skallagrím fyrir aftan sig í Dominos deild kvenna eftir sigur í Keflavík. Skallagrímur byrjaði betur en ótrúlegur varnarleikur Keflavíkur í seinni hálfleik gerði það að verkum að þær unnu ansi öruggan sigur í kvöld. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

Ákaflega lítið var skorað á upphafsmínútum og mikið jafnræði var á liðunum. Skallagrímur rauk hinsvegar af stað undir lok fyrsta leikhluta og náði tíu stiga forystu að honum loknum 23-13. Keflavík jafnaði fljótt í öðrum leikhluta en lítið var skorað í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik 32-27 og Skallagrímur sterkari aðilinn. 

 

Þriðji leikhluti er rannsóknarefni út af fyrir sig. Það tók fjórar mínútur fyrir liðin að setja stig á töfluna og Skallagrímur var einungis með þrjú stig í öllum leikhlutanum. Keflavíkurvörnin bókstaflega skellti í lás í seinni hálfleik og Skallagrímur hitti ekki til að bjarga lífi sínu. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka hafði Skallagrímur einungis sett ellefu stig á töfluna en tókst að laga tölfræðina eilítið á svokölluðu ruslamínútunum. Frábær frammistaða Keflavíkur í seinni hálfleik tryggði þeim verðskuldaðann 72-51 sigur og annað sæti Dominos deildarinnar þeirra. 

 

Hetjan:

Liðsheild Keflavíkur enn og aftur. Arianna Moorer var hlutskörpust með 22 stig og 11 fráköst auk þess sem varnarleikur hennar var frábær. Vert er að nefna varnarvinnu Írenu Sólar Jónsdóttir sem verður eitthvað fram eftir vikunni að losa Tavelyn Tillman úr vasa sínum. Tillman var með 20 stig í hálfleik en Írena hélt henni í tveimur stigum í seinni hálfleik og þau stig af vítalínunni. Varnarvinna hennar var óaðfinnanleg í leiknum. 

 

Kjarninn:

Ótrúlegur viðsnúningur seinni hálfleiks gerði gæfumuninn í leiknum. Það væri hægt að tala um hvað gerðist hjá Skallagrím sem gat ekki keypt sér körfu í leiknum en helst ástæðan er mögnuð frammistaða Keflavíkur. Varnarleikurinn gekk frábærlega upp hjá liðinu. Sóknarleikurinn var ekki frábær og hefði Keflavík auðveldlega getað unnið leikinn enn stærra. Keflavík er með sigrinum í öðru sæti deildarinnar og eru að vinna stóra sigra. Það er ekki að sjá á liðinu að reynslan sé lítil í liðinu heldur leikur liðið eins og kempur á leið í sitt 20. tímabil. Keflavík er til alls líklegt í úrslitakeppninni og vonandi fyrir þær að liðið nái að halda áfram framförum því ef það gerist verður það óvinnandi vegur að vinna þetta lið.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Mynd /  Árni Þór Ármannsson

Fréttir
- Auglýsing -