spot_img
HomeFréttirKeflavík tók forystuna eftir sigur í framlengingu (umfjöllun)

Keflavík tók forystuna eftir sigur í framlengingu (umfjöllun)

20:36
{mosimage}

 

(Birna Valgarðsdóttir átti góðan leik með Keflavík í dag) 

 

 

Hin leikreynda Birna Valgarðsdóttir reyndist þrautgóð á raunastund í dag þegar Keflavík lagði Hauka 94-89 í framlengdum spennuleik. Leikurinn var sá fyrsti millum Keflavíkur og Hauka í úrslitakeppninni í kvennakörfunni og er staðan því 1-0 Keflavík í vil en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslit Íslandsmótsins. Staðan að loknum venjulegum leiktíma í dag var 81-81 en Birna gerði sex fyrstu stig Keflavíkur í framlengingunni.

 

Íslandsmeistarar Hauka leiddu 18-20 að loknum fyrsta leikhluta en Keflvíkingar gerðu sjö fyrstu stigin í öðrum leikhluta og breyttu stöðunni í 25-20 áður en Haukar náðu að skora. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir fékk snemma sína þriðju villu og skömmu síðar urðu Keflvíkingar fyrir töluverðu áfalli þegar Rannveig Kristín Randversdóttir snéri sig illa á ökkla og lék ekki meira í leiknum. Rannveig var bólgin en það kemur bráðlega í ljós hvort hún verði leikhæf á mánudag þegar Keflavík og Haukar mætast öðru sinni.

 

Keflvíkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 40-34 í leikhléi en Keflavík vann annan leikhluta 22-14. Susanne Biemer var með 13 stig í Keflavíkurliðinu í hálfleik en Victoria Crawford var með 12 hjá Haukum og Telma Fjalarsdóttir var lífleg hjá rauðum í fyrri hálfleik með 10 stig og fjölda frákasta.

 

Fyrirliði Keflavíkur, Ingibjörg Elva, fékk snemma sína fjórðu villu í síðari hálfleik og Haukar hófu að saxa á forskot Keflavíkur. Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 57-55 Keflavík í vil en gestirnir jöfnuðu leikinn fljótlega og náðu yfirhöndinni. Staðan var 71-78 fyrir Hauka þegar skammt var til leiksloka og útlitið ekki gott hjá Keflvíkingum.

 

 

{mosimage}

 

TaKesha Watson sem hafði átt fremur dapran fyrri hálfleik stýrði sínum liðsmönnum í Keflavík eins og herforingi í þeim síðari og fór fyrir áhlaupi Keflavíkur á lokasprettinum. Watson kom Keflavík í 81-80 með þriggja stiga körfu þegar 37 sekúndur voru til leiksloka. Haukar fengu þó vítaskot þegar skammt var eftir og Victoria Crawford setti eitt þeirra niður og staðan því jöfn 81-81. Keflvíkingar áttu síðustu sóknirnar í venjulegum leiktíma en þeim tókst ekki að stela sigrinum og því varð að framlengja.

 

Birna Valgarðsdóttir steig vel upp hjá Keflavík í framlengingunni og gerði sex fyrstu stig liðsins. Hver leikmaðurinn á fætur öðrum týndist af velli með fimm villur og spennan æsileg. Í stöðunni 87-87 tóku Keflvíkingar völdin og höfðu að lokum mikilvægan 94-89 sigur þar sem TaKesha Watson lauk leik með 30 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar hjá Keflavík. Henni næst var Susanne Biemer með 22 stig og Birna Valgarðsdóttir með 18 stig.

 

Victoria Crawford gerði 32 stig fyrir Hauka í dag en gestirnir úr Hafnarfirði leystu mjög vel úr pressuvörn Keflavíkur og þar fór Crawford fremst í flokki. Henni næstar voru þrír leikmenn með 14 stig, þær Kristrún Sigurjónsdóttir, Telma Fjalarsdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir en auk 14 stiga fór Telma á kostum í teignum og reif niður 22 fráköst.

 

Liðin mætast aftur á mánudag kl. 19:15 að Ásvöllum í Hafnarfirði!

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -