spot_img
HomeFréttirKeflavík-Stjarnan leikur 2: Keflavík tryggði sér oddaleik

Keflavík-Stjarnan leikur 2: Keflavík tryggði sér oddaleik

Önnur viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur fer fram í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ í kvöld. Staðan í einvíginu er 1-0 Garðbæinga í vil og dugir þeim sigur í kvöld til að komast áfram í undanúrslit.
– Það verður oddaleikur... Keflavík var rétt í þessu að leggja Stjörnuna 88-82 í mögnuðum leik. Hér var hart barist og allt á suðupunkti á löngum köflum. Oddaleikurinn fer fram í Garðabæ. 
 
– 18 sek eftir – leikhlé Keflavík og staðan 84-82. Keflavík braut á Justin Shouse í þriggja stiga skoti og Shouse öryggið uppmálað setti öll vítin. Keflavík á innkast eftir leikhléð og bæði lið komin með skotrétt. 
 
– 56 sek eftir… VÁ! Valur Orri með svaðalegan dreifbýlisþrist og kemur Keflavík í 84-79, þvílíkt skot hjá kappanum. Stjörnumenn taka leikhlé en þeir hafa misst boltann frá sér síðust tvær sóknir í röð… slæm sending og svo skref. Keflvíkingar dýrvitlausir hér á lokasprettinum og vilja klárlega mæta í Garðabæ í oddaleik!
 
– 1.40mín eftir og staðan 79-79… magnaður lokasprettur í gangi og Stjarnan var enda við að grýta boltanum frá sér út af vellinum þar sem Jovan Zdravevski gerði sekur um þessa slæmu sendingu. 
 
– 2.48mín eftir: 79-77 fyrir Keflavík og leikhlé Stjarnan. Garðbæingar eiga svo innkast undir körfu Keflavíkur eftir leikhléið. Úr Stykkishólmi er svo það að frétta að Snæfell lagði Þór Þorlákshöfn 94-84 og því mætast liðin í oddaleik í Þorlákshöfn, það verður eitthvað!
 
– 79-77 fyrir Keflavík og 3.30mín eftir – Valur Orri að skora og fá villu að auki. Að sjálfsögðu setti kappinn vítið.
 
– 5.09mín til leiksloka: Keflavík 74-76 Stjarnan… Magnús Þór að gera fyrstu stig Keflavíkur í leikhlutanum eftir 5mínútna leik! 
 
– 6.29mín eftir af leiknum: Staðan enn 72-76 fyrir Stjörnuna, Keflavík algerlega fyrirmunað að skora!
 
– 8.00 eftir af leiknum: 72-76 fyrir Stjörnuna, Garðbæingar byrja fjórða leikhluta 5-0.
 
– Þriðja leikhluta lokið: 72-71 fyrir Keflavík og það vantar ekki að hitastigið hefur rokið upp í kofanum! Keflavík vann þriðja leikhluta 27-21. Lindmets og Fannar Helga báðir með 4 villur í liði Keflavíkur. Justin með 17 stig hjá Stjörnunni og Jarryd 22 í liði Keflavíkur.
 
– 66-67 fyrir Stjörnuna og hér var verið að dæma villu á Sigurjón Lárusson í liði Stjörnunnar. Sennilega verst dulbúna ,,make-up" villa síðari ára… kannski ágætlega fallin til þess að róa Keflavíkurstúkuna.
 
– 2.19mín eftir af þriðja: 66-64 fyrir Keflavík. Maggi Gunn að fá dæmda á sig óíþróttamannslega villu í Keflavíkursókn. Sveiflaði hendi í Marvin á meðan Magnús var með boltann. Villan dæmd seint eða þegar dómarar leiksins hföðu séð einhverja áverka á Marvin og stúkan eys hér úr skálum reiði sinnar yfir dómara leiksins. Þá var Sigurður Ingimundarson rétt í þessu að fá tæknivíti fyrir samskipti sín við dómara leiksins. Og hitastigið fer hækkandi
 
– 4.02mín eftir af þriðja: 64-59 fyrir Keflavík. Maggi Gunn að setja svakalegan þrist… komið myndarlegt líf í kofann eftir fremur slepjulegar upphafsmínútur í síðari háflleik. 
 
5.50mín eftir af þriðja: 53-54 fyrir Stjörnuna, Maggi Gunn að setja sinn fyrsta þrist í leiknum! 25mín bið eftir þessum í Keflavíkinni.
 
– 6.52mín eftir af þriðja: 50-52 fyrir Stjörnuna og vörnin í fyrirrúmi núna. Báðum liðum mislagðar hendur í sóknarleik sínum.
 
– Síðari hálfleikur farinn af stað og 47-52 fyrir Garðbæinga.
 
– Skotnýting liðanna í hálfleik:
Keflavík: Tveggja 55% – þriggja 26,6% og víti 84,6%
Stjarnan: Tveggja 60% – þriggja 27,2% og víti 84,6%
 
– Hálfleikur: 45-50 fyrir Stjörnuna í hálfleik. Stjarnan gerði 27 stig í öðrum leikhluta gegn 13 frá Keflavík. Keith Cothran með 13 stig í liði Stjörnunnar og Marvin 12 en Jarryd Cole með 15 stig hjá Keflavík og Valur Orri 10.
 
– 47 sek til hálfleik og staðan 45-50 fyrir Stjörnuna eftir þrist frá Marvin Valdimarssyni. 
 
– 2.15mín eftir af öðrum leikhluta: 40-45 fyrir Stjörnuna og gestirnir mun grimmari hér á lokasprettinum.
 
– 4.01mín eftir af öðrum leikhluta: Keflavík 38-37 Stjarnan og heimamenn taka leikhlé. Keflvíkingar eru komnir aftur í maður á mann vörn. Marvin Valdimarsson hefur tekið fína spretti fyrir Stjörnuna síðustu mínútur. 
 
– 6.50mín liðnar af öðrum leikhluta – Garðbæingar skora sinn fyrsta þrist eftir 13 mínútna leik, eru 1 af 8 í þristum en þennan þrist gerði Jovan Zdravevski og fékk villu að auki og í þessari fjögurra stiga sókn minnkuðu Stjörnumenn muninn í 34-32. 
 
– Annar leikhluti hafinn og staðan 34-27 Keflavík í vil. Heimamenn leika svæðisvörn og hafa gert svo síðan á síðustu mínútum fyrsta leikhluta. Skotin ekki að rata rétta leið hjá Garðbæingum og svæði Keflavíkur að ganga fínt upp.
 
– Fyrsta leikhluta lokið: 32-23 fyrir Keflavík. Valur Orri með 10 stig í liði Keflavíkur, Keith Cothran með 7 stig hjá Stjörnunni en gestirnir brenndu af öllum sex þriggja stiga skotum sínum í leikhlutanum. Vörn Garðbæinga fremur döpur og ekki góðs viti að hleypa Keflvíkingum of langt frá sér í Toyota-höllinni.
 
– 1.44mín eftir af fyrsta, Valur Orri að smella niður Keflavíkurþrist og staðan 25-19 fyrir heimamenn. Valur kominn með 10 stig og gerir Garðbæingum lífið leitt. Leikhlé hjá Stjörnunni í gangi núna.
 
– 3.59mín eftir af fyrsta, Charlie Parker að koma Keflavík í 20-14 af vítalínunni. Lindmets 2 villur hjá Stjörnunni og sömuleiðis Cole í Keflavíkurliðinu.
 
– 5.39mín eftir af fyrsta, Fannar Helgason fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að fella Jarryd Cole. 
 
– 6.50mín eftir af fyrsta og 9-5 fyrir Keflavík, Valur Orri með 5 stig í röð fyrir Keflavík.
 
– 7.45mín eftir af fyrsta og 4-5 fyrir Stjörnuna, Cothran að stela boltanum, skora og fá villu að auki.
 
– Leikur hafinn og hér koma byrjunarliðin:
-Keflavík: Valur Orri Valsson, Magnús Þór Gunnarsson, Charlie Parker, Jarryd Cole og Almar Stefán Guðbrandsson.
-Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Keith Cothran, Renato Lindmets og Fannar Helgason. 
 
– Gunnar Hafsteinn Stefánsson leikmaður Keflavíkur var hér að taka við viðurkenningu fyrir 500 leiki með Körfuknattleiksdeild Keflavíkur. 
 
– Nú eru tæpar tíu mínútur til leiks og það hefur oft verið fjölmennara í Toyota-höllinni. Leiktíðin að veði hjá heimamönnum sem fara í sumarfrí ef þeir tapa en sigur þýðir oddaleikur í Garðabæ. 
Fréttir
- Auglýsing -