spot_img
HomeFréttirKeflavík sterkari á lokasprettinum - Risaþristur Vals gerði útslagið

Keflavík sterkari á lokasprettinum – Risaþristur Vals gerði útslagið

Keflvíkingar tryggðu sér oddaleik í 8-liða úrslitum eftir magnaðan 88-82 sigur á Stjörnunni í kvöld. Útlitið var svart hjá heimamönnum sem skoruðu ekki stig fyrstu fimm mínúturnar í fjórða leikhluta en svo losnaði um hömlurnar og sextán stig runnu niður og þrjú þeirra gerði ískaldur Valur Orri Valsson þegar 56 sekúndur lifðu leiks, þá kom hann Keflvíkingum í 84-79 og er óhætt að segja að þessi magnaði þristur hafi farið langt með að reynast banabiti Garðbæinga í kvöld. Ljóst er að liðin mætast í oddaleik í Garðabæ á fimmtudag og ekki verður harkan síðri þá en í kvöld losnaði m.a. um framtönn í Marvin Valdimarssyni!
Þegar kynningu liðanna var lokið skömmu fyrir leik heiðruðu Keflvíkingar reynsluboltann Gunnar Hafstein Stefánsson fyrir sinn 500. leik fyrir félagið.
 
Marvin Valdimarsson límdi sig á Magnús Þór Gunnarsson strax frá fyrstu sekúndu og komst Marvin ansi langt með Magnús og þótti mörgum fullmikið á köflum. Á meðan Magnús barðist við að hrista af sér skuggann losnaði um Val Orra sem gerði Garðbæingum lífið leitt og setti tíu stig í fyrsta leikhluta, svellkaldur að venju.
 
Fannar Helgason fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að fella Jarryd Cole, eitthvað verið að hleypa upp hitanum en glórulaus villa hjá miðherjanum örvhenta engu að síður. Vörn Garðbæinga var hriplek í fyrsta leikhluta og þeir gátu ekki keypt skot fyrir utan og því leiddu Keflvíkingar 32-23 eftir fyrsta leikhluta. Þá má ekki gleyma stærstu þriggja stiga skyttu landsins, að sjálfsögðu kom Halldór Örn Halldórsson af tréverkinu hjá Keflavík og smellti niður þrist, eitthvað sem Stjörnumönnum dreymdi um enda 6-0 í þristum hjá þeim eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Keflvíkingar héldu áfram í svæðisvörn í upphafi annars leikhluta en þannig lokuðu þeir fyrsta leikhluta. Það hlýnaði aðeins í liði Stjörnunnar þegar Jovan gerði fyrsta þristinn þeirra í áttundu tilraun en hann fékk villu að auki og smellti vítinu niður, fjögurra stiga sókn og staðan 34-32 fyrir Keflavík. Marvin Valdimarsson tók einnig á rás í öðrum leikhluta og lék vel. Halldór Örn læddi niður öðrum þrist fyrir Keflavík en það var Marvin sem átti lokaorðið í fyrri hálfleik, annar þristur og Stjarnan leiddi 45-50 í hálfleik.
 
Keith Cothran var með 13 stig og Marvin 12 hjá Stjörnunni í leikhléi en hjá Keflavík var Jarryd Cole með 15 stig og Valur Orri Valsson 10.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Keflavík: Tveggja 55% – þriggja 26,6% og víti 84,6%
Stjarnan: Tveggja 60% – þriggja 27,2% og víti 84,6%
 
Í þriðja leikhluta náði Mangús Þór að hrista af sér ,,yfirhöfnina" sem hafði hangið í honum og skellti niður þrist, hans fyrsti en ekki síðasti og það í áttundu tilraun. Keflavík fór inn í 6-0 áhlaup og leiddu 59-54, annar þristur frá Magnúsi breytti stöðunni svo í 64-59.
 
Marvin Valdimars og Magnús Þór elduðu saman grátt silfur í kvöld, stúkan tók roku þegar dæmd var óíþróttamannsleg villa á Magnús Þór. Dómurinn kom mjög seint, þ.e. nokkru eftir að brotið var framið en Magnús rak þá olnboga í Marvin og fyrir vikið losnaði um framtönn hjá Marvin. Sigurður Ingimundarson fékk tæknivillu skömmu síðar á Keflavíkurbekknum og stúkan við það að ærast Keflavíkurmegin. Strax í næstu Stjörnusókn fékk Sigurjón Lárusson dæmda á sig villu í boltabaráttu, illa dulbúin miskabótarvilla. Já sitt sýndist hverjum í stúkunni og víðar en öldurótið lægði á endanum og Keflavík leiddi 72-71 eftir þriðja leikhluta sem þeir unnu 27-21.
 
Stjarnan byrjaði fjórða leikhluta með 5-0 áhlaupi og leiddu 72-76 og þannig stóðu leikar uns fimm mínútur voru til leiksloka. Magnús Þór skoraði loks fyrir Keflavík af vítalínunni og minnkaði muninn í 74-76. Valur Orri Valsson steig svo upp á lokasprettinum, kom Keflavík í 79-77 er hann skoraði eftir hraðaupphlaup og fékk villu að auki. Skömmu síðar kom hann Keflavík í 84-79 með svakalegri þriggja stiga körfu þegar 56 sekúndur voru til leiksloka. Risavaxin karfa sem í raun gerði út um leikinn. Justin Shouse minnkaði muninn í 84-82 er hann skoraði úr þremur vítum en Keflvíkingar héldu spilunum þétt að sér og prísuðu sig sæla með tvo stóra sóknarfeila hjá Stjörnunni á lokasprettinum þegar Garðbæingar grýttu fyrst frá sér boltanum og fengu svo dæmt á sig skref. Dýrkeypt mistök sem Keflvíkingar refsuðu fyrir, lokatölur 88-82 og því fá körfuknattleiksáhugamenn oddaleik í Ásgarði, það gæti orðið áhugavert svo ekki sé nú meira sagt.
 
Charles Parker gerði 24 stig og tók 12 fráköst í liði Keflavíkur. Jarryd Cole splæsti einnig í tvennu með 22 stig og 14 fráköst en Valur Orri Valsson stal senunni með 16 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 20 stig og 8 fráköst og Marvin Valdimarsson gerði 18 stig og tók 7 fráköst. Garðbæingar geta vel nagað sig í handarbökin eftir leikinn í kvöld en þeir voru klaufalegir í aðgerðum sínum á lokasprettinum.
 
Heildarskor:
 
Keflavík: Charles Michael Parker 24/12 fráköst, Jarryd Cole 22/14 fráköst, Valur Orri Valsson 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 15/6 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 6, Almar Stefán Guðbrandsson 5, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
 
Stjarnan: Justin Shouse 20/8 fráköst, Marvin Valdimarsson 18/7 fráköst, Keith Cothran 14/4 fráköst, Jovan Zdravevski 11/7 fráköst, Renato Lindmets 9/8 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 4, Dagur Kár Jónsson 4, Fannar Freyr Helgason 2, Aron Kárason 0, Guðjón Lárusson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.
 
Byrjunarliðin:
-Keflavík: Valur Orri Valsson, Magnús Þór Gunnarsson, Charlie Parker, Jarryd Cole og Almar Stefán Guðbrandsson.
-Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Keith Cothran, Renato Lindmets og Fannar Helgason.
 
Fréttir
- Auglýsing -