spot_img
HomeFréttirKeflavík - Þór (umfjöllun)

Keflavík – Þór (umfjöllun)

{mosimage}

Það voru grimmir Keflvíkingar sem komu til leiks gegn gestunum frá Akureyri. Íslandsmeistararnir ætluðu svo sannarlega að senda tóninn út í deildina að þrátt fyrir að þeim hafi eingungis verið spáð 3. sæti fyrir mótið væru þeir svo sannarlega á öðru máli.  Lið Þórsara urðu fórnarlamb Keflvíkinga í þessari yfirlýsingu heimamanna þegar þeir fengu að kenna á gríðarlega sterkri vörn heimamanna.

Lið Þórs átti lítið uppá pallborð í Keflavík í gær og voru nánast ennþá sofandi út í rútu þegar leikurinn hófst. Keflvíkingar hófu leikinn svo um munaði og voru strax komnir í 10 stiga forskot og juku það jafnt og þétt í fyrsta fjórðung. Vörn þeirra var gríðarlega sterk og til marks um það hafði lið Þórs aðeins sett niður 4 stig eftir tæpar átta mínútna leik. Keflvíkingar leiddu með 12 stigum eftir fyrsta fjórðung.

Lítið benti til þess að gestirnir ætluðu sé eitthvað í þessum leik þegar annar leikhluti hófst og aðeins Cedric Isom virtist vera með lífsmarki hjá liði Þórs. Kappinn setti niður 18 stig af 31 stigi gestanna í fyrri hálfleik. Ekki var hægt að tína út einn leikmann sem lék betur en annar hjá heimaliðinu. Mottó kvöldsins var greinilega “Einn fyrir alla og allir fyrir einn” Hálfleikstölur voru 48-31.

Í seinni hálfleik juku heimamenn enn á kvalir gestanna og forskotið fljótlega komið í rúm 20 stig. Skapið fór að hlaupa með gestina í gönur og endaði það að Jón Kristjánsson uppskar tæknivillu fyrir fólskulegan leik.  Keflvíkingar skiptu í maður á mann en fram að þessu höfðu þeir verið í 2-3 svæðisvörn.  Þeir hófu að stela boltum og uppskáru hvert “lay up” skotið á fætur öðru á hinum enda vallarins. 83-55 var staðan fyrir síðasta fjórðunginn.

Líkast til hefði verið fínt að linna þjáningum Þórsara með því að flauta leikinn af eftir þriðja fjórðung því einungis formsatriði var að klára þær tíu mínútur sem eftir lifðu leiks. 94-70 voru lokatölur og áætlunarverk Keflvíkinga hafði gengið upp  að öllu leiti. Gunnar Einarsson var þeirra stiga hæstur með 17 stig en það voru 5 aðrir leikmenn liðsins sem skoruðu 11 stig eða meira.  Cedric Isom hélt uppi heiðri gestanna með 34 stig. “Ég man eftir því að við gerðum í brækurnar á síðasta ári svipað gegn Njarðvíkingum en komum svo sterkir tilbaka og unnum Grindavík í næsta leik þannig að þetta er enginn áfellis dómur þó svo að þetta hafi verið skelfilega lélegt hjá okkur í kvöld” sagði Hrafn Kristjánsson eftir leikinn.

 

Fréttir
- Auglýsing -