Hér að neðan fer bein textalýsing úr fyrstu viðureign Keflavíkur og Stjörnunnar í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla. Keflavík hafnaði í 2. sæti að lokinni deildarkeppninni en Stjarnan í 7. sæti. Liðin hafa eldað saman grátt silfur síðustu ár og má búast við hörku rimmu.
– Stjörnumenn hafa tekið 0-1 forystu í einvíginu gegn Keflavík. Lokatölur í þessum fyrsta leik liðanna voru 81-87. Keflvíkingar áttu magnaðan þriðja leikhluta sem þeir unnu 32-18 en Stjörnumenn létu ekki deigan síga og innbyrtu góðan sigur með 17-26 fjórða leikhluta. Shouse gerði 28 stig og gaf 8 stoðsendingar í liði Stjörnunnar, Hairston bætti við 17 stigum og 17 fráköstum. Hjá Keflavík var Craion með 28 stig og 17 fráköst og Magnús Þór Gunnarsson bætti við 18 stigum.
– Fjórði leikhluti
– Leik lokið – lokatölur 81-87 fyrir Stjörnuna sem leiðir einvígið 0-1.
– 5 sek eftir, þristur frá Guðmundi Jónssyni vill ekki niður en Craion tekur sóknarfrákastið og brotið á honum. Craion setur bæði vítin og minnkar muninn í 81-85.
– 79-85 Jón setur aðeins annað vítið.
– 12 sek eftir og tvær skottilraunir Keflvíkingar geiga og heimamenn brjóta strax á Jóni Sverrissyni sem á nú tvö víti og þessi leikur er búinn. Stjarnan er að taka hér 0-1 forystu í einvíginu!
- 31 sek eftir og dæmdur ruðningur á Marvin…Keflvíkingar eiga boltann.
– 50 sek eftir og Shouse setur tvö víti og kemur Stjörnunni í 79-84.
– 79-82 Craion skorar og fær villu að auki, setur vítið og 1.03mín til leiksloka. Rándýr flétta fyrir Keflvíkinga og lífsnauðsynleg en Garðbæingar leyfðu sér að efast um þennan dóm, þ.e. að karfan hefði átt að telja einnig.
– 76-82 Hairston hittir aðeins úr öðru vítinu.
– 1.26mín til leiksloka og brotið á Hairston sem á tvö víti en Keflvíkingar taka leikhlé og Hairston tekur skotin eftir leikhléið.
– 76-81 Marvin setur tvö Stjörnuvíti eftir að Guðmundur Jónsson braut á honum, fjórða villa Guðmundar og 2.00mín eftir af leiknum.
– 75-79 Hairston skorar starx eftir innkast Stjörnunnar með sveifluskoti, snyrtilega gert hjá Hairston sem er kominn með 16 stig og 17 fráköst í liði Garðbæinga.
– Hér er dæmd óíþróttamannsleg villa á Magnús Þór Gunnarsson þegar Jón Sverrisson fer upp að körfunni. Dómarar mátu það svo að Magnús ætti ekki séns í boltann og fékk hann því óíþróttamannslega villu. Jón setti bæði vítin og kom Stjörnunni í 75-77. Garðbæingar eiga boltann en Keflvíkingar taka leikhlé.
– 75-75 Arnar Freyr jafnar fyrir Keflavík og 3.20mín eftir af leiknum. Vel gert hjá Arnari sem smeygði sér í gegnum vörn Garðbæinga!
– 73-75 Jón Sverrisson skorar eftir hraðaupphlaup Garðbæinga og brotið á honum um leið en vítið vildi ekki niður, ekki rétti tíminn til að fara að brenna af vítum.
– 73-73 Hairston jafnar aftur fyrir Stjörnuna.
– 71-71 Marvin jafnar fyrir Stjörnuna eftir sóknarfrákast. Hér er jafnt á öllum tölum og hver karfa farin að vega ansi þungt. Shouse er helst að taka af skarið í liði Stjörnunnar þessa stundina sem og Craion Keflavíkurmegin.
– 69-67 og leikhlé í gangi þegar 6.27mín eru eftir af fjórða leikhluta. Keflvíkingar voru á miklu skriði í þriðja leikhluta og settu Garðbæinga á hælana. Stjörnumenn virðast hafa jafnað sig en eru að súpa seyðið af því að hafa ekki haft Magnús Þór Gunnarsson í gjörgæslu en MG10 er nú 5 af 12 í þristum.
– 69-67 Shouse minnkar muninn fyrir Stjörnuna og 7 mínútur til leiksloka. Þetta verður svaðalegur endasprettur!
- 67-61 Guðmundur Jónsson opnar með þrist en 67-63 Sæmundur Valdimarsson svarar starx fyrir Stjörnuna.
– Fjórði leikhluti er hafinn!

– Þriðji leikhluti
– Staðan 64-61 fyrir Keflavík eftir þrjá leikhluta! Magnús Þór braust í gegn á lokasekúndum þriðja leikhluta og fann þar Craion óvaldaðan sem skoraði auðveldlega um leið og leiktíminn rann sitt skeið. Keflavík vann þriðja leikhluta 32-18!
– 62-61 Marvin Valdimarsson svarar með þrist og Keflvíkingar eiga síðustu sóknina.
– Vitið þið hvað…? MG10 var að setja anna þrist! 62-58 fyrir Keflavík…eitthvað segir okkur að hann sé ekki hættur.
– 57-54 Jón Sverrisson minnkar muninn í þrjú stig fyrir Stjörnuna eftir góða stoðsendingu frá Justin Shouse. Staðan í leikhlutanum er 25-11 fyrir Keflvíkinga sem hafa verið miklu betri með þá Craion og Magnús Þór fremsta í flokki.
– 55-50 Magnús Þór með sinn fimmta þrist! Hann byrjaði leikinn á múrstein en er orðinn sjóðheitur maðurinn. Ekki seinna vænna en að Stjörnumenn fari að huga soldið að kallinum fyrir utan þriggja stiga línuna.
– 52-50 Shouse með eitt víti fyrir Stjörnuna en Garðbæingar hafa verið í gríðarlegu basli gegn Keflavíkurvörninni sem hefur verið þétt og grimm allan þriðja leikhlutann.
– 48-47 Magnús Þór með þrist fyrir Keflavík, sinn fjórða í leiknum.
– 45-47 Hairston blakar boltanum ofan í eftir sóknarfrákast, Hairston einn Stjörnumanna búinn að skora í síðari hálfleik og þarna batt hann enda á 13-0 skrið Keflavíkur.
– 45-45 Craion jafnar eftir sóknarfrákast og TM-Höllinn lætur vel í sér heyra. 13-0 demba í fullum gangi hjá Keflavík.
– Fannar Helgason fær hér dæmt á sig tæknivíti fyrir að því er virðist óhófleg fagnaðarlæti við það er Craion fékk dæmt á sig skref í Keflavíkurliðinu. Garðbæingar allt annað en sáttir við þetta tæknivíti. Magnús Þór setur aðeins annað vítið og minnkar muninn í 43-45 og 11-2 byrjun Kefavíkur staðreynd.
– 40-45 Lewis með Keflavíkurþrist og 42-45 Craion með tvö hraðaupphlaupsstig, stemmningin öll Keflavíkurmegin hér í upphafi síðari hálfleiks.
– 37-45 MG10 að bomba niður þrist fyrir Keflvíkinga. Síðari hálfleikur ekki síður fjörlegur.
– 32-45 Hairston gerir fyrstu stig síðari hálfleiks fyrir gestina eftir gegnumbrot. 34-45 en Guðmundur Jónsson svarar að bragði strax í næstu Keflavíkursókn.
– Þriðji leikhluti er hafinn!
________________________________________________________________________________________________________________________
________________________________________________________________________________________________________________________
Hálfleikstölur: Keflavík 32-43 Stjarnan
Skotnýting Keflavíkur: Tveggja 35,3% – þriggja 21,7% og víti 55,6%
Skotnýting Stjörnunnar: Tveggja 50% – þriggja 46,7% og víti 66,7%
Stigahæstu menn í hálfleik:
Valur Orri Valsson, Keflavík – 7 stig
Justin Shouse, Stjarnan – 17 stig

– Annar leikhluti:
– 32-43 – Fyrri hálfleik lokið! Hairston lokaði fyrri hálfleik fyrir Stjörnuna með körfu í teignum.
– 32-41 Shouse skorar eftir erfitt gegnumbrot og 40 sek eftir af fyrri.
– 32-38 Shouse með enn einn þristinn, kallinn er að „finna´ða“ hérna í Keflavíkinni í kvöld. Keflvíkingar búnir að hleypa á sig 7 þristum og Stjarnan setja 7 af 15 tilraunum, ekki svo slæmt það.
– 32-35 Craion setur eitt á línunni og 2.39mín eftir af fyrri hálfleik.
– 29-35 tveir Stjörnuþristar í röð, fyrst Marvin og svo Dagur og Garðbæingar komnir með sex þrista á fyrstu 16 mínútum leiksins.
– 29-27 Valur Orri gerir sín sjöundu stig í öðrum leikhluta eftir góða stoðsendingu frá Magnúsi Þór. Virkilega fín innkoma hjá Val hér í öðrum leikhluta.
– 26-26 VÁ! Junior Hairston með viðstöðulausa „off the rim“ troðslu og þeir fáu Garðbæingar sem mættir eru í stúkuna láta sér þetta vel líka. Nú er leikhlé í gangi og 6.14mín eftir af öðrum leikhluta.
– 26-24 Magnús Þór með þrist og kemur Keflvíkingum yfir, miðið komið í lag.
– 21-24 Sæmundur Valdimarsson gerir sín fyrstu stig í kvöld fyrir Stjörnuna eftir sóknarfrákast, annar leikhluti fer fjörlega af stað.
– 19-22 Valur Orri kemur flottur inn í annan leikhluta, byrjar á þrist og skömmu síðar klárar hann flott gegnumbrot.
– Annar leikhluti er hafinn…

– Fyrsti leikhluti:
– Fyrsta leikhluta lokið, staðan 14-22 Stjörnuna í vil, flott vörn gestanna og Craion ekki enn komið á blað, það munar um minna fyrir Keflvíkinga. Lewis og Arnar Freyr báðir með 6 stig hjá Keflavík en Shouse kominn með 9 stig í liði Keflavíkur.
– MG10 beint inn af bekknum og upp í þrist sem snerti ekki neitt…aðeins að stilla miðið, myndi ekki búast við fleiri svona múrsteinum frá vélbyssunni svo það er réttast fyrir Stjörnuvörnina að hafa góðar gætur á Magnúsi.
– 11-20 Shouse með annan þrist en 14-20 andsvar strax frá Arnari Frey, það vantar ekki fjörið hérna í TM-Höllina.
– Fyrsti leikhluti fór hér rólega af stað en það hitnar hér með hverri mínútunni, komin aðvörun og stimpingarnar þegar hafnar og menn að selja sig dýrt.
– 11-17 fyrst setur Lewis þrist fyrir Keflavík en því svarar Shouse strax í sömu mynt.
– Dagur Kár leikmaður Stjörnunnar fær hér aðvörun frá dómurum leiksins og þeir Snorri og Teitur kippa honum á bekkinn til kælingar og inn kemur Björn Steinar í hans stað.
– 8-14 Gunnar Ólafsson með tvö góð stig fyrir Keflvíkinga eftir sitt eigið frákast eftir þriggja stiga skot.
– 6-10 Lewis með heimaþrist og Keflvíkingar koma 5-0 út úr leikhléinu og þetta kann stúkan að meta. Endurnýjuð trommusveit skipuð að því er virðist að stórum hluta verkfallsnemum lætur vel til sín taka.
– 3-10 Arnar Freyr með stökkskot fyrir Keflavík ferskur út úr leikhléinu.
– 1-10 Fannar Helga með þrist, kappinn með fimm Stjörnustig í röð og þeir Falur og Jón kalla sína menn í Keflavík á bekkinn í leikhlé.
– 1-5 Shouse með Stjörnuþrist og skömmu síðar er Hairston með flotta stoðsendingu á Fannar sem leggur hann að hætti hússins með vinsri og staðan 1-7 gestina í vil.
– 1-2 Arnar Freyr Jónsson með fyrstu stig heimamanna af vítalínunni.
– 0-2 Hairston opnar leikinn með stökkskoti fyrir Stjörnuna við endalínuna.
– Leikurinn er hafinn og það eru gestirnir úr Garðabæ sem vinna uppkastið.
– Fyrir leik:
– Mínúta í leik…
– Byrjunarliðin í kvöld
Keflavík: Arnar Freyr Jónsson, Gunnar Ólafsson, Guðmundur Jónsson, Darrel Lewis og Michael Craion.
Stjarnan: Justin Shouse, Dagur Kár Jónsson, Marvin Valdimarsson, Junior Hairston og Fannar Freyr Helgason.
– Þá tilkynnist það hér með að Pétur Hrafn Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri KKÍ og efsti maður á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi er eftirlitsmaður á leiknum í kvöld. Þetta verður í öruggum höndum gott fólk.
– 13 mínútur í leik og hér trítlar inn Birgir Örn Birgisson þjálfari KFÍ og fyrrum leikmaður Keflavíkurliðsins. Birgir Örn er þekktur jaxl sem lék sitt fyrsta tímabil í efstu deild með Þór Akureyri 1991-1992 og var þá með 3,3 stig að meðaltali í leik.
– Keflavík vann báðar deildarviðureignir liðanna á tímabilinu. Liðin mættust fyrst í Ásgarði þar sem Keflavík hafði öruggan 63-88 útisigur en síðari deildarviðureign liðanna sem fram fór í Keflavík var mun jafnari en lauk þó með 96-93 sigri Keflavíkur.
– Dómarar kvöldsins eru þeir Leifur Garðarsson, Halldór Geir Jenssen og Davíð Kristján Hreiðarsson.
– Nú eru um 19 mínútur til leiks og fólk að týnast í hús.

Deginum ljósara að Joey Drummer er kominn með bullandi samkeppni í Keflavíkinni



