spot_img
HomeFréttirKeflavík sýndu klærnar

Keflavík sýndu klærnar

 Keflavíkurkonur sýndu klærnar í kvöld þegar þær sigruðu lið Hamar í öðrum leik liðanna í undan úrslitum Íslandsmótsins. 77:70 var lokastaða leiksins og réðust úrslitin ekki fyrr en á síðustu mínútu leiksins. Þar með hafa Keflavík jafnað einvígið
 
 .Hamar skoruðu fyrstu 6 stig leiksins en Birna Valgarðsdóttir setti niður næstu 7 stig og kom liði sínu yfir. Birna nældi sér hinsvegar í sína aðra villu eftir aðeins 4 mínútna leik og Jón Halldór gat ekki telft á hætturnar tvær og skipti henni útaf. Hamar náðu þá góðu áhlaupi og voru komnar í 9:18. Keflavíkurstúlkur voru hinsvegar að sýna ágætis takta í sóknarleik sínum á köflum sem skilaði þeim auðveldum körfum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23:24 gestunum í vil.
Hamar voru hinsvegar einnig að spila góðan sóknarleik og í byrjun annars leikhluta skoruðu þær afar auðveldar körfur þar sem vörn heimastúlkna var á hælunum. Vörn gestanna var að harðna og náðu heimastúlkur ekki að skora á tveggja mínútna kafla í öðrum leikhluta. Keflavík voru að gerast sekar um óþarfa tapaða bolta þar sem þær hreinlega voru að kasta boltanum út af. Þegar 2 mínútur voru til hálfleiks setti Karen Schram niður þrist og kom Hamar í 10 stiga forskot 31:41. Keflavíkurstúlkur náðu hinsvegar að klóra í bakkann og setja niður næstu 5 stig og staðan í leikhléi 36:41.
 
Birna Valgarðsdóttir sem hafði verið laus fryst á bekknum í fyrri hálfleik hóf seinni hálfleik á tveimur þristum og minnkaði muninn niður í 1 stig. Birna fékk hinsvegar sína þriðju villu á hreint óskiljanlegan hátt, en fréttaritari var í “stúkusæti” og sá ekkert athugavert við varnarleik hennar í þetta skiptið. Hamarsstúlkur höfðu mikla yfirburði í fráköstum í fyrri leik liðanna en Keflavíkurstúlkur voru að þessu sinni grimmar í sóknarfráköstunum og voru hvað eftir annað að fá annan séns í sókninni. Leikurinn hélst nokkuð jafn í leikhlutanum og staðan 56:56 fyrir síðasta leikhlutann og allt stefndi í að þessi rimma yrði útkljáð á síðustu sekúndum leiksins.
 
Birna kom fljótlega inná aftur í fjórða leikhluta og hafði vart verið inná í meira en 5 sekúndur þegar hún var búin að setja niðr þrist. Stúlkan vissulega sjóðheit þrátt fyrir að hafa vermt bekkinn mest allan hluta leiksins. Vörnin var þétt hjá liðunum í síðasta leikhlutanum og taugatitringur hjá báðum liðum. Staðan var 61:63 þegar fimm mínútur voru til leiksloka og Hamarstúlkur að spila svæðisvörn sem virtist vefjast fyrir heimastúlkum. Julia Demirer hélt gestunum inní leiknum á síðustu metrunum og það sama var reyndar Birna Valgarðsdóttir að gera hinumegin á vellinum. Keflavík hafði hinsvegar tekið frumkvæðið í leiknum með frábærum varnarleik og leiddu með sjö stigum þegar ein mínúta var eftir af leiknum. Sókn Hamars rann út í sandinn á síðustu mínútunni og þar með var leikurinn unninn.
Birna Valgarðsdóttir spilaði aðeins 15 mínútur í leiknum sökum villuvandræða. En þrátt fyrir það var hún liði sínu ómetanleg þessar mínútur. Hún skoraði 21 stig og tók 6 fráköst og það sem tölfræðin sýnir ekki er að hún var að sýna mikla grimmd einnig í vörninni. Julia Demirer og Koren Schram voru bestu leikmenn Hamars að þessu sinni.
Viðtöl birtast á morgun.
Fréttir
- Auglýsing -